Vinsæl Evróvisjónheimurinn dáir Jóhönnu.
Vinsæl Evróvisjónheimurinn dáir Jóhönnu.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is SÖNGKONAN Jóhanna Guðrún landaði öðru sæti í Evróvisjón þetta árið eins og frægt er orðið með laginu „Is it True?“.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

SÖNGKONAN Jóhanna Guðrún landaði öðru sæti í Evróvisjón þetta árið eins og frægt er orðið með laginu „Is it True?“. Jóhanna söng sig með tilþrifum inn í hjörtu þeirra sem á horfðu en sigurinn kom engu að síður í hlut hins snoppufríða Alexanders Rybaks frá Noregi sem töfraði fólk með sér fyrir tilstuðlan hins ægigrípandi „Fairytale“.

Töfrar Rybaks virðast þó ekki duga á hina hörðu evróvisjónaðdáendur, sem vísast er nóg af, þar sem lesendur evróvisjónvefjarins Esctoday.com, sem er sá allra burðugasti í þeim fræðunum, völdu í fyrradag framlag Jóhönnu sem besta lagið. Þá var Jóhanna valin besta söngkonan, texti íslenska lagsins eftir þá Óskar Pál Sveinsson, Tinatin Japaridze og Chris Neil valinn besti textinn og íslenski bakraddahópurinn var einnig talinn vera bestur.

„Þetta er auðvitað frábært,“ segir Jóhanna. „Ég bjóst ekki við neinu þegar ég fór út og þessi mikla velgengni lagsins, að keppni lokinni, kemur þægilega á óvart. Lagið hefur verið valið það besta af fleiri síðum og ég á víst einhvern bikar í Þýskalandi sem ég fékk fyrir að vera besta söngkonan! Mér finnst mjög vænt um að vera svona vel þokkuð hjá þessum evróvisjónaðdáendum og lagið virðist ætla að lifa góðu lífi áfram á þeirri plánetu. Þetta er allt saman mjög jákvætt og þessi athygli hefur hjálpað ferli mínum mikið.“