Fernando Torres
Fernando Torres
FERNANDO Torres reyndist bjargvættur Liverpool enn einn ganginn þegar liðið vann góðan útisigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

FERNANDO Torres reyndist bjargvættur Liverpool enn einn ganginn þegar liðið vann góðan útisigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld. Torres skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma og þar með náði Liverpool að hefna ófaranna frá því á Anfield fyrr á leiktíðinni þegar Villa hafði betur, 3:1.

Þetta var 50. deildarmark Torres í 72 leikjum fyrir lið Liverpool og hann skráði þar með nafn sitt í sögubækur Liverpool með því að vera sá fljótasti hjá Liverpool sem nær að skora 50 deildarmörk.

Fernando er frábær leikmaður

,,Þetta var erfiður leikur og ekki bætti úr skák að vallarskilyrðin voru afar erfið,“ sagði Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool eftir leikinn en snjókoma gerði leikmönnum lífið leitt á Villa Park. ,,Ég hef trú á mínum mönnum og nú er mikivægt fyrir okkur að komast á sigurbraut til að auka sjálfstraustið í liðinu. Fernando er frábær leikmaður, algjör lykilamaður, og árangur hans að vera búinn að skora 50 mörk fyrir félagið í úrvalsdeildinni er magnaður árangur,“ sagði Benítez.

,,Þetta voru mikil vonbrigði. Við verðskulduðum ekki að tapa. Pepe Reina kom Liverpool til bjargar nokkrum sinnum í leiknum með glæsilegri markvörslu en við megum ekki láta bugast. Við verðum að berjast áfram,“ sagði Martin O'Neill knattspyrnustjóri Aston Villa eftir leikinn en þetta var annar tapleikur liðsins í röð.

gummih@mbl.is