Marlies Schild
Marlies Schild
MARLIES Schild frá Austurríki sigraði á heimsbikarmóti í svigi sem fram fór í Lienz í gær. Schild hefur ekki fagnað sigri á heimsbikarmóti í eitt ár vegna meiðsla en hún var fremst í flokki á heimsbikarmótunum árið 2007 og 2008.

MARLIES Schild frá Austurríki sigraði á heimsbikarmóti í svigi sem fram fór í Lienz í gær. Schild hefur ekki fagnað sigri á heimsbikarmóti í eitt ár vegna meiðsla en hún var fremst í flokki á heimsbikarmótunum árið 2007 og 2008. Schild náði besta tímanum í báðum umferðum og kom hún í mark á tímanum 57,65 sek. Schild fótbrotnaði í október árið 2008 á æfingu fyrir fyrsta heimsbikarmótið í Sölden. Sandrine Aubert frá Frakklandi varð önnur í keppninni, hún var tæplega 2 sekúndum á eftir Schild en Aubert hefur unnið tvívegis á þessu tímabili í svigi.

Andrej Jerman frá Slóveníu sigraði í gær í brunkeppni í heimsbikar karla sem fram fór í Bormio á Ítalíu. Jerman, sem er þrítugur að aldri, vann þarna sitt annað brunmót í heimsbikarnum á ferlinum en fyrri sigurinn vann hann í Garmisch í Þýskalandi árið 2007. Hann fór brautina á 2:00,32 mínútum en annar varð Didier Defago frá Sviss og þriðji Michael Walchhofer frá Austurríki. Mario Scheiber frá Austurríki fékk reyndar næstbesta tímann en var dæmdur úr leik vegna ólöglegs skóbúnaðar. seth@mbl.is