Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is ,,VIÐ reiknum með því að unnt verði að einfalda framtalsgerðina töluvert á árinu 2010,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

,,VIÐ reiknum með því að unnt verði að einfalda framtalsgerðina töluvert á árinu 2010,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Ástæða þessa er sú að skattyfirvöld hafa nú aðgang að mun meiri upplýsingum til áritunar á framtalseyðublöðin en áður.

„Öllum fjármálastofnunum er nú skylt að gefa upplýsingar um peningalegar eignir og skuldir og það þýðir að ef framteljandi stendur ekki í atvinnurekstri og hann hefur ekki staðið í kaupum eða sölu eigna, þá getur hann í mjög mörgum tilfellum lokið framtalsgerðinni með því að lesa yfir þær upplýsingar sem eru til staðar og staðfesta framtalið,“ segir Skúli Eggert.

„Við munum tilkynna ákveðnum hópi framteljenda að þeir þurfi ekki að gera annað en að staðfesta framtalið. Reiknum við með að það verði upp undir helmingur allra framteljenda sem þannig losnar við að gera annað en að lesa framtalsgerðina yfir og staðfesta hana,“ segir hann.

Þetta er mikil breyting enda í fyrsta skipti sem fullbúin framtöl eru gerð af skattyfirvöldum.

Undirbúningur vegna skattabreytinganna um áramót gengur eðlilega fyrir sig. „Það hafa verið miklar annir hér hjá okkur og ýmis álitamál komið upp sem hefur þurft að skera úr,“ segir ríkisskattstjóri. Stærri launagreiðendur virðast vera tilbúnir og að sögn hans virðist allt ganga upp hjá þeim sem þegar hafa keyrt fyrirframgreidd laun í gegnum launakerfi sín. „Það verður ekki annað séð en að þetta sé í eðlilegum farvegi.“

  • Undirbúningur álagningar 2010 í fullum gangi
  • Þriggja þrepa tekjuskattkerfi um áramót
  • Meðalútsvar 13,12%, persónuafsláttur 44.205