Plötubúð Sala í plötuverslun Smekkleysu var meiri árið 2009 en 2008.
Plötubúð Sala í plötuverslun Smekkleysu var meiri árið 2009 en 2008. — Morgunblaðið/Valdís Thor
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is SALA á íslenskri tónlist hefur haldist nokkuð jöfn og reyndar aukist frá árinu 1999, en samdráttur verið talsverður í erlendri tónlist á sama tíma.

Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

SALA á íslenskri tónlist hefur haldist nokkuð jöfn og reyndar aukist frá árinu 1999, en samdráttur verið talsverður í erlendri tónlist á sama tíma. Þegar rætt var við útgefendur og plötusala í haust voru menn vægast sagt svartsýnir og sumir spáðu allt að þriðjungs samdrætti á árinu; einn sagði það í byrjun desember að sala á þrjátíu söluhæstu plötunum væri að minnsta kosti 30% minni en árið 2008.

Af samtölum við söluaðila og útgefendur í gær kom þó fram að samdrátturinn yrði ekki eins harkalegur og þeir hefðu óttast, enda hefði plötusala hrokkið rækilega í gang síðustu vikuna fyrir jól.

Eiður Arnarsson, útgáfustjóri íslenskrar tónlistar hjá Senu, segir að sér sýnist ljóst að einhver samdráttur hafi orðið, en erfitt að gera sér grein fyrir því þar sem ekki séu öll kurl komin til grafar. „Smásalan var svo afturþung að erfitt er að átta sig á því, en mín tilfinning er sú að það sé samdráttur, jafnvel talsverður, í eintökum, en samdráttur í verðmætum er mun minni. Ég held að minnkunin sé svipuð á innlendri og erlendri tónlist, en þetta er að mestu ágiskun þar sem við eigum eftir að sjá endanlegar tölur yfir söluna síðustu dagana fyrir jól.“

Aðspurður hvað valdi samdrættinum segir Eiður að það sé engin einhlít skýring en sú þó helst að topparnir séu lægri, þ.e. að söluhæstu plöturnar seljist ekki í eins stóru upplagi.

Aukning hjá Smekkleysu

Segja má að Laugavegurinn hafi gengið í endurnýjun lífdaga eftir hrunið, eða það er í það minnsta mat Ásmundar Jónssonar, forsvarsmanns Smekkleysu, sem rekur plötubúð á Laugaveginum. Hann segist þannig ekki hafa fundið fyrir samdrætti; verslunin hafi selt fleiri plötur á árinu 2009 en 2008.

„Þetta er ekki mikil aukning en aukning þó,“ segir Ásmundur og aðspurður um skýringu segist hann helst skrifa það á þá stefnu verslunarinnar að vera með sem fjölbreyttast úrval af tónlist, en ekki að bjóða bara upp á það sem er vinsælast hverju sinni. Þetta hafi dugað vel því ljóst sé að þótt sala á vinsælustu tónlistinni hafi minnkað seljist fjölbreyttari tónlist betur.

„Það má svo ekki gleyma því að innfluttar plötur hafa hækkað um 60-100% á milli ára vegna gengisþróunarinnar og það hlýtur eðlilega að draga úr sölu.“