— Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mótmæli almennings, sem skipulögð voru í fyrravetur, náðu hámarki vikuna frá fyrsta þingfundi nýs árs og þar til ríkisstjórnin féll mánudaginn 26. janúar.

Heit mótmæli við alþingishúsið í „búsáhaldabyltingu“

Mótmæli almennings, sem skipulögð voru í fyrravetur, náðu hámarki vikuna frá fyrsta þingfundi nýs árs og þar til ríkisstjórnin féll mánudaginn 26. janúar. „Búsáhaldabyltingin“, sem svo var nefnd vegna þeirra áhalda sem mótmælendur notuðu til að láta til sín heyra, reyndist vera mestu mótmæli á Íslandi frá 1949. Aðal mótmælin voru framan við alþingishúsið þar sem hundruð og jafnvel þúsundir manna komu saman. Lögreglan varði húsið. Þar var Óslóarjólatréð og fleira lauslegt notað til að kveikja bál og fána „Nýja Íslands“ haldið á lofti. Kvöldið eftir beitti lögreglan táragasi til að halda aftur af mótmælendum.

Ný ríkisstjórn við völd

Miklar sviptingar voru í stjórnmálum á árinu. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde féll þegar Samfylkingin sleit samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Við tók minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Framsóknarflokkurinn lýsti því yfir að hann verði stjórnina falli. Samfylking og VG náðu hreinum meirihluta í alþingiskosningum í apríl og mynduðu nýja ríkisstjórn undir forystu Jóhönnu. Tekist var á um ýmis mál í þinginu, eins og umsókn um aðild að Evrópusambandinu og Icesave. Jóhanna Sigurðardóttir sat kankvís í stóli forsætisráðherra þegar Geir H. Haarde fór í ræðustól sem almennur þingmaður.

Margir komu á fund Dalai Lama á Íslandi

Dagskrá Dalai Lama, andlegs leiðtoga Tíbeta, var þéttskipuð í heimsókn hingað til lands í byrjun júní og opinberir fundir með honum sérlega vel sóttir. Dalai Lama hefur verið í útlegð frá heimalandi sínu frá því á sjötta áratugnum. Dalai Lama átti óformlega fundi með nokkrum ráðherrum og alþingismönnum, heimsótti Alþingishúsið og fundaði með forseta Alþingis og utanríkismálanefnd. Sendiherra Kína lýsti yfir óánægju sinni með fundi Dalai Lama með íslenskum ráðamönnum. Myndin var tekin þegar Dalai Lama sótti sameiginlega friðarstund í Hallgrímskirkju.

Harpa að taka á sig mynd

Vladimir Ashkenazy, heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var ánægður þegar hann skoðaði tónlistar- og ráðstefnuhúsið við austurhöfn Reykjavíkur. Húsið er óðum að taka á sig mynd en framkvæmdir hófust á vormánuðum á vegum ríkis og Reykjavíkurborgar, eftir nokkurra mánaða hlé vegna fjárhagserfiðleika fyrirtækjanna sem stóðu fyrir uppbyggingunni. Og nú hefur húsið fengið formlegt nafn. Harpa mun hljóma þegar höllin verður tekin í notkun á árinu 2011.

Óvænt sundreið í Tjörninni

Litlu munaði að illa færi þegar ísinn á Reykjavíkurtjörn gaf sig undan þyngd tólf hrossa og jafn margra knapa sem féllu ofan í kalt vatnið svo aðeins höfuðið stóð upp úr. Tilefnið var blaðamannafundur til kynningar hestamóti en slysið gerðist í lokin þegar hrossunum var stillt upp í breiðfylkingu. Eftir hálftíma baráttu hafði tekist að koma öllum hrossunum á fast land en þau voru þá orðin þrekuð.

Svínainflúensa gengur yfir landið

Svínainflúensan lék einstök byggðarlög, skóla og vinnustaði grátt í haust þegar faraldur náði hámarki hér á landi. Alls hafa liðlega 700 einstaklingar greinst með inflúensuna A(H1N1) og tæplega tíu þúsund með inflúensulík einkenni. Það þýðir að tugir þúsunda Íslendinga hafa fengið flensuna. Fjöldi fólks hefur þurft að leggjast inn á spítala og sumir á gjörgæslu. Tveir Íslendingar hafa látist af völdum sýkingarinnar eða fylgikvilla. Hátt í áttatíu þúsund höfðu látið bólusetja sig um miðjan desember og fjölmargir fengu einnig bólusetningu við árlegu flensunni eins og Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður.

Hótel Valhöll brennur til grunna

Hótel Valhöll á Þingvöllum eyðilagðist í eldsvoða í júlí. Ekki urðu slys á fólki. Þar með lauk rúmlega aldar gömlum rekstri gisti- og veitingastaðar innan þinghelginnar. Þegar eldurinn kom upp í eldhúsi hótelsins, síðdegis á föstudegi, voru flestir gesta hótelsins úti í góða veðrinu en þeim sem voru inni tókst að komast fljótt út. Starfsfólkið náði ekki að slökkva eldinn og þegar slökkvilið kom á staðinn varð ekki við neitt ráðið og húsið brann til grunna. Leifarnar voru fjarlægðar næstu daga og tyrft yfir.

Reynt að smygla 109 kg með skútu

Lögreglan lagði hald á um 109 kíló af fíkniefnum sem reynt var að smygla til landsins með belgísku skútunni Sirtaki í apríl. Þar af voru 55 kíló af amfetamíni sem er mesta magn sem reynt hefur verið að smygla til landsins. Skútan fannst austur af landinu eftir víðtæka leit skipa og flugvéla Landhelgisgæslunnar. Fíkniefnin voru flutt úr skútunni til Djúpavogs með hraðskreiðum slöngubát og skipað þar upp í bíl sem lögreglan stöðvaði við Höfn í Hornafirði. Tveir karlmenn voru dæmdir til tíu ára fangelsisvistar fyrir skipulagningu og innflutning fíkniefnanna og fjórir til viðbótar í þriggja til níu ára fangelsi fyrir að taka þátt í innflutningnum. Varðskipið Týr fylgdi skútunni Sirtaki til hafnar á Eskifirði eftir að áhöfn hennar hafði verið handtekin.

Hvalveiðar hafnar á ný

Hvalskip Hvals hf. veiddu 125 langreyðar í sumar. Þá voru leyfðar magnveiðar á hval hér við land á ný, eftir 26 ára hlé. Eina undantekningin var 7 langreyðar sem veiddar voru árið 2006. Fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilaði veiðar á 150 skepnum en þær sem ekki náðust í sumar færast til næsta árs. Hvalur 9 var á leiðinni til Hvalfjarðar með tvær langreyðar á síðunni.