Ólafur Helgi Runólfsson fæddist á Búðarfelli í Vestmannaeyjum 2. janúar 1932. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 7. desember sl.

Útför Ólafs fór fram frá Áskirkju 17. desember 2009.

Elsku afi minn, það er svo sárt og erfitt að sætta sig við að þú sért farinn, en það var yndislegt að fá að kveðja þig. Það er svo ótal margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um allar þær stundir sem við áttum saman. Ég hef alltaf verið algjör afastelpa og man fyrst eftir okkur á Fjólugötunni, þar sem ég var oft hjá ykkur ömmu Boggu. Þá var sko ýmislegt brallað og þar var allt leyfilegt og alltaf fjör og þið tókuð þátt í öllum leikjunum, búðó, bolló og ekki má gleyma Tomma og Jenna spólunni sem horft var á hvern einasta dag, bryggjurúntunum með bitafisk og kók í gleri. Svo fluttuð þið til Reykjavíkur en ég fékk nú oft að koma til ykkar á Skúlagötuna og alltaf var gott að koma þangað og alltaf var eitthvað gott á boðstólum. Þú varst nú samt mjög ákveðinn alltaf við okkur krakkana og lést okkur hlýða enda bárum við mikla virðingu fyrir þér.

Þegar ég var lítil var oft sagt að ég væri svo lík þér, ég man að mér fannst þetta fyrst voða skrítið, hvernig gat ég bara lítil stelpa verið lík afa sínum, gömlum manni að mér fannst þá, en seinna var ég mjög stolt af því.

Ég varð fullorðin og stofnaði fjölskyldu og alltaf varst þú með allt á hreinu og fylgdist með hvernig gekk og varst alltaf svo stoltur og ánægður með okkur öll, vissir hvenær allir áttu afmæli og því um líkt, það fór lítið framhjá þér þó að þú byggir ekki á eyjunni.

Þú giftist svo yndislegri konu eftir að amma dó, og þið voruð frábær saman og gaman að koma til ykkar og fá ykkur, eins og um jólin í fyrra, það var svo gaman og gott að hafa ykkur og þið ætluðuð að koma aftur núna, en svona grípa æðri öflin inn í og við fáum engu ráðið, en ég veit að þú heldur áfram að fylgjast með og passa upp á okkur, ég geymi allt það góða og dýrmæta sem þú gafst mér.

Afi minn, ég geymi þig í hjarta mér, takk fyrir allt.

Þín afastelpa,

Elva Björk.