FJÁRMÁLAFYRIRTÆKI verður óheimilt að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra eða annan lykilstarfsmann nema hagnaður hafi verið af rekstri fyrirtækisins samfellt síðustu þrjú ár starfstíma hans. Þetta er meðal ákvæða í nýju lagafrumvarpi sem viðskiptaráðherra hefur lagt fram um fjármálafyrirtæki.
Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi:
* Lagt er til bann við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnbréfum.
* Þröngar skorður eru settar við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna.
* Settar eru reglur um hvernig standa má að hvatakerfum, kaupaukakerfum og starfslokasamningum.
* Gerðar eru auknar kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri aukin og bann sett við starfandi stjórnarformönnum.
* Skerpt er á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti auk þess sem eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins eru auknar.
* Settar eru reglur um viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja auk þess sem aukið er á ábyrgð og hlutverk innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar.