Evrópusambandið er að móta reglur um viðskipti með losunarkvóta, en ný tilskipun tekur gildi 1. janúar árið 2013.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

MESTAR líkur eru á að íslensku álverin þurfi ekki að greiða fyrir losunarkvóta þó að íslenska ákvæðið svokallaða falli úr gildi í árslok 2012. Íslensku álverin menga minna en flest álver annars staðar í Evrópu sem tryggir þeim betri stöðu þegar að því kemur að álfyrirtækin þurfa að fara að greiða fyrir losunarkvóta.

Í ársbyrjun 2013 tekur gildi ný tilskipun Evrópusambandsins um viðskipti með losunarheimildir. Fyrri tilskipun náði fyrst og fremst til kolaorkuvera, en nýja tilskipunin gerir ráð fyrir að áliðnaðurinn fari undir þetta kerfi. Innan Evrópusambandsins gera menn sér grein fyrir að talsverð hætta sé á að álfyrirtækin flytji starfsemi sína frá Evrópu til landa sem gera minni kröfur um mengunarvarnir. Þetta er kallað að tilskipunin „leki“. Til að bregðast við þessu er nú rætt um að áliðnaðurinn í Evrópu fái kvóta sem fyrirtækin þurfi ekki að borga fyrir, til að byrja með a.m.k. Mestar líkur eru taldar á að þessi ókeypis kvóti verði mun stærri en menn áttu kannski von á þegar byrjað var að ræða þessa hluti. Eins og staðan er núna er rætt um að gefinn verði aðlögunartími til ársins 2020. Stefnan er síðan sú að þessi ókeypis kvóti minnki smám saman. Fyrirtækin sem menga minnst standa þá betur að vígi en þau sem menga meira.

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, segir að regluverkið í kringum evrópska viðskiptakerfið sé ekki tilbúið. Ekki sé búið að gefa út staðfesta tilkynningu um að áliðnaðurinn verði á þessum svokallaða „lekalista“ en listinn kemur til með að ráða mestu um hversu mikið þessi geiri þarf að greiða fyrir losunarheimildir. Þróun þessara mála ráðist m.a. af því hvort næst alþjóðlegur samningur um losun gróðurhúsalofttegunda. Hann segir mjög jákvætt að Ísland sé komið inn í kerfi Evrópusambandsins. Þetta þýði m.a. að Íslandi þurfi einvörðungu að semja við sambandið um þessa hluti en ekki alþjóðasamfélagið allt.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gerir ráð fyrir að gefinn verði út sérstakur kvóti fyrir ný fyrirtæki í áliðnaði. Staða þessara fyrirtækja verður því þrengri en fyrirtækja sem fyrir eru að því leyti að þau þurfa fljótlega að kaupa sér losunarheimildir. Um þessi fyrirtæki gildir hins vegar sama regla og um aðra að fyrirtækin sem menga minnst þurfa að borga minna fyrir kvótana.

Losun á hvert framleitt tonn minnkar mikið

Losun gróðurhúsalofttegunda frá íslensku álverunum hefur minnkað undanfarin ár ef horft er á losun á hvert framleitt tonn. Þetta kemur fram í skýrslu sérfræðinganefndar umhverfisráðuneytisins, en í henni er að finna tölur um útstreymi gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn í íslenskum áliðnaði. Sem dæmi má nefna að útstreymi gróðurhúslofttegunda hefur aukist frá álverunum um 72% frá 1990 til 2007, en framleiðslan hins vegar aukist um 418%. Útstreymið frá álverinu í Straumsvík minnkaði um meira en 50% á sama tíma og ársframleiðslan jókst um 100%.