Víkverji fylgdist gáttaður með því hvernig kvennalið Vals í handbolta var slegið út í bikarkeppninni á mánudag.

Víkverji fylgdist gáttaður með því hvernig kvennalið Vals í handbolta var slegið út í bikarkeppninni á mánudag. Fyrst fékk þjálfari Valsmanna vilyrði þjálfara andstæðinganna, Hauka, fyrir því að nota leikmann, sem ekki verður löglegur fyrr en eftir áramót, í leiknum. Þegar Haukar síðan töpuðu ákvað stjórn félagsins að hafa orð þjálfarans að engu og kæra leikinn vegna hins ólöglega leikmanns. Handboltasambandið dæmdi sigurinn umsvifalaust af Valsstúlkum, sem sátu eftir með sárt ennið. Þær gátu reyndar sjálfum sér um kennt og spurning hvers vegna í ósköpunum ekki var hægt að bíða í nokkra daga með að leyfa hinum nýja leikmanni að spreyta sig. Á hinn bóginn spurðu Valsararnir andstæðingana hvort í lagi væri að nota leikmanninn og gátu því varla gert ráð fyrir því að leikurinn yrði síðan kærður. Þetta er ekki aðeins vafasöm framkoma í garð Vals, heldur ber einnig vitni heldur lítilli virðingu stjórnar félagsins fyrir orðum þjálfara Hauka, Díönu Guðjónsdóttur. Víst er að í herbúðum Valsara voru margir súrir eftir þessa útreið. Haukarnir strönduðu hins vegar á næsta skeri og töpuðu fyrir Frömmurum í úrslitum.

Boltinn lýgur ekki,“ tuldraði leikmaður einn, sem var upp á sitt besta í NBA-körfuboltanum fyrir mörgum árum, alltaf þegar skot andstæðings, sem hann átti að hafa brotið á, geigaði á vítalínunni. Liðsmenn Vals hafa kannski hugsað það sama þegar úrslitin lágu fyrir í bikarkeppninni á mánudagskvöld.

Þar koma að snjóaði sunnanlands og því ljóst að sleðar komu ekki bara upp úr jólapökkum til að rykfalla. Þótt kalt væri í veðri var sægur af krökkum í Plútóbrekkunni á Seltjarnarnesi í gær og sú hefur ugglaust einnig verið raunin í öðrum brekkum. Síðan er bara spurning hversu langt þess er að bíða að snjórinn verði nægur til að hægt verði að fara á skíði í Bláfjöllum.