Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson
Eftir Sigurð Sigurðsson: "Eina von Íslendinga til að vinna sig upp úr hruninu er að eiga viðskipti við útlönd og það gerist ekki með því að einangra þjóðina frá öðrum þjóðum"

ÞAÐ ER virðingarvert að enn er til það fólk sem nennir að velta fyrir sér orðspori og virðingu Íslands og Íslendinga á alþjóðavettvangi. Þetta gerðu til dæmis Þorvaldur Gylfason prófessor í grein sinni Ljós heimsins í Fréttablaðinu 17. des. 2009 og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur í sama blaði 16. des. 2009 og þrettán greinar þekktra sérfræðinga í nýjasta tímariti Sögu, tímariti sögufélagsins.

Þorvaldur rekur í stuttu máli hve við erum háð samskiptum og viðskiptum við erlendar þjóðir en höfum á sama tíma verið sein til samstarfs, öfugt við aðrar þjóðir sem hafa kosið skert fullveldi til að eiga sem mest, best og nánast samstarf við aðrar þjóðir. Ísland sker sig því úr að þessu leyti.

Sigurbjörg rekur hvernig EES-samningurinn veitti Íslendingum aukið frelsi sem við misnotuðum herfilega í útrás bankanna og neitum síðan að takast á við þau vandamál sem sköpuðust við það á erlendri grund.

Ef þessar tvær fullyrðingar eru skoðaðar saman þá hefur Ísland ekki verið ákafur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi og þegar þegnar landsins skilja eftir sig sviðinn akur hjá nokkrum nágrannaþjóðum eftir siðlausa útrás með tilheyrandi fjármála- og bankahruni þá taka Íslendingar ekki lýðræðislega ábyrgð sem þjóð. Í heildina koma því Íslendingar fyrir sem varasamir aðilar sem ekki sækjast eftir samstarfi við útlendinga og vilja ekki taka lýðræðislega ábyrgð á gerðum sínum.

Í þessu sambandi bendir Þorvaldur á að fullveldið sé sameign með öðrum þjóðum sem við eigum með öðrum og sé okkur einskis virði nema einhver taki mark á því. Ef við berum ekki ábyrgð á gerðum okkar erlendis sem þjóð þá séum við marklaus sem fullvalda ríki. Marktæk fullvalda þjóð á ekki að hafa stjórnvald sem ekki ræður við stjórn á málaflokkum ríkisins og sinnir ekki eftirlitsskyldu í samræmi við þær reglur sem við höfum undirgengist og getur ekki stjórnað málefnum þjóðarinnar.

Stjórnir fullvalda lýðveldis eiga að axla lýðræðislega ábyrgð og ef vandamál koma upp þá á að bæta kerfið til að mistökin endurtaki sig ekki og standa síðan teinréttir og taka lýðræðislega ábyrgð.

Ef mál fara úr böndunum þá þarf viðkomandi þjóðríki þar sem brotaaðilar eiga lögheimili að ábyrgjast þegnana sem eru á erlendum vettvangi með heimild í gegnum sitt heimaríki, á grundvelli milliríkjasamninga sem þeirra heimaríki hefur gert.

Útrásarvíkingarnir voru því í bankarekstri á erlendum vettvangi með heimild sem íslenska ríkið aflaði fyrir íslensku þjóðina með aðild að EES-samningnum 1994. Þeir þegnar sem brjóta gegn samningnum eiga að svara til saka til síns ríkisvalds sem þarf að taka lýðræðislega ábyrgð á gerðum þegnanna á erlendum vettvangi, fari eitthvað úr skorðum. Hafi starfsemi þeirra verið skráð sem löglegur rekstur á hinni erlendu grund þá er það hið erlenda ríkisvald sem sér um að taka á málum ef eitthvað fer úr böndunum og í samræmi við það hefur Serious Fraud Office, SFO, í Englandi hafið rannsókn á starfsemi Kaupþings banka í Englandi enda starfaði bankinn þar sem enskur banki.

Eins og þau Sigurbjörg og Þorvaldur koma bæði inn á þá er samstarf okkar við erlendar þjóðir feiknalega mikilvæg en til að slíkt samstarf gangi upp verður að vera gagnkvæm virðing og traust sem nú hefur algerlega farið forgörðum enda blasir við að fjöldamargir þættir í samskiptum Íslands við aðrar þjóðir eru í molum.

Sigurlaug bendir á að með því að nota væntanlega rannsóknarskýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis til siðferðilegrar og pólitískrar endurreisnar Íslands þar sem allt verði uppi á borðum þá sé von til að koma málefnum Íslands á hærra plan og byggja upp traust að nýju. Þessi skýrsla sé einstakt tækifæri fyrir þjóðina til að hreinsa borðið gagnvart erlendum þjóðum sem hafa brennt sig illilega á viðskiptum við okkur í bankahruninu. Enn hafa ekki heyrst neinar sögur um hvernig eigi að nota skýrsluna í þessu samhengi og ekki vitað annað en það að Alþingi ætlar að glugga í hana eftir að hún kemur út 1. febrúar 2010.

Í ljósi sögunnar er ekkert skrýtið að á Íslandi séu mótbárur við að ganga inn í ESB því það er hinn gamalgróni þjóðarsálarrembingur að útlönd séu ekki góður vettvangur fyrir Íslendinga og Sigurlaug spyr hvort óvinir Íslands séu hér (hér á landi). Það er von að fólk spyrji.

Í dag er eiginlega eina von Íslendinga til að vinna sig upp úr hruninu að eiga viðskipti við útlönd. Þannig verður til erlendur gjaldeyrir en það er akkúrat það sem Ísland þarf því nær allar skuldir ríkisins eru í erlendum gjaldeyri. Það að halda áfram gamla þjóðarsálarrembingnum um að útlönd séu vond eykur ekki vöxt í samskiptum við erlendar þjóðir.

Framtíð okkar liggur í viðskiptum við erlendar þjóðir og það er bara spurning hvernig við mótum þessa framtíð. Í dag er hlutfall menntaðra einstaklinga sem sækja menntun sína víða erlendis orðið mjög hátt og því hefur aldrei verið auðveldara fyrir Íslendinga en nú að koma á nánu sambandi, samstarfi og viðskiptum við þær þjóðir sem mest skipta okkur máli.

Áfram Ísland!

Höfundur er cand. phil. byggingaverkfræðingur.

Höf.: Sigurð Sigurðsson