<strong>Þyngri byrðar</strong> Tryggingagjaldið sem atvinnurekendur inna af hendi af heildarlaunum starfsmanna sinna snarhækkar um áramótin og á að standa undir stórauknum útgjöldum vegna atvinnuleysis.
Þyngri byrðar Tryggingagjaldið sem atvinnurekendur inna af hendi af heildarlaunum starfsmanna sinna snarhækkar um áramótin og á að standa undir stórauknum útgjöldum vegna atvinnuleysis.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tryggingagjald hækkar verulega um áramótin, í annað skipti á hálfu ári. Tekjurnar gætu orðið nálægt 30 milljörðum og eiga að standa undir fyrirsjáanlegum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 2010.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Atvinnutryggingagjaldið sem stendur undir útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna atvinnuleysisbóta, var fyrir réttu ári 0,65% af launagreiðslum fyrirtækja. Hafði þá staðið óbreytt í fjögur ár. Með stórauknu atvinnuleysi blasti við að Atvinnuleysistryggingasjóður tæmdist í vetur. Veruleg hækkun gjaldsins kemur þó í veg fyrir sjóðþurrð. 1. júlí í sumar var gjaldið hækkað í 2,21% og á sama tíma var gjald í Ábyrgðarsjóð launa tvöfaldað í 0,2%. Nú um áramótin hækkar tryggingagjaldið enn á ný og það umtalsvert eða í 3,81%.

Gaf af sér um 5 milljarða en ætti að skila 30 á árinu 2010

Þegar gjaldið var 0,65% gaf það af sér nálægt fimm milljarða kr. Nú má áætla að hærra atvinnutryggingagjald skili allt að 30 milljörðum kr. á næsta ári. Það á að duga til að standa undir útgjöldum vegna atvinnuleysisbóta ef mið er tekið af fjárlögum næsta árs, skv. upplýsingum Sigurðar P. Sigmundssonar, sviðsstjóra rekstrarsviðs Vinnumálastofnunar. „Þetta var stillt þannig af að ríkið þyrfti ekki að hlaupa undir bagga með sjóðnum en bæði útgjöld og tekjur geta að sjálfsögðu orðið eitthvað minni eða meiri.“

Spáð er meira atvinnuleysi á komandi ári en á yfirstandandi ári og má reikna með um 9% atvinnuleysi á landinu að meðaltali á árinu sem fer í hönd, heldur fleiri verði því án vinnu á komandi mánuðum en í ár þar sem atvinnuleysi var nálægt 8% yfir árið allt.

Þegar skattabreytingarnar voru í undirbúningi lögðu Samtök atvinnulífsins til hækkun tryggingagjaldsins gegn því að hætt yrði við upptöku auðlinda- og orkuskatta. „Frá okkar sjónarhóli hefur aldrei verið spurning um hvort atvinnulífið þyrfti að standa undir þessu heldur hvenær til þess kæmi. Við leggjum allt kapp á að ná atvinnuleysinu niður svo gjaldið geti lækkað aftur,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Ekki eru þó öll samtök í atvinnulífinu sömu skoðunar. FÍS varaði mjög við hækkun tryggingagjaldsins fyrr í vetur þar sem sú skattlagning legðist þyngra á verslunar og þjónustufyrirtæki en annars konar fyrirtæki í landinu. Áætla megi að a.m.k. 60% starfa í einkageiranum séu í verslunar- og þjónustugreinum. Því blasi við að frekari hækkun tryggingagjalds muni bitna hart á þessum geira, ekki síst þegar hún kemur til viðbótar öðrum skattahækkunum sem eiga sér stað.

„Þetta er allt til þess fallið að draga úr innlendri eftirspurn. Tryggingagjaldið er enn einn pósturinn sem þessi fyrirtæki sem hafa lifibrauð sitt af innlendri eftirspurn þurfa að taka á sig. Launakostnaður vegur mjög þung hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu og tryggingagjaldið er ekkert annað en launatengt gjald. Þar af leiðandi leggst það þungt á þessi fyrirtæki sem hlutfall af heildarkostnaði og veltu þeirra,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍS.

S&S

Hvað er atvinnutryggingagjald?

Það er hluti af tryggingagjaldi sem greitt er af öllum tegundum launa og skiptist í almennt tryggingagjald (sem rennur m.a. í fæðingarorlofssjóð og lífeyristryggingar), atvinnutryggingagjald og gjald í ábyrgðarsjóð launa. Atvinnutryggingagjaldið er notað til að fjármagna atvinnuleysisbætur.

Hefur gjaldið hækkað

á undanförnum árum?

Atvinnutryggingagjaldið var 0,8% árið 2004 en lækkaði í 0,65% árið 2005 og var hlutfallið óbreytt til 1. júlí í fyrra þegar það var hækkað í 2,21% og nú um áramótin hækkar það á nýjan leik um 1,6% og verður því 3,81%. Þetta hefur í för með sér að tryggingagjaldið í heild sinni verður 8,6%.

Hefur tryggingagjaldið

þanist út á umliðnum árum?

Tekjur af tryggingagjaldinu hafa aukist verulega á seinasta áratug. Árið 1999 skilaði það tæpum 29 milljörðum kr. reiknað á verðlagi ársins 2008. Árið 2008 rann 41 milljarður kr. í ríkissjóð af þessu gjaldi.