Öryggi Erla og Emma nota öryggisgleraugu þegar flugeldunum er skotið upp.
Öryggi Erla og Emma nota öryggisgleraugu þegar flugeldunum er skotið upp. — Morgunblaðið/Ómar
ENGINN ætlar sér að eyða áramótum á slysadeildinni. Samt sem áður kemur það stundum upp í huga manns hvort það sé markmiðið þegar óvarlega er farið með flugelda.

ENGINN ætlar sér að eyða áramótum á slysadeildinni. Samt sem áður kemur það stundum upp í huga manns hvort það sé markmiðið þegar óvarlega er farið með flugelda. Við þekkjum öll hættuna sem röng meðferð þeirra getur skapað og fyllsta öryggis er ekki gætt. Þegar flugeldum er skotið upp gefa þeir frá sér 800 til 1.200°C hita. Til samanburðar má nefna að sjóðandi vatn er um 100°C. Leiðbeiningar sem fylgja flugeldavörum taka mið af þessari hættu og ef ekki er farið eftir þeim aukast líkur á slysum til muna.

Hverjir slasast?

Dagana í kringum áramótin sjálf er mest um slys á unglingsdrengjum sem eru að fikta með flugelda, jafnvel taka þá í sundur til að gera eigin sprengjur. Slys tengd því fikti hafa mörg hver verið mjög alvarleg og áverkar oft bæði á andliti og á höndum þar sem einstaklingar hafa jafnvel misst hluta af útlim, fengið ævilangt lýti eða tapað sjón. Mikilvægt er að foreldrar ræði þessi mál við börn sín og fylgist vel með iðju þeirra í kringum áramótin. Ef foreldrar leyfa börnum sínum að meðhöndla flugeldavörur er mikilvægt að það sé gert undir eftirliti. Gagnlegt getur verið að horfa á myndbandið Ekkert fikt með þeim en það er að finna á slóðinni www.landsbjorg.is.

Hinn hópurinn sem er í hættu eru fullorðnir karlmenn sem helst slasast um áramótin sjálf. Oft er áfengi með í spilunum en óþarfi er að taka það fram að þetta tvennt á aldrei saman. Flestir slasast á höndum en augnslys verða líka þó svo að alvarlegum augnslysum hafi fækkað undanfarin ár, sem þakka má almennri notkun flugeldagleraugna.

Hvað þarf að hafa í huga í sambandi við flugelda?

Geyma þarf flugelda á þurrum stað sem börn hafa ekki aðgang að. Mikilvægt er að hafa tryggar undirstöður, skjóta flugeldum upp á opnum svæðum og láta þá sem horfa á standa vindmegin við skotstað. Allir sem meðhöndla flugelda eiga að vera með hanska. Flugeldagleraugu eiga allir að nota, sama hvort þeir eru að skjóta upp eða bara að horfa á. Ekki má halla sér yfir vöru sem eldur er borinn að heldur skal tendra á kveiknum með útréttri hendi og víkja strax frá. Ef flugeldur springur ekki skal hella vatni yfir hann, en ekki reyna að kveikja aftur í honum.

Mikilvægt er að gæta barna vel þar sem þau þekkja ekki hætturnar eins og þeir fullorðnu. Einnig þarf að huga að dýrum og þá sérstaklega hundum, köttum og hestum en þau hræðast sérstaklega hávaðann og ljósin frá flugeldunum. Best er að halda þeim innandyra sé þess kostur og gott að hafa kveikt á útvarpi og byrgja glugga hjá þeim.

Megið þið eiga ánægjuleg og slysalaus áramót.

Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sviðstjóri slysavarnasviðs Slysavarnafélagsins Landsbjargar.