FYRIRTÆKI í Los Angeles í Kaliforníu býður nú borgarbúum að leigja jólatré. Um er að ræða jólatré með rótum í blómapotti og fyrirtækið sendir trén heim og sækir þau eftir jólin.

FYRIRTÆKI í Los Angeles í Kaliforníu býður nú borgarbúum að leigja jólatré. Um er að ræða jólatré með rótum í blómapotti og fyrirtækið sendir trén heim og sækir þau eftir jólin. Trén eru merkt rafrænt og viðskiptavinirnir geta því pantað sama tréð að ári.

Fram kemur á fréttavef BBC, að fyrirtækið, The Living Christmas Company, býður upp á 0,6 til 2 metra há tré. Scott Martin, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segist hafa leigt um 600 tré fyrir þessi jól og leigan er frá 50 dölum til 185 dala, 6500 til 24 þúsund króna.

„Við erum að reyna að endurvekja tákn jólanna,“ hefur BBC eftir Martin. „Fólk hefur hætt að vera með lifandi jólatré vegna þess að það hefur í för með sér eyðingu skóga. Margir eru því með gervijólatré en jólatré á að tákna nýja von, nýja trú, nýtt líf. Er plastjólatré slíkt tákn?“ spyr Martin.