Búðaráp Bandarískir hermenn skoða sjóræningjaplötur í verslun í Kabúl.
Búðaráp Bandarískir hermenn skoða sjóræningjaplötur í verslun í Kabúl. — Reuters
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is BANDARÍKJAMENN hafa ákveðið að fjölga um 30.000 manns í herliði sínu í Afganistan og verða þá um 100 þúsund manns í liðinu, auk tugþúsunda hermanna frá rösklega 40 öðrum ríkjum og innlendra stjórnarhermanna.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

BANDARÍKJAMENN hafa ákveðið að fjölga um 30.000 manns í herliði sínu í Afganistan og verða þá um 100 þúsund manns í liðinu, auk tugþúsunda hermanna frá rösklega 40 öðrum ríkjum og innlendra stjórnarhermanna. En margir efast um að fjölgunin dugi til og segja að ekki dugi minna en 1,5 milljónir hermanna til að ráða niðurlögum talíbana.

„Við erum með allt of fáa hemenn og höfum ekki getað sinnt öllu svæðinu þar sem barist er,“ segir Ole Bøe-Hansen, háttsettur liðsforingi við háskóla norska hersins, í samtali við Aftenposten .

Norðmenn eru meðal þeirra sem sent hafa hermenn til að berjast við talíbana sem standa að sumu leyti betur að vígi en útlendu hermennirnir. Talíbanar geta auðveldlega látið sig hverfa í fjöldann og hirða ekki um alþjóðlegar reglur, þ.á.m. tillit til óbreyttra borgara, sem takmarka oft athafnafrelsi erlenda liðsins.

Bandaríkjamenn hyggjast leggja mikla áherslu á þjálfun svo hægt verði að fjölga í afganska hernum upp í um 400 þúsund manns á næstu fimm árum. En margir eru vantrúaðir á að það takist. Talíbanar geti m.a. borgað hærra kaup en stjórnin og lokkað þannig til sín nýju hermennina.