STJÓRN Ásusjóðs veitti í gær heiðursverðlaun fyrir árið 2009. Verðlaunin hlaut Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslenskum málvísindum við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Höskuldur hlýtur þau fyrir margþætt störf, rannsóknir og útgáfu rita á sviði íslenskra málvísinda og setningafræði. Íslenska og þau tungumál sem eru henni skyldust eru meginfræðasvið Höskuldar.
Stofnandi þessa sjóðs var frú Ása Guðmundsdóttir Wright. Hún fæddist á Laugardælum í Árnessýslu hinn 12. apríl 1892.
Kynntist hún enskum manni, lögmanninum dr. Henry Newcomb Wright, sem hún gekk að eiga. Ása og eiginmaður hennar settust að lokum að á Trínidad í Vestur-Indíum, sem þá var bresk nýlenda.
Ása seldi bújörðina á Trínidad á efri árum og var landinu breytt í fuglafriðland. Búgarðurinn, Spring Hill, heitir nú Asa Wright Nature Centre. Varði hún andvirði hennar í dollurum meðal annars til stofnunar þessa sjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga, sem undanfarin 40 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi, sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland. Breytingar á gengi dollara og önnur óáran í bankaviðskiptum hafa rýrt sjóðinn. Nú í ár hafa Alcoa-Fjarðaál og HB Grandi veitt sjóðnum veglegan styrk.
Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu en þeim fylgir í ár peningagjöf að upphæð þrjár milljónir króna.