Landsbankinn Höfuðstöðvar bankans við Austurstræti í Reykjavík.
Landsbankinn Höfuðstöðvar bankans við Austurstræti í Reykjavík.
HERITABLE Bank var með tryggasta lánasafn Landsbankasamstæðunnar sem samanstóð aðallega af fasteignalánum og sambankalánum.

HERITABLE Bank var með tryggasta lánasafn Landsbankasamstæðunnar sem samanstóð aðallega af fasteignalánum og sambankalánum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru eignir breska bankans nú, rúmlega ári eftir að bresk yfirvöld tóku hann yfir, um þrjú hundruð milljónum punda meiri en skuldir, eða ríflega 60 milljörðum króna. Því má heita öruggt að allar kröfur á hendur bankanum verði greiddar að fullu. Hann var að mestu fjármagnaður með innstæðum, en einnig með eiginfjárframlagi Landsbankans.

Þrotabú Landsbankans á 280-300 milljarða króna kröfu á hendur Heritable og miðað við eigna- og skuldastöðu bankans mun sú krafa verða greidd og þar með ganga upp í svokallaða Icesave-skuld.

Heritable er breskur banki. Hann var að fullu í eigu Landsbankans sáluga, en var tekinn yfir af breska fjármálaeftirlitinu og er núna í skiptameðferð. Sömu stjórnendur stjórna bankanum og áður.

Hafa ekkert gert

Sökum þess hve staða bankans telst vera sterk, jafnvel þótt hann hafi verið tekinn í skiptameðferð, telja sérfræðingar í breskum rétti að vænlegt sé að reka skaðabótamál á hendur breskum stjórnvöldum, sem tóku hann fyrirvaralaust yfir miðvikudaginn 8. október 2008 og beittu um leið hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans þar í landi.

Heimildir Morgunblaðsins herma að þrátt fyrir þetta hafi hvorki skilanefnd Landsbankans né íslensk stjórnvöld gert tilraun til að fá yfirtökunni hnekkt fyrir breskum dómstólum.