<strong>Bátur </strong>Fyrir kaupin átti Völusteinn línubátinn Hrólf Einarsson.
Bátur Fyrir kaupin átti Völusteinn línubátinn Hrólf Einarsson.
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is ÚTGERÐARFÉLAGIÐ Völusteinn ehf. hefur keypt allar eignir þrotabús útgerðarfyrirtækisins Festar ehf. í Hafnarfirði, en þar á meðal eru aflaheimildir upp á 1.650 þorskígildistonn.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

ÚTGERÐARFÉLAGIÐ Völusteinn ehf. hefur keypt allar eignir þrotabús útgerðarfyrirtækisins Festar ehf. í Hafnarfirði, en þar á meðal eru aflaheimildir upp á 1.650 þorskígildistonn. Við þær bætast sex bátar, fiskvinnsla og aðrar fasteignir í Hafnarfirði og á Djúpavogi. Völusteinn er í eigu Ólafs Jens Daðasonar skipstjóra og Gunnars Torfasonar sjávarútvegsfræðings.

Kaupverðið er 3,2 milljarðar króna og sér Landsbankinn um fjármögnun kaupanna, en fyrirtækjaráðgjöf bankans annaðist sölu þrotabúsins í umboði skiptastjóra. Sé horft framhjá öðrum eignum þrotabúsins greiðir Völusteinn því um 1.940 krónur fyrir hvert þorskígildiskíló.

Áform um fyrningu áhyggjuefni

Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. tekur við rekstri þrotabúsins frá og með áramótum. Gunnar Torfason segir í samtali við Morgunblaðið að rekstur fyrirtækisins verði endurskipulagður og straumlínulagaður. „Við munum hins vegar kappkosta að verja þau störf sem fyrir eru og munu allir starfsmenn í vinnslu mæta til vinnu fjórða janúar.“

Aflaheimildirnar sem Völusteinn fær með kaupunum eru aðallega í þorski, ýsu og steinbít. Gunnar segir fyrningu á aflaheimildum, eins og stjórnvöld hafa rætt um, vissulega valda áhyggjum. „Ég trúi því hins vegar að stjórnvöld breyti rétt í því máli og tryggi að útgerð dafni áfram í landinu.“

Fyrir gerir Útgerðarfélagið Völusteinn út línubátinn Hrólf Einarsson ÍS 255 frá Bolungarvík. Með kaupum Útgerðarfélagsins Völusteins ehf. á rekstri og eignum þrotabús Festar verða aflaheimildir fyrirtækisins samtals um 1.988 þorskígildistonn. Starfsmenn Völusteins eru tólf og starfsmenn Festar um sextíu og verða starfsmenn hins sameinaða fyrirtækis því 72 talsins.