— Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Barack Obama sór embættiseið forseta Bandaríkjanna 20. janúar, fyrstur blökkumanna. Tilkynnt var í október að Obama fengi friðarverðlaun Nóbels í ár og hann tók við verðlaununum í Ósló 10. desember.

Obama sæmdur friðarverðlaunum Nóbels

Barack Obama sór embættiseið forseta Bandaríkjanna 20. janúar, fyrstur blökkumanna. Tilkynnt var í október að Obama fengi friðarverðlaun Nóbels í ár og hann tók við verðlaununum í Ósló 10. desember. Í þakkarræðu kvaðst forsetinn taka við verðlaununum af „mikilli auðmýkt og þakklæti“ og viðurkenndi að ákvörðun nóbelsnefndarinnar hefði valdið deilum. Hann réttlætti þá ákvörðun sína að senda 30.000 bandaríska hermenn til viðbótar til Afganistans og sagði að stundum væri beiting hervalds ekki aðeins nauðsynleg heldur siðferðislega réttlætanleg.

Obama sver hér eiðinn fyrir utan þinghúsið í Washington. Við hlið hans eru eiginkona hans, Michelle, og dætur þeirra, Malia og Sasha.

Loftslagsmál í brennidepli

Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fór fram í Kaupmannahöfn í desember og embættismenn frá 192 löndum ræddu þá aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Maldíveyja, Ibrahim Didi, undirritar hér áskorun um slíkar aðgerðir á ríkisstjórnarfundi 17. október. Fundurinn var haldinn neðansjávar til að vekja athygli á hættunni sem eyjunum er talin stafa af hækkun sjávarborðs ef spár um hlýnun jarðar ganga eftir.

Karzai hélt velli í umdeildum kosningum

Hamid Karzai sór embættiseið forseta Afganistans í nóvember eftir að hafa verið lýstur réttkjörinn forseti landsins í mjög umdeildum kosningum sem fram fóru 20. ágúst. Leiðtogar Vesturlanda styðja þá niðurstöðu þrátt fyrir stórfelld kosningasvik stuðningsmanna forsetans. Önnur umferð átti að fara fram í nóvember en ákveðið var að hætta við hana eftir að helsti keppinautur Karzais, Abdullah Abdullah, fyrrverandi utanríkisráðherra, ákvað að draga framboð sitt til baka.

Abdullah ræðir hér við fjölmiðlamenn eftir kosningafund í Bamiyan-héraði 29. júlí.

Í 40 ár á valdastóli

Mikið var um dýrðir í Líbíu í september þegar liðnir voru fjórir áratugir síðan Muammar Gaddafi rændi völdum í landinu. Í þann tíma hefur hann stjórnað landi og lýð sem heldur duttlungafullur einræðisherra og honum hefur hingað til tekist að koma í veg fyrir að öðrum tækist að leika valdaránsleikinn eftir honum.

Gaddafi ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í fyrsta skipti 23. september og gagnrýndi þá valdamestu ríki heims fyrir að brjóta meginreglur samtakanna.

Svínaflensan að heimsfaraldri

WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, lýsti því yfir í júní að svínaflensan, eða H1N1, væri orðin að heimsfaraldri og færði viðbúnaðinn upp í sex eða efsta stig. Var þetta ákveðið á fundi WHO í aðalstöðvum stofnunarinnar í Genf eftir að sóttin hafði komið upp í fjölmörgum löndum. 40 ár voru liðin síðan WHO lýsti síðast yfir heimsfaraldri.

Stúlka er hér bólusett gegn H1N1 á sjúkrahúsi í Sichuan-héraði í Kína í nóvember.

Flugstjóri hylltur fyrir hugrekki

Flugstjórinn Chesley Sullenberger var hylltur sem hetja í Bandaríkjunum eftir að honum tókst að nauðlenda farþegaþotu US Airways á Hudson-fljótinu við suðvesturenda Manhattan-eyjar í New York 15. janúar. Hann þótti hafa sýnt dæmalaust snarræði. Um borð í vélinni, sem er af gerðinni Airbus A320, voru alls 155 manns og komust allir af. Þotan hafði verið á lofti í fáeinar mínútur en talið er að hún hafi flogið inn í hóp af Kanadagæsum sem hafi sogast inn í báða hreyflana og mun hafa kviknað í öðrum þeirra.

26 ára stríði á Srí Lanka lokið

Stjórnarherinn á Srí Lanka lýsti því yfir í maí að honum hefði tekist að sigra Tamíl-Tígrana eftir blóðuga baráttu í 26 ár. Barátta Tígranna fyrir sjálfstæðu ríki þjóðarbrots Tamíla í norðausturhlutanum hefur kostað um 70.000 manns lífið og grimmdin hefur verið skelfileg á báða bóga.

Stuðningsmenn Tamíla takast hér á við lögreglumenn eftir að hafa lokað götu við þinghúsið í London 18. maí til að mótmæla hernaði stjórnarhers Srí Lanka.

Óeirðir í Íran eftir umdeildar kosningar

Mikil mótmæli blossuðu upp í Íran í júní eftir að þarlend yfirvöld lýstu því yfir að Mahmoud Ahmadinejad hefði verið endurkjörinn forseti landsins í umdeildum kosningum. Stuðningsmenn forsetans voru sakaðir um stórfelld kosningasvik.

Að minnsta kosti 30 manns biðu bana í óeirðum eftir kosningarnar og hundruð særðust. Endurkjör Ahmadinejads olli klofningi meðal hátt settra klerka og nokkrir þeirra tóku málstað andstæðinga forsetans.

Gamall maður otar hér staf sínum að liggjandi konu sem tók þátt í mótmælum í miðborg Teheran 14. júní.

20 ár frá hruni Berlínarmúrsins

Tugir þúsunda manna söfnuðust saman í Berlín 9. nóvember til að minnast þess að 20 ár voru liðin frá því að Berlínarmúrinn féll. Leiðtogar nokkurra erlendra ríkja heimsóttu borgina til að minnast þessa tímamótaatburðar sem leiddi til falls kommúnistastjórnarinnar í Austur-Þýskalandi, sameiningar Þýskalands og endaloka kalda stríðsins.

Flugeldar lýsa hér upp Brandenborgarhliðið í Berlín á afmælishátíðinni.

Zelaya steypt af stóli forseta

Mikil ólga hefur verið í Hondúras síðan Manuel Zelaya, forseta landsins, var steypt af stóli forseta 28. júní. Zelaya sefur hér í sendiráði Brasilíu í Tegucigalpa eftir að hann sneri aftur til Hondúras 21. september. Hann leitaði athvarfs í sendiráðinu til að komast hjá handtöku.

Íhaldsmaðurinn Porfirio Lobo Sosa sigraði í umdeildum forsetakosningum í Hondúras í lok nóvember. Lobo hét því að koma á sáttum og binda enda á stjórnarkreppuna sem hófst þegar Zelaya var steypt af stóli.