— Reuters
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is BREYTTAR reglur um eiginfjárhlutfall banka, sem kynntar voru á dögunum, munu setja marga evrópska banka í óþægilega stöðu, tímabundið að minnsta kosti.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

BREYTTAR reglur um eiginfjárhlutfall banka, sem kynntar voru á dögunum, munu setja marga evrópska banka í óþægilega stöðu, tímabundið að minnsta kosti.

Samkvæmt nýju reglunum eru strangari skilyrði sett fyrir því að fjármálagjörningar, svokallaðir blendingsgjörningar (e. hybrid instruments), séu taldir til eigin fjár fjármálastofnana. Til slíkra gjörninga má t.d. nefna víkjandi lán, sem mikið hafa verið notuð hér á landi.

Ein tegund blendingsgjörninga eru skuldabréf, sem eru þess eðlis að bankinn má hætta að greiða af þeim eða jafnvel afskrifa hluta höfuðstólsins, lendi bankinn í erfiðleikum.

Raunin hefur hins vegar verið sú að þessi skuldabréf hafa gjarnan verið seld stórum viðskiptavinum bankanna, og þegar á reynir hafa bankar verið ragir við að láta þessa viðskiptavini taka á sig það tap, sem í eðli skuldabréfanna felst. Hafa gjörningarnir því ekki gegnt því hlutverki sem þeir eiga að gera, þ.e. að mæta ófyrirséðum erfiðleikum viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Þessar nýju reglur þýða að evrópskir bankar munu annað hvort þurfa að selja eignir til að minnka hlutfall eigna og eigin fjár, eða auka eigið fé með því að halda eftir hagnaði milli ára í staðinn fyrir að greiða hann út sem arð. Evrópskir bankar hafa notað blendingsgjörninga mun meira en bandarískir og er staða þeirra því veikari en ella.