— Morgunblaðið/Júlíus
UNGMENNI, 18 og 19 ára, sem handtekin voru á flugvelli á Spáni 16. desember síðastliðinn, voru með fjögur kíló af kókaíni í fórum sínum. Lögreglan á Barajas-flugvelli í Madrid staðfesti þetta við fréttaritara ríkisútvarpsins á Spáni.

UNGMENNI, 18 og 19 ára, sem handtekin voru á flugvelli á Spáni 16. desember síðastliðinn, voru með fjögur kíló af kókaíni í fórum sínum. Lögreglan á Barajas-flugvelli í Madrid staðfesti þetta við fréttaritara ríkisútvarpsins á Spáni.

Um er að ræða pilt og stúlku sem komu til Spánar frá Líma, höfuðborg Perú. Kókaínið hefði verið falið í handtösku ásamt búnaði til brimbrettasiglinga.

Kristinn R. Ólafsson, fréttaritari ríkisútvarpsins á Spáni, hafði eftir fréttafulltrúa lögreglunnar að parið hefði vakið grunsemdir á vellinum og þegar taskan var skimuð hefði kókaínið komið í leitirnar.

Kristinn sagði að fólkið hefði þegar verið úrskurðað í gæsluvarðhald og þyrfti væntanlega að sitja í varðhaldi í ein tvö ár þar til réttað yrði yfir því. Þá gæti dómurinn orðið frá tveggja ára til 12 ára fangelsis.

Fram kom hjá Kristni að lagt væri hald á mikið magn fíkniefna á flugvöllum á Spáni enda væri landið eins konar umskipunarhöfn eiturlyfja á leið til annarra landa í Evrópu.