Þrátt fyrir kraftmikil umskipti frá því í mars var ávöxtun á bandaríska hlutabréfamarkaðnum mjög léleg á þeim áratug sem nú er að líða. Eins og fram kemur í umfjöllun The Wall Street Journal hefðu fjárfestar getað ávaxtað fé sitt betur með því að gera nánast allt annað frá og með aldamótum en að kaupa hlutabréf sem eru skráð í kauphöllinni í New York – þar með talið að stinga peningum sínum undir koddann.
Samkvæmt útreikningum blaðsins hefur ávöxtun á bandaríska hlutabréfamarkaðnum ekki verið minni í 200 ár á neinum áratug sé miðað við aldamótin fram til síðari hluta desembermánaðar. Vísitölur í kauphöllinni í New York hafa lækkað um 0,5% á hverju ári að meðaltali frá aldamótum. Hlutabréf hækkuðu hinsvegar um tæplega 18% að meðaltali á tíunda áratug síðustu aldar en ávöxtunin hefur aðeins einu sinni verið meiri en hún var á sjötta áratugnum.
Ávöxtunin á tíunda áratugnum útskýrir að einhverju leyti frammistöðuna á þessum áratug þar sem flest bendir til þess að verð hlutabréfa hafi verið afar hátt í sögulegu samhengi við upphaf aldarinnar. Um aldamótin var V/H-hlutfall S&P-vísitölunnar 44 en meðaltalið yfir söguna er 16. Í dag er það 20 samkvæmt Wall Street Journal.