<strong>Sjálfsævisögulegt</strong> Hilmir Snær Guðnason og Kristbjörg Kjeld fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni Mamma Gógó.
Sjálfsævisögulegt Hilmir Snær Guðnason og Kristbjörg Kjeld fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni Mamma Gógó.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is „HVERNIG sæki ég að þér?“ er opnunarspurning blaðamanns til stórleikstjórans Friðriks Þórs Friðrikssonar, spurning sem er þrautreyndur og vel dugandi ísbrjótur.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is „HVERNIG sæki ég að þér?“ er opnunarspurning blaðamanns til stórleikstjórans Friðriks Þórs Friðrikssonar, spurning sem er þrautreyndur og vel dugandi ísbrjótur. Það er kvöld og klukkan er tíu mínútur yfir sjö.

„Bara ágætlega,“ svarar Friðrik með hægð. „Ég er bara að horfa á fréttirnar. Og það er auðvitað ekkert í fréttum.“

Þá er lag að koma með næsta útspil, sem er í formi kumpánlegrar óskar: „Eigum við þá ekki bara að kýla á spjall?“ Og Friðrik svarar, með sömu stóísku rónni: „Alveg endilega.“

Beðið eftir Kristbjörgu

Mamma Gógó er mynd sem byggist lauslega á þeirri reynslu sem Friðrik varð fyrir þegar móðir hans greindist með Alzheimer. Það er Kristbjörg Kjeld sem fer með aðalhlutverkið, Hilmir Snær Guðnason leikur son hennar en með önnur veigamikil hlutverk fara þau Gunnar Eyjólfsson og Margrét Vilhjálmsdóttir.

„Þetta gekk alveg ljómandi vel,“ segir Friðrik þegar hann er spurður út í vinnsluna á myndinni.

„Ég var með mikið af mínu gamla starfsfólki sem ég þekki svo vel og svo eru þessir snilldarleikarar þarna líka. Það getur lítið farið úrskeiðis ef maður mannar áhöfnina vel.“

Friðrik nefnir í þessu samhengi þá Ara Kristinsson tökumann, Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld og Árna Pál Jóhannsson leikmyndahönnuð.

– Er þetta þá dálítið „business as ususal“, án þess að það eigi að hljóma eitthvað neikvætt?

„Já, þannig séð. Þetta er allt fólk sem kann sitt fag og ég þekki það inn og út. Það þurfti ekkert mikið að ræða málin á tökustöðunum. Þetta gekk eins og smurð vél.“

Blaðamaður hendir fram sæmilega klisjukenndri spurningu, hvort þetta sé mynd sem leikstjórinn hafi „orðið“ að gera. Friðrik segist ekki vilja fara svo langt út í dramatíkina en vissulega hafi hann alltaf ætlað að gera þessa mynd.

„Ég varð hins vegar að bíða aðeins með það,“ segir hann dular-fullur. „Ég varð að bíða eftir því að Kristbjörg yrði aðeins eldri. En ég gat heldur ekki beðið of lengi. Mig langaði til dæmis að fá Gunnar inn í þetta líka.“

Latir gagnrýnendur

Litlar upplýsingar er að hafa um myndina þegar vafrað er um iður netsins og blöðum síðustu mánaða flett. Það er einhver lágstemmdur andi í kringum hana, einhverra hluta vegna. Og Friðrik passar sig á því að vera hæfilega til baka þegar það er gengið á hann með söguþráð og almenna áferð myndar.

„Söguþráðinn...maður fer nú ekkert að gefa upp söguþráðinn. Það er bara fyrir lata og vitlausa gagnrýnendur sem hafa ekkert vit á kvikmyndum og bjarga sér fyrir horn með því að endursegja söguþráðinn í dómunum. En alltént, myndin fjallar um kvikmyndaleikstjóra sem á móður sem haldin er Alzheimer...“

–„...sjálfsævisöguleg mynd sem sagt“, skýtur blaðmaður inn í.

„Nei, ekki alveg. Það er kannski bara einn hluti hennar. Það er þessi sjúkdómur sem ég byggi myndina í kringum. En jú, svo er þarna reyndar kvikmyndaleikstjóri líka þannig að...“

Friðrik segir myndina gerast í óræðum tíma, hann hafi sett hrunið þarna inn upp að vissu marki en svo sé framvindan á þann veg að sögusviðið og atburðarás eru ekki sagnfræðilega rétt.

– Mætti segja að myndin tónaði við síðustu mynd þína, Sólskinsdrenginn ?

„Já, það má vel segja það þó að hún tóni reyndar við allar mínar myndir. En einhverfa og Alzheimer eiga sér upptök í sömu heilaflögunni þannig að þessar myndir eru óhjákvæmilega tengdar. Mamma Gógó er þó frekar létt mynd þannig, ég er aðeins að gera grín að sjúkdómnum m.a. og það eru húmorískar hliðar á þessu. En annars veit maður aldrei hvenær fólk tekur upp á því að hlæja að einhverju í myndum manns, fólk hló t.d. á stöðum í Börnum náttúrunnar sem ég átti ekki von á að myndu vekja kátínu. En í Mömmu Gógó reyni ég í öllu falli að búa til góða stemningu, ég brosi út í annað getum við sagt.“

Lokaspurningin

Og þá er komið að lokaspurningunni. Og hún er stór. Hvernig sér Friðrik þessa mynd í samanburði við fyrri verk og er hægt að stika hana að einhverju leyti frá þeim hvað almenna stemningu varðar?

Og Friðrik svarar:

„Hún er kannski léttari en fyrri myndir mínar, þannig. En það er svipaður andi í þeim öllum, sömu fingraförin á þeim. Ef maður vill teljast kvikmyndahöfundur ætti maður að vera búinn að knýja fram eitthvað sem mætti kalla höfundareinkenni.“

Sigurganga Sólskinsdrengsins

„Ég tók soldið mörg ár í að gera Sólskinsdrenginn,“ segir Friðrik um þessa heimildarmynd sína sem var frumsýnd í janúar á þessu ári. Myndinni var lofsamlega tekið en þar segir af einhverfa drengnum Kela og leit foreldra hans eftir hjálp. Móðir Kela, Margrét Dagmar Ericsdóttir, fór þess á leit við Friðrik Þór fyrir um þremur árum að hann gerði mynd um einhverfu. Þá var Keli talinn vera með þroska tveggja ára barns. Annað kom á daginn og í myndinni kemur fram hvernig rjúfa tókst einangrun drengsins.

„Sú mynd hefur síðan notið endalausrar velgengni,“ segir Friðrik og er auðheyrilega stoltur og má hann vel vera það, enda myndin listavel gerð að öllu leyti. Myndinni farnaðist ekki bara vel hérlendis heldur hafa útlönd heldur betur verið að taka við sér.

„Það er núna verið að vinna að Óskarsútnefningu fyrir árið 2011,“ heldur Friðrik áfram. „Myndin opnaði þá risastórt í Ameríku, í 60 til 70 borgum og var svo keypt af HBO sjónvarpsrisanum sem hefur aðgang að um 40 milljónum áhorfenda.“