Halla himintungl Þar sem fullt tungl er á morgun hvetur hún fólk til að drekka áfengi í hófi. „Tunglstaðan er þannig.“
Halla himintungl Þar sem fullt tungl er á morgun hvetur hún fólk til að drekka áfengi í hófi. „Tunglstaðan er þannig.“ — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áramót eru tímamót og þá vill fólk gjarnan gera upp sín mál, byrja á einhverju nýju, setja sér markmið og jafnvel kíkja aðeins inn í framtíðina. Halla himintungl kíkir stundum í tarotspilin sín fyrir fólk.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Ég lít á spádóma sem ákveðna tegund af skemmtun. Fólk á ekki að taka þetta of bókstaflega eða lifa eftir því sem spámaðurinn segir. Spádómur er ágætis hugarnæring til að bræða með sér hvað mann langar að gera næst í lífinu,“ segir Halla himintungl, galdrakerling með meiru, en hún hefur fengist við „spámixtúru“ undanfarin tuttugu ár.

„Í þeirri mixtúru skoða ég stöðu stjarnanna hjá fólki, nota talnaspeki, tarotspil og rúnir. Fólk getur valið hvað það vill af þessu,“ segir Halla sem býr líka til stjörnukort fyrir fólk og hún er með spádómsaðstöðu í versluninni Gjafir jarðar. Hún tekur einnig að sér að hreinsa orkustöðvar fólks sem og áru þess og einnig orku húsa og hýbýla.

Spáir ekki þar sem áfengi er haft um hönd

„Í gegnum tíðina hef ég verið með stjörnuspekifyrirlestra, heimsóknir í saumaklúbba og boð,“ segir Halla og bætir við að tarotspilin séu fyrst og fremst stuðningstæki. Hún er næm á fólk og nærvera þess segir henni ýmislegt.

„Fólk er með mismikinn varnarvegg, suma er hægt að lesa eins og opna bók en aðrir eru með svo háan varnarvegg að ekkert kemur frá þeim. Ég hef engan áhuga á að spá fyrir þeim sem bera enga virðingu fyrir því sem ég er að gera. Það er ekki til neins. Ég harðneita líka að spá fyrir fólki þar sem áfengi er haft um hönd.“

Skemmtilegra að spá úti í náttúrunni

Hún segir mannfólkið ævinlega hafa haft ríka tilhneigingu til að skyggnast inn í framtíðina, fortíðina og nútíðina.

„Völva, sú sem veit, vitrir menn og framsýnt fólk, allt hefur það fylgt okkur lengi og birtist í galdralæknum, seiðkörlum eða hverskonar viskubrunnum sem fólk leitar til þegar það þarf ráðleggingar. En þetta hefur þróast í aldanna rás og þó svo að stjörnuspekin sé til dæmis mörg þúsund ára gömul, þá á fólk að leyfa sér að vera skapandi og búa til eitthvað nýtt sem hentar tíðarandanum, líka í þessum fræðum. Við megum ekki vera íhaldssöm, við erum alltaf að þróast og þroskast. Orkan í nútímanum er til dæmis miklu hraðari en hún var fyrir hundrað árum og við þurfum að taka mið af því.“

Höllu finnst skemmtilegast að spá fyrir fólki úti í náttúrunni, helst við heitan hver, því þar sé kraftur móður jarðar svo sterkur. „Það eru kjöraðstæður. Ég spái líka stundum inni í Samatjaldi sem vinkona mín á. Aðstæður þurfa ekki aðeins að vera góðar, mér þarf líka sjálfri að líða vel. Stundum afboða ég mig ef ég er ekki tengd inn í það að spá, þá hef ég ekkert að segja.“

Árið 2010 verður gott ár

Halla er mikill heimshornaflakkari og hefur bæði ferðast og búið á hinum ýmsu stöðum í veröldinni og alltaf tekur hún með sér tarotspilin sín.

„Erfiðasta ferðalag sem þessi spil hafa farið í var þegar ég smyglaði þeim inn í Sádi-Arabíu, en þar eru tarotspil stranglega bönnuð. Ég bar þau þétt innanklæða og blessaði sjálfa mig í bak og fyrir og setti yfir mig mikinn huliðshjúp og slapp í gegn.“

Hún bjó í Taílandi í eitt og hálft ár og segir skemmtilegt hvað Taílendingar séu líkir Íslendingum að því leyti að þeir elski að láta spá fyrir sér. „Þar fer fólk mikið til munka og lætur þá spá fyrir sér. Taílendingar fara líka mikið eftir talnaspeki og eru mjög draughræddir. Maður segir ekki draugasögur þar í landi eftir sólsetur.“

Halla er ánægð með stöðu tungla annað kvöld, gamlárskvöld, og segir fólk geta nýtt sér það til að njóta.

„Á morgun er fullt tungl í krabba en það vekur ímyndunaraflið, þannig að kvöldið getur orðið frábært og skemmtilegt fantasíukvöld. Ég hvet fólk til að sleppa áfengi eða drekka það í hófi, tunglstaðan er þannig. Fólk á ekki að flýja í blekkingarnautn áfengisvímunnar. Það á frekar að leyfa sér að sprella og vera glatt án vímuefna,“ segir Halla sem er bjartsýn á næsta ár.

„Árið 2010 er ár kraftaverka, stórra og smárra.“

Hægt er að panta tíma hjá Höllu á netfanginu: hallahimintungl@gmail.com eða í síma: 695-8283

Tunglgaldur á morgun

HALLA ætlar að fremja tunglgaldur á morgun, á síðasta degi ársins.

Athöfnin hefst kl 15:15 í fjörunni í Gróttu, landmegin í norðvesturátt, ská á móti Gróttuvitanum.

Öllum er velkomið að taka þátt í þessari tunglserímóníu.

„Á morgun er tunglmyrkvi og fullt tungl í krabba. Tunglserímónía felur í sér stórkostlegan galdramátt til að sleppa taki á fortíðinni, losa um gömul mál sem tengjast hvers konar misnotkun og úr sér gengna ást. Við munum kalla fram og styrkja kærleika, frið og samhygð.

Á þessum degi er sólin í steingeitarmerkinu og verður í samstöðu við Venus og Plútó og því er mikilvægt að fólk losi um uppsafnaðar gamlar tilfinningastíflur, því annars safnast þær saman og springa með hvelli sem getur skaðað alla er málefnið snertir,“ segir Halla og bætir við að gömul speki segi að hægt sé að sjá andlit tilvonandi lífsförunautar á fullu tungli.

„Þeir sem eru einhleypir eru því hvattir til að spangóla af öllum lífsins sálarkröftum og stara í tunglið til að forvitnast um tilvonandi maka.“

Eftirtalin atriði eru einna áhrifaríkust og sterkust til að vinna með á fullu tungli í krabba: Sleppa taki á fortíðinni, efla fjölskyldutengsl, skapa heimilislegt öryggi, sigrast á höfnunarkennd, magna upp kærleika og ást, fylgja ávallt innsæinu.

„Það eina sem fólk þarf að koma með er blað, blýantur, smá sprek til að setja á varðeldinn, hunang og djúpa skál til að láta vatn standa í henni. Þeir sem vilja geta líka komið með föt eða eitthvað annað sem þá langar til að brenna úr lífi sínu.

Svo er gott að taka líka hlýtt teppi með sér,“ segir Halla og bætir við að líklega verði víkingagyðja á staðnum sem muni kalla á landvættina.

Tarotspil

Tarotspil eru eldgamalt fyrirbæri og sígaunar hafa ævinlega verið duglegir að nota þau. Orðið Tar kemur frá Ungverjalandi og merkir spilastokkur. Tarotspil eins og við þekkjum þau, komu fyrst til Evrópu frá Indlandi á 14. öld. Tarotspilin hennar Höllu hafa fylgt henni undanfarin tuttugu ár og eru orðin mátulega sjúskuð.

„Spilin mín eru svokölluð Thoth-spil og koma frá honum Alister Crowley. Allar helstu nornir nota spil frá honum, en þessi Breti var mjög klár á þessu sviði og langt á undan sinni samtíð. Það tók fimm ár að fullklára spilin, hann lét hanna þau á árunum 1938-1943. Listakonan Frida Harris málaði hvert spil. Stokkurinn inniheldur í raun sjötíu og átta listaverk.“

Halla segir að sumir hafi miklar hefðir í kringum spilin sín og vígi þau jafnvel með eigin blóði og vilji ekki að aðrir snerti þau. „Ég vil vera frjálsleg í þessu, ég vil ekki láta gamlar hefðir hefta mig. Ég vil að sem flestir snerti spilin mín af því að við manneskjurnar erum öll ljósbrot úr stórri sól. Við erum öll af sama meiði. Með snertingu sem flestra þá kjarnast og magnast upp sú orka sem við berum öll innra með okkur, í spilunum mínum. Ég hef líka lánað öðrum spákonum spilin mín og finnst þau verða betri fyrir vikið.“