SÉRA Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir verkefnisstjóri á Biskupsstofu þjónar íslenska söfnuðinum í London á vormisseri. Meginverkefnið er fermingarfræðsla.
„Ég fer fjórar ferðir til Lundúna í vor. Býst svo við að verða í fjarsambandi við fermingabörnin, enda hafa krakkarnir nýja samskiptamöguleika tölvutækninnar vel á valdi sínu,“ segir Steinunn Arnþrúður sem verður með fermingarfræðsluna í sendiráði Íslands. Messuhald verður í Sænsku kirkjunni.
Til fjölda ára hefur verið haldið úti embætti sendiráðsprests í London, en nú hefur það verið lagt niður í sparnaðarskyni.
Prestsembættið í Kaupmannahöfn verður lagt niður frá og með áramótum. Framhaldið þar er óákveðið en sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra mun funda með foreldrum fermingarbarna og sóknarnefnd í Kaupmannahöfn bráðlega og skipuleggja fermingarfræðslu og messuhald. sbs@mbl.is