Ólafur Jakobsson fæddist á Srí Lanka hinn 14. nóvember 1985. Hann lést í Reykjavík hinn 17. desember síðastliðinn. Hann var ættleiddur af Guðrúnu Gerði Guðrúnardóttur hönnuði, f. 15. mars 1955, og Jakobi Kristni Jónassyni bifvélavirkja, f. 17. október 1950. Ólafur átti uppeldissystur, Eyrúnu Gunnarsdóttur, f. 2. september 1972, d. 9. nóvember 1999. Ólafur ólst upp hjá foreldrum sínum á Stóru-Laugum, í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu, til fimm ára aldurs en þá skildu leiðir foreldra hans. Fluttu Ólafur og móðir hans til Reykjavíkur en síðustu árin bjó Ólafur hjá föður sínum í Reykjavík. Ólafur var langt kominn með nám í Borgarholtsskóla er hann lést. Einnig hafði Ólafur unnið í mörg ár hjá Vodafone við góðan orðstír. Ólafur tók einnig þátt í skátastarfi í mörg ár.

Ólafur verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 30. desember, og hefst athöfnin kl. 13.

mbl.is/minningar

Ólafur var aðeins 24 ára þegar hann kvaddi okkur sem elskuðum hann og trúðum að hann ætti allt lífið framundan. Hann var aðeins 14 daga gamall þegar hann var sóttur til Srí Lanka af þeim systrum Guðrúnu Gerði og Ástu S. Eyjólfsdóttur. Ólafur var ættlæddur af Guðrúnu Gerði Guðrúnardóttur hönnuði og Jakobi Kristni Jónassyni bifvélavirkja. Ólafur ólst upp í faðmi foreldra og uppeldissystur sem var Eyrún Gunnarsdóttir f. 2. september 1972, d. 9. nóvember 1999. Fyrstu árin sín ólst Ólafur upp á Stóru-Laugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem faðir hans, Jakob, hafði sjálfur alist upp og bjó síðar sinni fjölskyldu heimili. Þegar Ólafur var 5 ára þá skildu leiðir foreldra hans og hann fluttist til Reykjavíkur með móður sinni Guðrúnu Gerði. Samband milli föður og sonar var ávallt gott og innan fárra ára flutti faðir Ólafs einnig til Reykjavíkur. Ólafur leit mikið upp til systur sinnar Eyrúnar sem var 13 árum eldri en hann. Eyrún hélt á honum undir skírn og leit alltaf svo á að hún ætti svolítið meira í honum en að hann væri bara litli bróðir. Ólafur var elskulegt og brosmilt barn og eignaðist fljótt stóran vinahóp. Hann gekk í skátana 11 ára og byrjaði einnig ungur að tefla skák. Það átti vel við hann að taka þátt í athöfnum sem kröfðust lausna. Hann vildi leysa gátur og skoðaði ávallt hlutina frá þroskaðra sjónarhorni en venjulegt hefði mátt teljast miðað við hans aldur. Strax sem lítið barn tók hann það skýrt fram að hann væri Íslendingur og að hann væri frá Stóru-Laugum þegar einhver spurði út í litarhátt hans. Hann elskaði foreldra sína og þekkti ekki annað en að vera Íslendingur. Hann mátti ekkert aumt sjá og var ávallt boðinn og búinn til að rétta öðrum hjálparhönd. Hann gerðist styrktarforeldri hjá Unicef því hann vildi leggja sitt af mörkum til þeirra sem minna máttu sín og urðu undir í lífinu af einhverjum sökum. Ólafur stundaði nám í Borgarholtsskóla þar sem hann var á viðskiptabraut og hefði hann átt að útskrifast sem stúdent á vori komandi. Ólafur var aðeins 14 ára þegar uppeldissystir hans Eyrún lést langt fyrir aldur fram og hann syrgði hana mjög mikið því þeim þótti svo vænt hvoru um annað. Nú eru þau saman á ný. Við foreldrar hans, ættingjar og vinir erum öll harmi slegin og syrgjum góðan dreng. Strengur í brjósti foreldra er brostinn en góðar minningar um ljúfan dreng munu lifa áfram í hjörtum okkar.

Við þökkum þér ástúð og umhyggju þá,

sem okkur þú ríklega veittir.

Þú gafst okkur allt það sem unnt var að fá,

en aldrei um sjálfan þig skeyttir.

Og gjafirnar allar er gafstu okkur hér

við geymum í þakklátu minni.

Og ánægju og farsældar óskum við þér,

á óförnu brautinni þinni.

(Oddfríður Sæmundsdóttir.)

Sofðu rótt, elsku drengurinn okkar,

mamma og pabbi.

Ólafur Jakobsson var einn af mínum uppáhaldsnemendum. Hann var áhugasamur um námsefnið og oft til í að ræða tengsl þess við umheiminn. Hann sýndi að hann fylgdist vel með heimsmálum og hafði kynnt sér ýmiss konar efni. Það er hart að horfa á eftir svona efnilegum pilti í blóma lífsins. Efnilegir nemendur hafa góð áhrif á aðra nemendur og virka eins og hvatar til dýpri skilnings á viðfangsefnum námsins. Þannig nemandi var Ólafur í áföngum sem ég kenndi honum. Hagfræði gefur oft tilefni til tengingar við atburði líðandi stundar og hann hafði skoðanir á mörgu í efnahagskerfi heimsins. Hann benti mér á áhugavert myndefni, fræðslumyndir um efnahagsmál og peningakerfi og jafnvel lánaði mér eintak til að sýna öllum í bekknum og ræða svo efni myndanna á eftir. Ég mat mikils þennan einlæga áhuga og góðu virkni í kennslustundum. Með samúðarkveðju til foreldra hans.

Hans verður saknað.

Með einlægri kveðju frá Borgarholtsskóla,

Ásgeir Valdimarsson,

fagstjóri verslunarbrautar.