Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andra Karl andri@mbl.is FJÁRMÁLARÁÐHERRA segir það misskilning að eitthvað nýtt komi fram í gögnum lögmannsstofunnar Mishcon de Reya sem bárust Alþingi í gær.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

FJÁRMÁLARÁÐHERRA segir það misskilning að eitthvað nýtt komi fram í gögnum lögmannsstofunnar Mishcon de Reya sem bárust Alþingi í gær. Einnig að mikilvægt sé að árétta að „þau svonefndu nýju gögn“ hafi legið hjá stofunni en ekki í skjalasöfnum á Íslandi. Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja með ólíkindum ef greiða eigi atkvæði um frumvarpið án þess að fjallað sé betur um málið.

„Í þessu er ýmislegt nýtt og það að þessum gögnum hafi verið leynt er sér kafli, út af fyrir sig,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks. „Í bréfinu segir að á leiðinni séu gögn sem muni varpa frekara ljósi á málið og menn muni vilja hafa í huga áður en komist er að endanlegri niðurstöðu. Áhugavert er að lögmannsstofan skuli taka þetta sérstaklega fram.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði fram komnar nýjar upplýsingar um að íslenska ríkið hefði haft sterka lagalega stöðu til að höfða mál í Bretlandi, vegna yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins, FSA, á Heritable, breskum banka en að fullu í eigu Landsbankans. Bjarni sagði það aldrei hafa komið fram áður og hljóta að skipta máli þegar þingmenn tækju afstöðu til þess samnings sem lægi fyrir Alþingi.

Engin svör í utanríkismálanefnd

Báðir segja formennirnir að skýra verði það út hvers vegna skjölunum var haldið leyndum og hversu mikið ríkisstjórnin vissi um skjölin.

Í bréfi lögmannsstofunnar segist fulltrúi hennar ekki vita til þess hvort samninganefndin hafi nýtt þær upplýsingar í samningaviðræðunum, en þær hefðu getað styrkt samningsstöðuna. Bjarni hefur alloft spurt út í það hvort það hafi verið gert og Sigmundur Davíð og Þorgerður Katrín síðar ítrekað spurninguna í utanríkismálanefnd. „Við fengum engin svör. Við fórum fram á að einhver yrði kallaður fyrir nefndina sem gæti skýrt þetta, en það virðist ekki hafa verið reiknað að nokkru það tjón sem hlaust af beitingu hryðjuverkalaganna. Við sjáum það best á því að samningarnir við Breta og Hollendinga eru að efninu til eins. Og ekki beittu Hollendingar okkur hryðjuverkalögum,“ segir Sigmundur Davíð.

Einnig kemur fram í bréfi lögmannsstofunnar, að hófleg bið geti komið Íslendingum vel. „Þess vegna, ef þarna eru atriði sem styrkja málstað Íslands, sem þau virðast gera, er mjög furðulegt að keyra eigi málið í gegn áður en hægt er að styrkja stöðu okkar í krafti þess.“

Steingrímur tók síðar fram að málið væri þaulrætt, og þó svo að fróðlegt væri að velta við hverjum steini breytti það ekki því frumvarpi sem er til afgreiðslu á Alþingi, og að skjölin frá Mishcon de Reya breyttu því ekki. Þau kynnu hins vegar að vera áhugaverð í sögulegu ljósi.

Steingrímur sagði í góðu lagi að prenta út skjalabunkann en spáði því að þingmenn fyndu fátt nýtt í honum. Sum gagnanna hefðu verið inni á vefnum island.is í marga mánuði og önnur að uppistöðu eldri gögn sem varla gætu talist ný gögn fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokks, enda unnin í tíð fyrri ríkisstjórnar. „Þetta eru gögn sem tengjast undirbúningsvinnu áður en samningaviðræðurnar fóru af stað. Þau breyta ekki inntaki samninganna sem eru til afgreiðslu.“