Landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Kristianstad í Svíþjóð , Margrét Lára Viðarsdóttir er komin í meðferð hjá Árna Árnasyni, sjúkraþjálfara. Hann hefur sérhæft sig í meiðslum í læri, eins og Margrét hefur glímt við í langan tíma án þess að fá bót meina sinna. Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari sagðist vonast til þess að Margrét yrði búin að ná sér vel áður en Algarvebikarinn hefst þann 24. febrúar.
Auk Margrétar Láru eru þær Dóra Stefánsdóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir úr leik í bili vegna meiðsla. Dóra gengst undir speglun á hné í dag og Guðrún þarf að hvíla enn um sinn vegna höfuðáverka sem hún fékk í haust, eins og fram kemur annars staðar í íþróttablaðinu.
R óbert Gunnarsson og félagar hans í Gummersbach unnu góðan útisigur á Düsseldorf , 32:28. Róbert skoraði 4 mörk í leiknum en Sturla Ásgeirsson komst ekki á blað í liði Düsseldorf.
Harpa Þorsteinsdóttir , framherji úr Breiðabliki , er ekki í æfingahópi landsliðsins. Hún fótbrotnaði í júlí og missti af Evrópukeppninni í Finnlandi og er ekki komin af stað enn sem komið er. Harpa hafði leikið fimm landsleiki á síðasta ári, og fimmtán alls, og skorað eitt mark þegar hún meiddist.
Alexander Petersson skoraði 1 mark fyrir Flensburg þegar liðið tapaði fyrir Göppingen , 30:27, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Danski landsliðsmaðurinn Lars Christiansen fór mikinn í liði Flensburg en hornamaðurinn knái skoraði 12 mörk. Hjá Göppingen var þýski landsliðsmaðurinn Lars Kaufman atkvæðamestur með 9 mörk.
Helgi Már Magnússon og félagar hans í Solna Vikings töpuðu nokkuð óvænt gegn Örebro , 78:77, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í gærkvöld. Jakob Örn Sigurðarson var í aðalhlutverki í 90:74 sigri Sundsvall á útivelli gegn Stocholm 08 . Sundsvall er í öðru sæti deildarinnar með 34 stig en Norrköping er efst með 38. Solna er í fjórða sæti með 32 stig. Helgi Már skoraði 11 stig en Jakob Örn skoraði 23 stig og var stigahæstur í liði Sundsvall.