Takist íslenska liðinu að komast í milliriðla getur Guðmundur skipt út tveimur leikmönnum og skipt einum út til viðbótar takist landsliðinu að komast alla leiki í undanúrslit.
Hinn 19 ára gamli Ólafur Guðmundsson úr FH var valinn í hópinn en þessi einn efnilegasti leikmaður landsins er eini nýliðinn í liðinu sem í eru 13 leikmenn sem unnu til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking í ágúst í fyrra. Sigfús Sigurðsson er sá eini úr silfurliðinu sem ekki er í hópnum. Bjarni Fritzson var 15. maðurinn í ólympíuhópnum í Peking, var svokölluð varaskeifa, en hann er ekki í EM æfingahópnum hjá Guðmundi.
Ólafur hlaut náð fyrir augum landsliðsþjálfarans en leikmenn á borð við Sigurberg Sveinsson úr Haukum, Ragnar Óskarsson úr Dunkerque og Rúnar Kárason úr Füchse Berlin, sem allir voru í eldlínunni í undankeppninni, voru ekki valdir að þessu sinni.
Hrikalega ánægður og stoltur
,,Ég er hrikalega ánægður og stoltur og ég lít á þetta val sem mikla viðurkenningu. Það er draumur allra að vera valinn í landsliðið,“ sagði Ólafur Guðmundsson við Morgunblaðið í gær þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um valið.Spurður hvort hann hafi átt von á því að vera valinn sagði Ólafur: ,,Það væri mikill hroki að segja að ég hefði átt von á þessu. Landsliðið okkar hefur sjaldan verið jafn sterkt og mikið af mönnum úr að velja. Ég var í 18 manna æfingahóp fyrr í vetur og mér fannst ég standa mig ágætlega þar og ég hef staðið mig nokkuð vel í vetur. Þar af leiðandi fannst mér ég alveg vera inni í myndinni,“ sagði Ólafur.
Gummi sýnir mér mikið traust
,,Gummi sýnir mér mikið traust með að velja mig í hópinn. Hann kann greinilega að meta það sem ég hef gert. Ég lærði mikið af æfingunum sem ég tók þátt í með landsliðinu í vetur. Vissulega voru það mikil viðbrigði að æfa með landsliðinu í stað þess að æfa með FH. Gæðamunurinn var mikill en ég var fljótur að venjast því,“ sagði Ólafur. Eini leikur hans með landsliðinu var leikur gegn svokölluðu pressuliði í lok október en hann er ekki skráður sem landsleikur.Ólafur segist mæta í toppstandi til æfinganna með landsliðinu en eins og áður segir verður fækkað um einn áður en endanlegur hópur verður valinn.
,,Ég mun leggja mig allan fram á æfingunum og gera mitt besta og svo verður bara að koma í ljós hverju það skilar manni. Ég er alveg búinn að jafna mig af meiðslunum í ökkla. Ég tók mér smá frí um jólin til að safna kröftum og verða hungraðri. Það er búið að vera mikið álag á mér í vetur en nú er ég alveg klár og mæti ferskur og heill heilsu til æfinganna,“ sagði Ólafur sem vann til silfurverðlauna á HM 19 ára landsliða í Túnis í sumar og var í mótslok valinn besti leikmaður mótsins.
Æfingahópurinn fyrir EM 2010
Markverðir:Björgvin Gústavsson, Kadetten.
Hreiðar Guðmundsson, Emsdetten.
Útileikmenn:
Vignir Svavarsson, Lemgo.
Logi Geirsson, Lemgo.
Ásgeir Örn Hallgrímsson, GOG.
Arnór Atlason, FC Köbenhavn.
Guðjón Valur Sigurðsson, Rhein Neckar–Löwen.
Snorri Steinn Guðjónsson, Rhein Neckar–Löwen.
Ólafur Stefánsson, Rhein Neckar–Löwen.
Alexander Petersson, Flensburg.
Sverre Jakobsson, Grosswallstadt.
Róbert Gunnarsson, Gummersbach.
Ingimundur Ingimundarson,
GWD Minden.
Sturla Ásgeirsson,
HSG Düsseldorf.
Þórir Ólafsson, N-Lübbecke
Aron Pálmarsson, THW Kiel
Ólafur Guðmundsson, FH
* Einn úr þessum hópi verður skilinn eftir þegar landsliðið fer til Austurríkis þar sem aðeins má tefla fram 16 leikmönnum í riðlakeppninni.
*Takist landsliðinu að komast í milliriðlakeppnina getur Guðmundur skipt út tveimur leikmönnum. Einum leikmanni til viðbótar er mögulegt að skipta út fari landsliðið alla leið í undanúrslit. Mögulegt er að tefla fram allt að 19 leikmönnum á EM.