Jón Kristinn Hansen kennari fæddist hinn 7. nóvember 1934 á Eskifirði. Hann lést á heimili sínu hinn 19. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Anna Kristín Jónsdóttir frá Eskifirði, f. 17.1. 1903, d. 24.2. 1998, og Martin Hansen (fæddur Torgilstveit) frá Harðangri í Noregi, f. 19.2. 1905, d. 3.4. 1987.

Jón kvæntist hinn 9. júní 1973 Ingibjörgu Júlíusdóttur kennara, f. 9.7. 1945. Foreldrar hennar voru Kristín Símonardóttir, f. 14.7. 1926, d. 27.9. 2006, og Júlíus Halldórsson, f. 26.2. 1924, d. 4.10. 1998. Jón og Ingibjörg eignuðust þrjár dætur. 1) Kristín, f. 10.11. 1973. Maki Pálmi Erlendson, f. 17.5. 1967. Synir þeirra eru a) Jón Logi, f. 14.11. 2000. b) Baldur Máni. f. 27.9. 2004. Dóttir Pálma og Hugrúnar Hólmgeirsdóttur, f. 29.6. 1970, c) Álfrún, f. 29.8. 1992. 2) Hildur, f. 17.3. 1977. Maki I) Ásgeir Örn Ásgeirsson, f. 7.6. 1973. Dætur þeirra eru a) Valgerður, f. 26.3. 1999. b) Gunnhildur, f. 6.8. 2002. Maki II) Steindór S. Guðmundsson, f. 24.7. 1972. Dóttir þeirra er c) Ásdís, f. 17.2. 2009. 3) Gerður, f. 7.6. 1979. Maki Hannes Helgason, f. 30.7. 1977. Dóttir þeirra er Iðunn Anna, f. 25.10. 2006.

Jón dvaldi með fjölskyldu sinni í Noregi árin 1938-'39. Frá 1940 bjó fjölskyldan á Njarðargötu 35 ásamt systur Önnu og dætrum hennar fimm. Þar fæddist systir Jóns, Gyða, f. 3.9. 1942. Maki Gyðu var Úlfar Guðmundsson, f. 2.5. 1940, d. 2.1. 2009. Þau eiga 3 börn og 3 barnabörn. Fjölskylda Jóns átti sumarbústað í Varmadal í Mosfellsbæ og voru þau þar á sumrin auk þess sem Jón fór nokkur sumur í sveit. Jón gekk í Miðbæjarskólann, Austurbæjarskóla og MR og tók þaðan stúdentspróf árið 1954. Hann gerði stuttan stans í Háskóla Íslands og vann ýmis störf áður en hann fór að kenna. Árið 1963 hóf Jón kennslu við Austurbæjarskóla og kenndi þar til ársins 1987. Sama ár hóf hann kennslu við Seljaskóla og kenndi þar til ársins 2001. Sem kennari gekk Jón undir nafninu Jón Marteinsson. Ingibjörg og Jón byggðu hús í Yztaseli, Seljahverfi, og bjuggu þar ásamt dætrum sínum frá árinu 1978. Frá árinu 2001 hafa Ingibjörg og Jón búið í Grafarvogi.

Útför Jóns fer fram frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 30. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 11.

Að morgni 19. desember sat ég við rúmið hans Jóns með bók sem ég hafði sótt úr bókahillu hans. Ég sagði honum að ég væri að glugga í Sögu mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason og þóttist sjá kunnuglega brosvipru. Þessa brosvipru og glampa í augum hafði ég margoft séð um sumrin sem ég eyddi á Naustabryggju í doktorsnáminu þar sem ég stóð oft upp frá rannsóknarvinnu og dreypti á óþrjótandi viskubrunni tengdaföður míns. Það breytti engu hvert umræðuefni okkar var því alltaf gat Jón fundið áhugaverðan og óhefðbundinn flöt á viðfangsefninu. Áreynslulaust tókst honum að kristalla hugsanir sínar í orð.

Þennan morgun þar sem ég sat við hlið Jóns hafði ég af tilviljun opnað bókina í kafla um heimspekinginn Epiktet. Þar fann ég ýmislegt sem minnti á umræðuefni okkar Jóns og sumt hefði getað verið bein lýsing á manngerð hans: „Ekki getum vér gert að, hvað oss kann að detta í hug, en eitt er oss sjálfrátt, hvaða siðferðilegt markmið vér setjum oss og hvort vér breytum samkvæmt því.“ Frá þessum morgni hefur hins vegar endurómað í huga mér önnur setning úr þessum kafla: „Seg þú aldrei um neitt: „Ég hef misst það.“ heldur aðeins: „Ég hef skilað því aftur.““

Hvíldu í friði, vinur.

Þinn tengdasonur,

Hannes Helgason.

Elskulegur mágur, Jón Kr. Hansen, er fallinn frá. Kennari af guðs náð, lífskúnstner og veiðimaður, eiginmaður og faðir.

Leiðir okkar Jóns lágu fyrst saman þegar hann kenndi mér í Austurbæjarskólanum fyrir margt löngu. Þá var hann að hefja kennsluferil sinn og var afburðakennari, glöggur, strangur, vel að sér í kennsluefninu og sýndi nemendum sínum áhuga og alúð. Þannig sinnti hann kennslunni alla tíð og kunna margir nemendur honum þakkir fyrir frábæra kennslu.

Allnokkrum árum síðar giftist hann stóru systur minni og varð þannig hluti af fjölskyldunni. Sá Jón sem ég þá kynntist var vakinn og sofinn yfir velferð fjölskyldunnar. Hans stolt og metnaður voru dæturnar þrjár, menntun þeirra, velferð, heill og hamingja. Segja má að þær hafi staðið undir þeim væntingum öllum, hver á sinn hátt.

Heimili hans og systur minnar í Ystaselinu stóð alltaf opið fyrir frændsystkinunum og nutu börnin mín góðs af, enda á svipuðum aldri. Þau hjón höfðu unun af ferðalögum og oft var farið í útilegu eða leigður bústaður. Munaðarnesferðirnar forðum þegar krakkarnir voru litlir voru sérstaklega ánægjulegar. Jón hafði yndi af sígildri tónlist og þau hjón lögðu áherslu á að dæturnar lærðu á hljóðfæri. Gekk það allt eftir og spilar Kristín á fiðlu, Hildur á selló og Gerður á kontrabassa. Tengdasynirnir eru einnig liðtækir þegar kemur að tónlistinni og hafa verið settar upp hljómsveitir af ýmsum tilefnum í fjölskyldunni. Nú eru barnabörnin tekin við í tónlistarnáminu.

Jón var ástríðufullur veiðimaður. Silungsveiði í Meðalfellsvatni á sumarkvöldi var þar hápunkturinn og ferðirnar oft rifjaðar upp yfir veturinn. Jón átti ekki langt að sækja veiðibakteríuna því Marteinn faðir hans var afburðasnjall stangveiðimaður. Hjónin höfðu líka alltaf mikla ánægju af gönguferðum og leið vart sú helgi að ekki væri farið í eina slíka. Á meðan dæturnar voru ungar voru þær ekki alltaf jafnánægðar með þessa háttsemi foreldranna, en síðar lærðu þær að meta gildi útiverunnar og tóku upp siði foreldranna.

Á seinni árum hefur fjölskyldan stækkað og tengdasynir og barnabörn orðið fyrirferðarmeiri. Jón hefur látið sér jafnannt um hvert og eitt þeirra og þau hjón hafa meira að segja lagt það á sig að búa einn vetur í Svíþjóð til að geta verið nær barnabörnunum í Uppsala.

Jón tók ákvarðanir eftir að hafa farið vandlega yfir mál, vegið og metið kosti og galla og fært rök að niðurstöðu. Hvatvísi var ekki að hans skapi heldur var afstaða hans ætíð ígrunduð í öllum málum. Jón hafði alla tíð lifandi áhuga á þjóðfélagsmálum og bar hag lítilmagnans fyrir brjósti. Oft höfum við hjónin setið og gert úttekt á málum líðandi stundar með Ingibjörgu og Jóni. Síðustu mánuði, orðinn máttfarinn og heilsulaus, undi hann löngum við sjónvarpið og fylgdist með umræðum í beinni útsendingu frá Alþingi.

Ég kveð minn góða mág og votta systur minni, dætrunum og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð.

Lára V. Júlíusdóttir.

Vinur minn Jón Kristinn Hansen er dáinn. Fyrstu minningar mínar um Jón eru frá leikjum krakkanna í hverfinu okkar sem markaðist af Njarðargötu og Baldursgötu annars vegar og hins vegar af Freyjugötu og Bergstaðastræti. Jón var fjórum árum eldri en ég og því oft í fararbroddi í leikjunum.

Í raun var Reykjavík öll leiksvæði okkar því að Reykjavík var einungis lítill bær í miklum vexti á þessum tíma.

Þegar við vorum komnir á unglingsár var Jón í vinahópi bróður míns Guðmundar Jóhanns. Hópurinn hafði aðsetur í neðri stofunni á Kambi, Urðarstíg 7a þar sem við systkinin þrjú ólumst upp. Þessum vinahópi kynntist ég því vel og áhugamálum þeirra. Þrennt stóð upp úr í þessum efnum, klassísk músík, tafl og íþróttir. Þótt ég væri yngri lærði ég að meta klassíska músík sem spiluð var af vínylplötum í stofunni sem og að tefla. Beethoven og Bach voru efstir á listanum. Ég sé ennþá fyrir mér hópinn að tefla hraðskák í stofunni, hlustandi með öðru eyranu á músíkina. Einnig man ég vel eftir þeim hlaupandi hundrað metra hlaup á Urðarstígnum og þá var tíminn mældur nákvæmlega á skeiðklukku.

Jón spilaði stundum á harðangursfiðlu föður síns, Martins Hansens Torgilstveits en Martin spilaði norska þjóðlagamúsík af mikilli snilld á skelplötuskreytta fiðluna.

Örlögin höguðu því þannig til að við Jón urðum perluvinir og bar aldrei skugga á. Ég var heimagangur hjá þeim Önnu og Martin árum saman og kynntist því öllu frændfólkinu sem tengdist honum á Njarðargötu 35.

Jón var mikill veiðimaður eins og Martin, faðir hans og fór oft með honum og veiðifélögunum í laxveiðiferðir. Ég man eftir því að þeir feðgar voru að reyna að kenna mér flugukast og hnýta flugu og í sumarbústaðnum í Varmadal var Martin að kenna okkur að skjóta í mark.

Jón hóf ungur kennslu hjá Arnfinni Jónssyni í Austurbæjarskólanum og féll strax vel inn í hina margfrægu kennaraelítu skólans. Það varð síðan ævistarf Jóns að kenna unglingum. Allir vita, sem reynt hafa, að kennsla unglinga á þessu viðkvæma æviskeiði er eitt erfiðasta starf í henni veröld. Ég þekki engan sem náð hefur slíkum tökum á þessari kennslu sem Jón og skipti engu máli hvaða grein hann kenndi. Þakklátastir voru þeir sem átt höfðu í erfiðleikum að læra stærðfræði, þeir voru allir sammála um að hann hefði verið þeirra bjargvættur.

Í einkalífinu var Jón mikill gæfumaður. Hann eignaðist góða konu, Ingibjörgu Júlíusdóttur, og með henni þrjár dætur, Kristínu, Hildi og Gerði.

Við hjónin færum Ingibjörgu, dætrunum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

Í Austurbæjarskólanum kynntumst við Jóni Marteinssyni Hansen, en hann réðst til kennslu þar árið 1963. Sá kunningsskapur varð smám saman að vináttu sem engan skugga hefur á borið.

Í starfi sínu var Jón nákvæmur og skyldurækinn og áhugasamur um framgang nemenda sinna. Hann gat séð í gegnum fingur sér við menn vegna breyskleika og vangetu en fúsk og hyskni þoldi hann alltaf afar illa. Sjálfur lagði Jón alltaf mikla alúð við allt sem hann tók sér fyrir hendur.

Jón var dagfarsprúður maður en skapmikill og gat funað upp ef því var að skipta en sáttfús og alla jafna glaður í bragði.

Við félagarnir tókum snemma upp þann sið að fara dagstund í veiði við skólalok á vorin og komumst þá að því hver veiðikló Jón var. Hann hafði vanist því frá unga aldri að fara með föður sínum og félögum hans í veiðiferðir í ýmsar ár landsins og það duldist okkur ekki hvað minningarnar um þessar ferðir hans með föður sínum voru honum dýrmætar og vafalaust hefur Martin haft ánægju af að leiðbeina þessum athugula og skarpa syni sínum.

Í einkalífi sínu var Jón gæfumaður. Árið 1973 kvæntist hann sinni góðu konu, Ingibjörgu Júlíusdóttur, og eignuðust þau þrjár dætur. Ingibjörg og Jón hafa verið sérlega samhent hjón og vakað yfir velferð fjölskyldu sinnar. Á undanförnum árum hafa barnabörnin komið hvert af öðru og glatt afa sinn og ömmu.

Eins og gengur í lífinu greinast leiðir manna og svo hefur líka verið um leiðir okkar félaga. Vinátta okkar hefur þó aldrei rofnað og við fylgst hver með öðrum ef „vík hefur verið milli vina“.

Á seinni árum höfum við farið í nokkurra daga ferðir síðsumars ásamt mökum okkar, sjálfum okkur og félagsskap okkar til mikillar hressingar. Síðustu ferðina fórum við austur á land fyrir rúmu ári, meðal annars til Eskifjarðar, en þar var Jón fæddur. Allmikið var heilsu hans þá farið að hraka, en hann lét sig hafa það og hafði gaman af.

Það hefði ekki verið Jóni að skapi að hér væri farið með mærðarþulu, en samskipti okkar við Jón Marteinsson Hansen eru orðin löng og góð og nú þegar göngu hans er lokið hér, langar okkur að minnast hans með nokkrum orðum, þakka honum samfylgdina og kveðja góðan dreng og góðan vin.

Ingibjörgu og fjölskyldu þeirra Jóns biðjum við blessunar.

Björn og Margrét, Hjalti

og Arnfinnur.

Í uppvextinum bjó Jón Marteinsson Hansen á Njarðargötunni og hjarta hans sló með þeim rauðu í Val. Jón talaði tæpitungulaust um frammistöðu sinna manna á knattspyrnuvellinum en lét samt ekki tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur. Hann var málefnalegur og fór alltaf í boltann, eins og sagt er, en aldrei í manninn. Þeir Arnfinnur félagi hans fóru stundum á völlinn. Þeir héldu með Val en að öðru leyti kann ég ekki að skipa Jóni í félög eða flokka. Á áratuga kennaraferli kynntist hann og kenndi fleiri hundruð unglingum. Fyrst í Austurbæjarskóla og síðar í Seljaskóla, en þá hafði hann flutt í Seljahverfið með fjölskyldu sinni. Jón var ekki sá sem gustaði af með gassagangi. Ég heyrði hann aldrei brýna raustina þó að hann hafi ef til vill einhvern tíma gripið til þess ráðs í kennarastarfinu. Mál hans var hreint og milt og miðaði ávallt til gagns fyrir aðra menn. Þeir nemenda hans sem ég þekki bera honum fagurt vitni. Jón var hófsamur og hafði stjórn á lífi sínu og starfi. Jón átti norskar rætur og dvaldi tæp tvö ár í Noregi á unga aldri. Faðir hans var frá Harðangri. Jón var stoltur af norskum uppruna sínum og átti í honum skjól og vörn við þeim kjánahrolli sem stjórnmál og ófagmennska vekja með Íslendingum, endrum og sinnum. Jón var afbragðs veiðimaður í ám og vötnum. Ég man ekki hvort hann skaut fugla. Hann hafði yndi af ferðalögum og náttúrunni og sagði skemmtilega frá. Þegar hann gekk í hjónaband og dæturnar komu í heiminn, ein af annarri, dró úr laxveiðiferðunum. Útiverunnar naut hann áfram í ríkum mæli með konu sinni og dætrum. Við Jón töluðum um knattspyrnu, fiska og önnur dýr í náttúrunni, veiðiskap, gróður og gróðurfar og mannlega breytni. Ég hafði meira orðið um knattspyrnu, hann fræddi mig um allt hitt og tónlist að auki. Að frátöldum knattspyrnumönnum töluðum við ekki um einstaklinga nema almennt. Jón talaði vel um fólk. Lét annars vera að tala um það. Við ræddum ekki um stjórnmál nema til að átta okkur á afleiðingum stjórnarathafna. Um trúmál ræddum við ekki en Jón var þó sannkristin manneskja og hafði yndi af kirkjutónlist. Það er til merkis um gæfu Jóns og lífsvit að hann dó á heimili sínu umvafinn matarilmi og hlýju. Hjá honum voru kona hans, dæturnar, tengdasynir og barnabörnin. Þeim öllum og systur hans votta ég samúð. Hjá mér lifir minning um einn þann besta mann sem ég hef kynnst.

Þorsteinn Haraldsson.

Kveðja frá Seljaskóla

Jón Kr. Hansen hét hann, en minningarnar eigum við um manninn, kennarann og félagann Jón Marteinsson, eins og hann var alltaf kallaður í skólanum. Jón kenndi um árabil við skólann. Við vorum ekki illa sett á þeim árum í Seljaskóla með allar þessar stórbrotnu persónur í starfsliði skólans, Hjalta Jónasson skólastjóra, Jóhönnu Þorgeirsdóttur, Málfríði Önnu Guðmundsdóttur, Jón Marteins. og Ásgeir Pálsson. Við sem yngri vorum í starfsliðinu eigum margar góðar minningar um þau og samræður þeirra á kennarastofunni. Þá var nú ekki alltaf lognmollan. Þau höfðu öll miklar skoðanir á hlutunum. Af þessum kjarnahópi eru Jóhanna Þorgeirsdóttir og Jón Marteinsson nú horfin á braut.

Jón naut mikillar virðingar meðal nemenda sinna og samstarfsfólks. Það fór einstakt orð af honum sem kennara. Hann var kennari af lífi og sál, gat verið strangur en mjög stutt í hlýjuna og glettnina. Hann var líka réttlátur, gerði kröfur en var mjög umhugað um nemendur sína. Hann kenndi íslensku og stærðfræði í unglingadeild skólans. Það var sama hvor greinin var, hann var jafnvígur á þær báðar. Það komst enginn hjá því að læra hjá Jóni hvort sem það var íslenska eða stærðfræði. Veit ég að margir nemendur Jóns minnast hans með mikilli þökk og virðingu. Margs er að minnast. Umsjónarnemendum Jóns í unglingadeild eitt árið þótti hann ganga um á heldur lélegum og úr sér gengnum inniskóm í skólanum og færðu honum glænýja fallega brúna klossa að gjöf. Varð Jón mjög kátur með þessa umhyggju nemendanna og notaði þessa brúnu klossa ævinlega síðan í skólanum. Vakti þessi gjöf mikla athygli og kátínu meðal starfsfólks og nemenda.

Jón var ekki síður kennari kennaranna í skólanum. Margar ferðirnar áttu þeir í stofu 41 til Jóns til að leita ráða og fá leiðbeiningar um hvernig best væri að matreiða þetta eða hitt stærðfræðidæmið ofan í nemendur, flókin íslensk málfræðiatriði eða torskilin tengsl manna í Gíslasögu. „Hvernig myndir þú kenna þetta Jón?“ var spurt og alltaf átti Jón góð ráð. Enginn fór tómhentur úr smiðju hans.

Við kvöddum Jón með söknuði þegar hann lét af störfum við skólann fyrir aldurs sakir, en við vissum að hann mundi njóta stunda lífsins með Ingibjörgu konu sinni, dætrunum þremur og þeirra fjölskyldum. Við eigum margar góðar minningar um góðan vin og félaga og biðjum góðan Guð að styrkja Ingibjörgu, dæturnar og fjölskyldur þeirra í sorginni. Blessuð sé minning hans.

Margrét Árný Sigursteinsdóttir.