<strong>Átök</strong> Lögregla beitti táragasi á mótmælendur á Austurvelli aðfaranótt 23. janúar. Fólk sló potta og pönnur uppstyttulítið í um tvo sólarhringa og ríkisstjórninni blæddi út.
Átök Lögregla beitti táragasi á mótmælendur á Austurvelli aðfaranótt 23. janúar. Fólk sló potta og pönnur uppstyttulítið í um tvo sólarhringa og ríkisstjórninni blæddi út. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðburðaríkt ár er á enda. Búsáhaldabylting leiddi til stjórnarskipta og umræðunni um Icesave linnti ekki. En fleira bar við, íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu keppti á HM í Finnlandi og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir varð í öðru sæti í Evróvisjón.

Viðburðaríkt ár er á enda. Búsáhaldabylting leiddi til stjórnarskipta og umræðunni um Icesave linnti ekki. En fleira bar við, íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu keppti á HM í Finnlandi og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir varð í öðru sæti í Evróvisjón.

Arnar Rúnar Marteinsson stýrði lögregluliðinu í búsáhaldabyltingunni

Á hárfínni línu

Strax við fall bankanna mótaði lögreglan þá stefnu að hafa langt í spottanum og sýna mótmælendum umburðarlyndi. Margir áttu um sárt að binda og eðlilegt er að þykkni í fólki þegar það tapar jafnvel öllu sínu. Þetta tel ég hafa verið rétta stefnu því í búsáhaldabyltingunni mátti ekki miklu muna að verr færi,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, yfirmaður óeirðadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hiti var í fólki þegar Alþingi kom saman að loknu jólaleyfi 20. janúar. Hundruð flykktust á Austurvöll þar sem fólk barði potta og pönnur og hafði hátt. Í aðdraganda þessa hafði lögregla fengið upplýsingar um hvað í vændum væri enda höfðu margir samband og sögðu frá því hvað sagt væri til dæmis á samskiptasíðum á netinu. „Frá því mótmælaaðgerðir hófust vorum við að sjá út eitthvert mynstur, sem var helst að uppákomurnar urðu með sífellt skemmra millibili. Einstaka aðgerðir virtust virka þannig að mestu gufunni var hleypt út en síðan komu rólegir dagar á milli. Eigi að síður var ljóst að spennan var að byggjast upp og viðbúnaður okkar tók mið af því. Upp úr sauð þegar Stöð 2 hélt Kryddsíldarveislu sína með stjórnmálamönnum á gamlársdag og var þá ljóst að meira gæti gerst.“

Eldfimt ástand

Aðgerðastjórn á átakavettvangi er sérstakt fag í fræðum lögreglu. Hópur manna stendur í fremstu víglínu og er þess albúinn að stíga feti framar, en gerir slíkt ekki nema liðsstjórnendur telji ástæðu til. Þannig stóðu tugir ef ekki hundruð lögreglumanna varðstöðu við Alþingishúsið daga og nætur í janúar þar sem Arnar og hans menn stýrðu aðgerðum í samræmi við hvernig þeir lásu stöðuna.

„Við vorum á hárfínni línu. Það er oft betra að taka á sig hnjask en fara út í beinar aðgerðir því í jafneldfimu ástandi og þarna var ófyrirséð hvernig þær gætu endað. Sorglegast og raunar alvarlegast fannst mér að lögreglumenn væru til dæmis grýttir. Nokkrir úr liðinu þurftu á slysadeild vegna meiðsla sem þeir hlutu og sumir hafa enn ekki náð sér,“ segir Arnar.

Búsáhaldabyltingin stóð frá miðjum degi 20. janúar fram á aðfaranótt 23. janúar, þá í kjölfar fundar á vegum Samfylkingar í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem þess var krafist að ríkisstjórn Geirs H. Haarde færi frá. Eftir þann fund flykkist fólk frá Hverfisgötu að þinghúsi þar sem ólæti voru fram eftir nóttu.

„Þarna sáum við meðal annars þekkta brotamenn og ýmsa sem töldu sig eiga lögreglunni grátt að gjalda. Einnig var komið á vettvang fólk í leit að látum enda kyntu fjölmiðlarnir undir að þarna væri fjörið. En þarna var líka fjöldi heiðvirðra borgara sem þessa síðustu nótt átakanna tóku beinlínis að sér að verja þinghúsið svo örþreyttir lögreglumenn gætu tekið sér hlé stundarkorn,“ segir Arnar. Þá gátu lögreglumenn kastað mæðinni og fengið sér hænublund annaðhvort í þinghúsinu eða á lögreglustöðinni við Hverfisgötu þar sem komið hafði verið fyrir svefnbekkjum.

Mikill stuðningur

„Þetta þjappaði mannskapnum saman, en í þetta verkefni fóru allir verkfærir menn í lögregluliði höfuðborgarsvæðisins, frá sérsveit ríkislögreglustjóra og menn úr Keflavík og frá Selfossi sem við kölluðum til. Í eftirleiknum höfum við farið nákvæmlega yfir hvernig við stóðum að öllum aðgerðum. Ég tel okkur hafa verið á réttri línu og það segir nokkuð um vinnubrögðin að enginn hefur kært lögreglu fyrir að hafa gengið of harkalega fram. Okkur fannst líka ómetanlegt að finna stuðning almennings, sem við fundum með ýmsu móti. Hingað streymdu blóm, matarsendingar, skeyti og fleira slíkt. Við vorum lögregla fólksins og það er góður vitnisburður. Lögreglumenn hlutu reynslu á meðan á þessum atburðum stóð, sem ekki eiga sér hliðstæðu hér á landi, og liðið í held hefði auðvitað kosið annað en þurfa að standa í átökum við borgarana.“ sbs@mbl.is

Guðrún Elsa Giljan Kristjánsdóttir og fjölskylda í Noregi

Ég óttast landflóttann

Noregsdvölin átti að vera fjögurra mánaða ævintýraleit. Hingað komum við í vor og ætluðum okkur að vera fram á haust. Það verður hins vegar að segjast að okkur hefur líkað afskaplega vel og mér finnst sennilegt að við verðum hér næstu tvö árin,“ segir Guðrún Elsa Giljan Kristjánsdóttir.

Margir á vesturströndinni

Guðrún Elsa og Grímur Rúnarsson eiginmaður hennar fluttust með tveimur börnum út til Noregs í maí sl. og settust að í Vennesla, sem er fjórtán þúsund manna bær skammt norðan við Kristiansand.

Kreppan hefur valdið því að vel á annað þúsund Íslendingar hafa flust til Noregs á árinu og margir hafa sest að á vesturströndinni þar sem næga vinnu er að fá meðal annars vegna áhrifa frá olíuvinnslunni í Norðursjó. Í samtali við Morgunblaðið sl. sumar sagði sr. Arna Grétarsdóttir Íslandsprestur í Noregi að talsvert af því fólki sem kæmi að heiman og settist að flytti þangað þar sem því væri það nauðugur einn kostur vegna atvinnumissis, erfiðrar fjárhagsstöðu og fleiri sambærilegra þátta. Fyrir vikið væri þetta fólk lengri tíma að ná sátt við lífið og tilveruna en ef aðstæður þess væru hagfelldari.

„Íslendingum hér í Noregi fjölgar stöðugt. Mér finnst ég sífellt oftar heyra íslensku hér, til dæmis þegar ég fer út í búð. Stærstur hluti þess hóps sem hingað kemur hefur mér virst vera milli þrítugs og fertugs þar sem fjölskyldufaðirinn er iðnaðarmaður, enda er atvinnuástand meðal þeirra heima á Íslandi mjög slæmt. Því miður óttast ég að landflóttinn muni vaxa mjög á næstu misserum. Að heiman fæ ég fjölda símhringinga og tölvupóst þar sem fólk spyr mig hvernig atvinnuástandið sé, hvernig eigi að útvega sér atvinnu, húsnæði, koma börnum í skóla og svo framvegis. Þegar fólk hyggst hasla sér völl í nýju landi er góður undirbúningur mikilvægur,“ segir Guðrún sem lætur vel af afkomu fjölskyldunnar í Noregi. Sér og sínum vegni vel. Eiginmaður hennar er húsamálari en sjálf er hún í fæðingarorlofi en reiknar með að fara aftur út á vinnumarkaðinn þegar því lýkur snemma á nýju ári.

Sýna Íslendingum skilning

„Dóttir okkar sem er níu ára er komin með fín tök á norskunni og sjálf erum við hjónin að ná málinu,“ segir Guðrún Elsa sem kveðst ekki hafa skynjað annað en jákvæð viðhorf Norðmanna gagnvart Íslendingum sem eru að hasla sér völl í nýju landi. Orðrómur hefur verið um að norskum iðnaðarmönnum hugnist ekki, að starfsbræður þeirra frá Íslandi séu að sækja þangað vinnu en þetta segist Guðrún þó hvergi hafa orðið vör við.

„Ég kann afar vel við Norðmennina og þeir sem ég hef rætt við sýna stöðu okkar Íslendinga mikinn skilning. Þjónustufulltrúinn minn í bankanum orðaði þetta svo, að sér þætti sárt að sjá hvernig örfáir menn gætu kafsiglt landið sitt. Viðhorf annarra er á þessa lund. Fólk sýnir okkur Íslendingum skilning og ég kann ákaflega vel við norskt samfélag sem er alls ekki ólíkt hinu íslenska. Mér finnst ég oft raunar ekki vera í útlöndum, áður bjuggum við í Kópavogi en bærinn þar sem við búum nú minnir mig stundum á Akureyri.“ sbs@mbl.is

Eysteinn Jóhann Dofrason í Bakkafjöru

Framkvæmdin er risavaxin

Það er gaman að starfa að verkefnum sem væntingar eru bundnar við,“ segir Eysteinn Jóhann Dofrason, verkefnisstjóri hjá Suðurverki. Starfsmenn fyrirtækisins hafa síðustu misseri unnið að gerð Landeyjahafnar en tilkoma hennar mun valta byltingu í samgöngum milli lands og Eyja. Vinnu við hafnargarða, sem hvor um sig er rúmir 650 metrar, er lokið og nú er unnið að gerð viðlegukants þar sem ferjuskip leggjast að bryggju. Framkvæmdinni lýkur í júlí á næsta ári – eða fyrir Þjóðhátíð í Eyjum!

„Verkefnið er risavaxið,“ segir Eysteinn. „Ofan af Seljalandsheiði tókum við 730 þúsund rúmmetra af grjóti. Snemma á þessu árin byrjuðum við svo að aka grjóti í hafnargarðana tvo og vorum þar á fullum dampi fram í september. Þegar best lét vorum við með um 110 manns í þessu verkefni, fínan hóp af hörkuduglegum körlum. Í raun hefur gangurinn í þessu verkefni verið lyginni líkastur.“

Eftir því sem framkvæmdir við Landeyjahöfn þokast áfram hafa stjórnendur Suðurverks fækkað í starfsmannahóp sínum. „Slíkar aðgerðir eru óhjákvæmilegar, því opinberir aðilar virðist ekki ætla í neinar stórframkvæmdir á næstunni,“ segir Eysteinn sem þykir sá áhugi sem fólk sýnir framkvæmdum í Landeyjum ánægjulegur.

„Allt frá því mynd kom á framkvæmdina hefur fólk komið hingað í hópum til að skoða og spyrja. Á góðum degi eru þetta heilu rúturnar,“ segir Eysteinn. sbs@mbl.is

Ólafur Elíasson tónlistarmaður stóð í ströngu með InDefence-hópnum:

Þjóðin ekki upplýst um Icesave

Atburðarásin hefur allt þetta ár verið með ólíkindum. Eina nóttina í sumar var Icesave-samningnum sem Íslendingar höfðu gert við Breta og Hollendinga til lúkningar Icesave-skuldinni laumað inn um bréfalúguna hjá mér. Ég veit ekki og mun sjálfsagt aldrei verða nokkru nær um hvaðan þetta skjal kom,“ segir Ólafur Elíasson tónlistarmaður og einn forsprakka InDefence-hópsins svonefnda.

„Bara að hafa þetta skjal undir höndum sem þingmenn þjóðarinnar fengu ekki aðgang að – og sjá í því að Ísland skyldi sæta afarkostum – varð til þess að við í InDefence fórum aftur af stað. Vegna baráttu okkar gegn beitingu hryðjuverkalaganna og þeirrar þekkingar sem við höfðum aflað okkur á málinu í gegnum það verkefni ákváðum við að við yrðum að gera allt sem hægt væri til að verja hagsmuni þjóðar okkar.“

Málin tóku nýja stefnu

Allt frá bankahruninu hefur InDefence-hópurinn beitt sér með ýmsum hætti í hinni erfiðu og torleystu milliríkjadeilu Íslendinga og Breta og Hollendinga. „Hópurinn er allstór og menn hafa jafnólíkar skoðanir á stjórnmálum og þeir eru margir. Flestir eiga það þó sammerkt að hafa aflað sér menntunar og dvalist um lengri eða skemmri tíma í Bretlandi og þekkja þar eitthvað til manna og málefna,“ segir Ólafur Elíasson.

Upphafleg ætlun stjórnvalda var sú að farið yrði með Icesave-samningana sem trúnaðargögn gagnvart þingi og þjóð.

„Þegar við í InDefence-hópnum fórum að beita okkur í málinu með þessi mikilvægu gögn undir höndum tóku mál nýja stefnu. Í öllu falli hefur skort mjög á að þjóðin sé upplýst um innihald þessara samninga sem leggja mjög þungar byrðar á herðar okkur Íslendingum, ef allt fer á versta veg. Á fundum hópsins til dæmis með þingnefndum og einstaka alþingismönnum hefur mér fundist nokkuð skorta á að þingmenn hafi þekkingu á Icesave-málinu, sem þó er eitt allra stærsta hagsmunamál okkar í seinni tíð. Alvarlegast er þó að svo virðist sem ekki hafi verið fullur áhugi stjórnvalda að fylkja sér á bak við þær röksemdir sem geta styrkt samningsstöðu Íslendinga. Að þessu höfum við margsinnis orðið vitni. Hins vegar hefur ítrekað verið leitað til okkar um álitsgerðir og útreikninga, sem segir okkur að starf hópsins nýtur virðingar,“ segir Ólafur og væntir þess að starf InDefence muni skila árangri.

„Þegar ég sá hvaða pappírar lágu hér á forstofugólfinu varð ég satt að segja skíthræddur. Fannst ég vera staddur inni í einhverju íslensku Watergate. Þeir lögfræðingar sem starfa með okkur töldu hins vegar einboðið að nota þessi gögn ásamt mörgu því öðru sem okkur hefur fallið til.“

Opinn fyrir grasrótarstarfi

Þegar endanleg niðurstaða er komin í Icesave-málið er starfi InDefence sjálfhætt, segir Ólafur Elíasson. Sjálfur er hann þó opinn fyrir frekari þátttöku í einhvers konar grasrótarstarfi í framtíðinni.

Hann segist t.d. lengi hafa gengið með þá hugmynd í maganum að setja á laggirnar málefnahóp sem veiti samfélagslegt aðhald gegn glæpum og upplausn. Þar sé til mikils að vinna. Sér sé í mun að Ísland sé land þar sem þegnarnir geti verið öruggir um líf sitt og eignir og að almenn löghlýðni ríki í samfélaginu.

Ólafur er píanóleikari og kennir við Tónlistarskólann í Mosfellsbæ. „Í augnablikinu er ég að undirbúa burtfararpróf tveggja nemenda minna. Það starf er afar gefandi,“ segir Ólafur sem nýlega lauk MBA-námi við Háskóla Íslands. Ýmislegt spennandi sé í bígerð á næstunni, svo sem upptökur þar sem Ólafur ætlar að leika alla píanókonserta Bachs með kammersveitinni London Chamber Group. Einnig hefur Ólafur alltaf annað veifið haldið námskeið þar sem hann fræðir og ferðast með fólk um töfraheim sígildrar tónlistar og heldur áfram á þeirri braut á ári komanda. sbs@mbl.is

Birna í blokkinni í Grindavík

Varð táknmynd ástands á Íslandi

Ég varð skyndilega nokkurs konar táknmynd ástandsins á Íslandi,“ segir Birna Guðrún Sverrisdóttir í Grindavík. Í byrjun febrúar á þessu ári birtist við hana við hana viðtal í Morgunblaðinu sem eina íbúann í 24 íbúða fjölbýlishúsi í Grindavík. Síðan þá hefur aðeins fjölgað í blokkinni, þar er nú búið í fjórum íbúðum, en tuttugu standa enn auðar.

„Þau viðbrögð sem ég fékk í kjölfar viðtalsins í Morgunblaðinu voru meiri en ég gerði mér nokkru sinni hugmyndir um. Eftirleikurinn varð í raun mikið ævintýri því hingað komu og töluðu við mig sjónvarpsmenn frá CBS í Bandaríkjunum og aðrir sem hafa umsjón með fréttaskýringaþætti í hollenska sjónvarpinu. Þegar borið var upp við mig að vera viðmælandi í þessum hollenska þætti á þriggja mánaða fresti, þar sem átti að segja sögu íslensku þjóðarinnar á þessum örlagatímum með mig sem einhvers konar fókuspunkt, fannst mér hins vegar mál að linnti,“ segir Birna.

Blokkin sem Birna býr í er við Stampshólaveg í Grindavík. „Enn er talsvert ógert hér utandyra. Útidyraljósin eru loksins komin í lag en til skamms tíma var þetta þannig að þegar ég kom heim úr vinnu á kvöldin, sem gjarnan er seint, þá var þetta eins og draugahús í einskismannslandi. Það breytir samt ekki því að mér hefur alltaf liðið vel hérna. Og eftir því sem íbúum fjölgar verður þetta sífellt betra,“ segir Birna sem væntir að brátt fjölgi í blokkinni góðu. Það haldist þá í hendur við að þjóðin geti þokað sér út úr yfirstandandi hremmingum.

„Það trúi ég að gerist fyrr en síðar, einfaldlega vegna þess að bjartsýnin er mér eðlislæg.“

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir náði 2. sæti í Evróvisjón

Var boðið að keppa aftur

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur

ylfa@mbl.is

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söng sig svo sannarlega inn í hjörtu Íslendinga sl. vor þegar hún tryggði okkur 2. sætið í Evróvisjón-söngvakeppninni í Moskvu. Nú nýverið völdu lesendur Evróvisjón-vefjarins Esctoday.com Jóhönnu Guðrúnu bestu söngkonuna í keppninni í Moskvu í maí og framlag Íslendinga, Is it True?, Evróvisjónlag ársins. „Þetta ár var frábært,“ segir Jóhanna Guðrún. „Það var hálfóraunverulegt að ná 2. sætinu því það gengur oft frekar illa hjá okkur og hefur það yfirleitt ekkert með lagið að gera. Þetta var afar jákvæð og skemmtilegu upplifun. Bara það að koma til Moskvu er nokkuð sem ég hefði sennilega aldrei gert.“

Hún segir það hafa verið góða tilfinningu að ná svona langt en það hafi tekið dálítinn tíma að átta sig á hversu vel henni í raun gekk. „Ég uppgötvaði það ekki fyrr en löngu eftir að ég kom heim. Enn í dag pæli ég ekki í því en stundum hugsa ég: Vá, ég komst í 2. sæti!“

Útilokar ekki að taka aftur þátt

Síðan Jóhanna Guðrún kom heim frá Moskvu hefur hún m.a. sungið í Tyrklandi og nokkrum sinnum í Noregi og Svíþjóð en þar er hún á samningi hjá Warner Brothers. Aðspurð segist hún vonast til að geta gefið út nýtt efni á næsta ári. „Draumurinn er að gefa út aðra plötu, það er kominn tími á það.“ Jóhanna Guðrún segir að áður fyrr hafi hún alltaf fylgst með Evróvisjón, líkt og flestir Íslendingar, án þess að vera „Evróvisjón-brjálæðingur“ eins og hún kallar það, en nú sé hún orðin dyggur aðdáandi. „Ég hugsa að ég fylgist mjög vel með núna á næsta ári,“ segir hún.

Ekki leiki nokkur vafi á því að hún líti keppnina öðrum augum nú eftir að hafa tekið þátt í henni. „Að taka þátt í keppninni var mikil vinna, mikil reynsla og góður skóli. Í keppninni felast fleiri tækifæri en margir gera sér grein fyrir. Mér var t.d. boðið að fara aftur og keppa fyrir Danmörku en mér fannst líða of stuttur tími á milli keppna.“ Hún útilokar því ekki að taka aftur þátt. „Þegar ég kom heim frá Moskvu hugsaði ég að það væri bara þetta eina skipti en maður veit ekki. Ef það kemur eitthvert frábært lag einhvern tímann seinna þá er erfitt að segja nei við því.“

Stefán Jón Hafstein við störf í Malaví

Í uppbyggingu við Apaflóann

Þróunarverkefni eru langhlaup,“ segir Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví. Hann hefur síðustu árin starfað við þróunaraðstoð á vegum Íslands erlendis, fyrst í Namibíu og nú síðustu misserin í Malaví. Nú er að ljúka tuttugasta árinu sem Íslendingar koma að þróunarvinnu þar, sem hefur verið afar fjölþætt.

„Nú í ár voru fjögur meginverkefni í gangi við Malavívatn þar sem kallast Apaflói,“ segir Stefán Jón. „Við höldum áfram stuðningi við sveitaspítala á svæðinu og byggjum nú nýja fæðingardeild sem valda mun byltingu í þjónustu spítalans. Byrjað var á honum fyrir nær áratug, nú stendur þar spítali sem áður var kofaræksni sem kallaðist heilsugæsla. Einnig gerum við vatnsból og brunna, við munum ná til 20 þúsund heimila á fjórum árum. Þá er fullorðinsfræðsla í gangi til að auka læsi og nú í lok ársins lýkur fiskveiðaverkefni sem ætlað var að þróa búnað til að sækja afla á dýpri mið en nú er hægt á hefðbundnum eintrjáningum heimamanna.“

Áþreifanleg lífskjarabót

Stefán Jón segir að starf Íslendinga í Malaví hafi þegar skilað miklum árangri. Spítalaverkefnið hafi valdið byltingu í heilsugæslu á svæðinu við Apaflóann. Vatnsbólin séu áþreifanleg lífskjarabót fólksins á hverjum degi. „Barnaskólar sem við höfum byggt eru stórkostleg umbót fyrir hérað þar sem 150 þúsund börn læra á jörðinni undir tré. Heimamenn eru mjög þakklátir og láta okkur vita það, enda Þróunarsamvinnustofnun stærsti erlendi aðilinn að störfum þarna í Mangochi þar sem búa í heild 800 þúsund manns. Bara að sjá sjúkrabílana sem við gáfum á þönum út í ystu byggðir eftir fæðandi konum sannar að margt gengur vel.“

Fjárveitingar Íslendinga til þróunarmála hafa dregist saman á bilinu 35-40% frá efnahagshruninu að teknu tilliti til gengisfalls íslensku krónunnar. „Í Malaví höfum við úr um 2,3 milljónum dollara að spila í heildina og það er talsverður samdráttur frá því þegar við vorum með 4,5 milljónir dollara. Við lærum að lifa með þessu eins og aðrir, finnum auðvitað fyrir þessu, en næsta ár sleppur alveg til,“ segir Stefán sem telur þó að verði niðurskurðurinn í sama mæli þegar komið er fram á árið 2011 og þaðan í frá verði mjög erfitt að sinna þeim verkefnum sem við blasa.

Malaví er fátækt land þar sem helmingur 13 milljóna manna hefur minna en 200 krónur á dag úr að spila. Ungabarnadauði er með því hæsta sem gerist í heiminum og rafmagn nær til 6% íbúa. Fjórða hvert barn er vannært. „Það er ekki hægt að bera þetta á neinn hátt saman við Ísland, jafnvel þótt í kreppu sé. Við Íslendingar erum ríkt fólk hvernig sem á er litið í samanburði við Malaví, þrátt fyrir allt, segir Stefán sem í þesssu ljósi finnst beinlínis sorglegt að fylgjast með pólitíkinni hér heima

Ekki á leið í framboð

„Ég hefði búist við þjóðarsamstöðu í stjórnmálum meðan við tökumst á við bráðavanda. Við eigum alla möguleika og glæsta framtíð – ef við berum gæfu til að standa saman. Sem borgarfulltrúi í leyfi frá störfum get ég ekki neitað því að ég er feginn að hafa verið fjarri. Ég hefði ekki notið mín í umhverfi upplausnar. Ég hef brennandi áhuga á sköpun Nýja Íslands, en er ekki á leið í framboð sjálfur. Ég mun freista þess að leggja gott til ef ég tel mig geta það og held áfram að fylgjast vel með. Landsfeður og -mæður eru undir gríðarlegu álagi, nú væri gott ef skapaðist samstaða.“

Í einlægni sagt segist Stefán vera í essinu sínu við þróunarstörf í Afríku. „Verkefnin eru brýn og ótrúlega margt líkt með því sem maður vinnur þarna við gjörólíkar aðstæður og þegar maður var í sveitarstjórnarmálum. Grunnþarfir eru samt skilgreindar öðruvísi hér en í Malaví og reyndar er ágæt tilbreyting að vinna í friði og samvinnu við fólk að framförum, miðað við pólitíkina sem oft snýst um sjálfa sig en ekki kjarna málsins. Mér finnst ég vera fulltrúi skattborgara á Íslandi að reyna að koma góðu til leiðar og metnaði mínum er fullkomlega svalað ef vel tekst til að hjálpa fólki sem telst til þess fátækasta í heiminum. Ekki bið ég um meira. Ég er oft stoltur af því að vera Íslendingur og fulltrúi fólks sem leggur sitt af mörkum til fátækra.“ sbs@mbl.is

Hólmfríður G. Einarsdóttir bloggaði

Umræða um eineltið skiptir öllu

Þau viðbrögð sem ég fékk voru afar sterk. Afar margir þökkuðu mér fyrir að stíga fram og segja frá reynslu minni. Svo fékk ég líka skilaboð þar sem ég var sökuð um athyglissýki og að vera að reyna að ná hefndum gagnvart kvölurum mínum, sem er fráleitt. Þær athugasemdir voru flestar nafnlausar en ég komst nú reyndar að því hvaðan sumar þeirra væru,“ segir Hólmfríður Guðlaug Einarsdóttir framhaldsskólanemi.

Athyglisvert viðtal birtist við Hólmfríði í Morgunblaðinu í janúar síðastliðnum þar sem hún lýsti reynslu sinni af langvarandi einelti meðan hún var nemandi við Varmárskóla í Mosfellsbæ. Ýmsir fleiri gerðu slíkt á árinu og hafa þau skrif oft vakið mikla athygli.

„Bloggið gerði mér ákaflega gott. Mér var mikilvægt að koma sögu minni á framfæri og eins losa um tilfinningar mínar. Þetta virtist sömuleiðis snerta mjög marga því ég fékk þúsundir heimsókna á síðuna, sérstaklega eftir að viðtalið við mig í Mogganum birtist. Þegar best lét fékk ég heimsóknir frá 6.000 IP tölum einn og sama daginn,“ segir Mosfellingurinn Hólmfríður sem lauk grunnskólanámi sínu í Réttarholtsskóla í Reykjavík síðasta vor.

„Ég gat ekki meira í Varmárskóla og fór því í annan skóla, þar sem haldið er vel utan um nemendur og einelti ekki látið líðast. Ég náði fínum einkunnum í vor og er núna á viðskipta- og hagfræðibraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti,“ segir Hólmfríður. Hún telur skilning á því hvað einelti getur verið hræðilegt sífellt meiri. Í þeirri baráttu skipti opin umræða öllu máli og vonandi hafi skrif hennar á blogginu verið lóð á vogarskálar. sbs@mbl.is

Dóra Ísleifsdóttir mótmælti með fjöldanum á Austurvelli

Gamla Ísland enn á sveimi

Samstaðan var mikilvæg og sjálf var ég ein af þeim fjölmörgu sem náðu í eldhúspott og börðu fyrir framan Alþingishúsið. Raunar skiptum við hjónin með okkur liði, annað okkar var heima að gæta barna en þegar þau voru á leikskólanum stóðum við bæði á Austurvelli. Þetta voru ótrúlegir dagar,“ segir Dóra Ísleifsdóttir grafískur hönnuður og lektor við Listaháskóla Íslands.

Fordæmalaus bylting

Búsáhaldabyltingin í janúar síðastliðnum er fordæmalaus í Íslandssögunni enda hafði hún mikil áhrif. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde blæddi út og nýtt fólk tók við landsstjórninni.

„Ef óréttlætið er mikið eiga Íslendingar til þá taug að mótmæla, þó seinþreyttir séu,“ segir Dóra. Hún segir þá reiði sem sauð í almenningi snemma árs helgast af mörgu. Mjög hafi skort á, að hennar dómi, að stjórnvöld hefðu upplýst almenning um stöðu mála í kjölfar bankahrunsins og að gripið hefði verið til þeirra róttæku ráðstafna sem þurfti.

„Þetta voru engir venjulegir atburðir og þegar á reyndi var bakbein stjórnvalda til að mæta þeim risavöxnu vandamálum sem uppi voru ekki mikið,“ segir Dóra sem sótti fjölmarga fundi í kjölfar hrunsins til að afla sér upplýsinga um hvað væri raunverulega að gerast. Þá var hún ræðumaður á útifundi Radda fólksins fyrsta laugardag í janúar.

„Í búsáhaldabyltingunni var fólk sem hafði eins ólíkan bakgrunn eins og það var margt. Þarna var mikið af listafólki en líka hinn breiði hópur almennings sem ákvað að við yrðum að standa saman en ekki gegn því að nauðsynlegar breytingar í þjóðfélaginu ættu sér stað. Vissulega voru þarna einstaklingar sem vildu ganga býsna langt og beita ofbeldi en þeir voru þó ekki margir. Lögreglan sem stóð vörð um Alþingishúsið stóð sig frábærlega þótt einstaka menn í þeim hópi gerðu sig seka um að æsa fólk upp. Við skulum samt ekki gleyma því að lögregluþjónar eru fólk og í jafn brjáluðu ástandi og þarna var er kannski eðlilegt að komi til einhverra ryskinga eins og þarna því miður urðu.“

Skítinn undir teppið

Hvað dóm búsáhaldabyltingin fær í fyllingu tímans segir Dóra Ísleifsdóttir munu meðal annars ráðast af því hvernig unnið verði úr niðurstöðum sérstaks saksóknara og rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Má í því efni minna á ummæli sem formaður nefndarinnar, Páll Hreinsson, lét falla í útvarpsviðtali í haust, þar sem hann sagði afar vondar fréttir í vændum en skýrsla með niðurstöðum nefndarinnar er væntanleg í febrúarbyrjun næstkomandi.

„Gamla Ísland er enn á sveimi og núverandi ríkisstjórn hefur ekki tekið á málum af nægjanlegri festu. Mikilvægt er að öll gögn er varða bankahrunið verði dregin fram í dagsljósið og þeir sæti ábyrgð sem hana sannarlega bera. Æ fleiri hafa áhyggjur af því að sópa eigi skítnum undir teppi og út í horn. Slíkt má ekki gerast. Sömuleiðis er mikilvægt að marka leikreglur til framtíðar með stjórnlagaþingi. Þó megum við samt ekki festast í þessu uppgjöri þegar heimurinn stendur frammi fyrir mörgum risavöxnum vandamálum, til dæmis hlýnandi loftslagi og mengun eins og var rætt um á ráðstefnu í Kaupmannahöfn á dögunum. Málin sem þar voru í deiglu eru stóru úrlausnarefnin sem mannkynið stendur frammi fyrir og í því samhengi eru vandamál Íslendinga smá,“ segir Dóra Ísleifsdóttir. sbs@mbl.is

Þóra Helgadóttir knattspyrnumaður

Gott gengi eftir erfið veikindi

Merkilegt ár er að baki hjá Þóru Helgadóttur, landsliðsmarkverði í knattspyrnu. Haustið 2008 fékk hún einkirningasótt – slæmt tilfelli, eins og hún tekur sjálf til orða – og læknar töldu að hún gæti orðið allt að heilu ári að jafna sig. En hún einsetti sér að ná bata sem fyrst; hætti í góðri vinnu í Belgíu og gekk til liðs við norska liðið Kolbotn þar sem hún einbeitti sér að íþróttinni.

Þegar ár var liðið frá því að Þóra veiktist hafði hún þegar leikið fyrir Íslands hönd í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í Finnlandi og orðið í þriðja sæti norsku deildarinnar með Kolbotn.

Best í Noregi

Að tímabilinu loknu var Þóra kjörin besti markvörðurinn í Noregi, af leikmönnum sjálfum, og hlaut einnig nafnbótina besti leikmaður ársins í Noregi. Í karlaflokki varð fyrir valinu varnarjaxlinn Brede Hangeland, leikmaður Fulham á Englandi og fyrirliði norska landsliðsins.

„Það var sigur fyrir okkur að komast í úrslitakeppni EM,“ segir Þóra spurð um hvað stendur upp úr á árinu. „Við settum okkur samt sem áður háleit markmið; ætluðum að komast upp úr riðlinum og héldum að við gætum orðið það lið sem kæmi á óvart. Það tókst ekki og ég skal alveg viðurkenna að það tók töluverðan tíma að jafna sig. Þegar markið er sett hátt eru það auðvitað mikil vonbrigði. En þegar ég hugsa til baka held ég að við höfum staðið okkur vel. Það má kannski segja að við höfum gert óraunhæfar kröfur til sjálfra okkar.“

Þóra kveðst hafa verið staðráðin í því strax frá því hún veiktist að taka þátt í EM í Finnlandi. „Ég mátti því varla hreyfa mig fyrstu mánuðina eftir að ég veiktist en til þess að geta haldið áfram í fótboltanum var ekki um annað að ræða en hætta að vinna. Ég gat ekki verið í hvoru tveggja,“ segir Þóra.

Markvörðurinn var illa á sig kominn líkamlega þegar til Noregs kom. „Ég var lengi að ná mér og ekki orðin fullkomlega góð fyrr en seint í sumar. Í fyrstu þurfti ég mikla hvíld, svaf stundum í 12 tíma og þurfti að hugsa vel um mataræðið til þess að geta stundað fótboltann.“

Forráðamenn Kolbotn studdu vel við bakið á Þóru og hún er þeim mjög þakklát fyrir. Eftir frábært tímabil með norska liðinu ákvað hún engu að síður að söðla um í haust og gekk til liðs við Malmö LdB í Svíþjóð og segir að það hafi einfaldlega verið of spennandi kostur til að hafna.

Þóru leist auðvitað ekki á blikuna þegar hún fékk að vita hvaða sjúkdómur hrjáði hana. „Ég hafði heyrt margar slæmar sögur af einkirningasótt. En ég trúði því alltaf að ég myndi ná mér mun hraðar en læknarnir töluðu um.“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari sagði Þóru síðar að hann hefði nánast verið búinn að afskrifa hana vegna EM „en ég hugleiddi í sjálfu sér aldrei þann möguleika. Ég fékk góð ráð frá öðrum íþróttamönnum sem höfðu fengið sjúkdóminn og þeir voru sammála um að jákvæðni væri í raun eina svarið við honum; ég var því staðráðin í að gefa því góðan tíma að ná bata – en ég ætlaði á EM. Það var aldrei vafi í mínum huga.“

Kjöraðstæður fyrir markmann

„Það var ótrúlegt hve allt gekk vel í norsku deildinni með Kolbotn. Liðið missti marga leikmenn fyrir keppnistímabilið, þar á meðal landsliðsmenn, og því var ekki spáð góðu gengi. Það var helsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara; það eru kjöraðstæður fyrir markmann, sem þarf að koma sér í gang, að hafa nóg að gera. Okkur var spáð frekar neðarlega í deildinni en gekk ótrúlega vel og við vorum á toppnum alveg þar til nokkrar umferðir voru eftir. Árangurinn var því betri en nokkur þorði að vona og sumarið var rosalega skemmtilegt.“

Þóra heldur til Svíþjóðar í upphafi árs og hefur æfingar með LdB Malmö. Lítið annað en fótboltinn kemst að hjá henni um þessar mundir, nema lítil frændsystkin á meðan hún er heima á Íslandi. Ásthildur systir hennar á lítinn son og elsta systirin, Eva, á tvo stráka sem líta ekki af henni. Hún kveðst leikfélagi þeirra þessa dagana. „Ég held að þeim finnist ég jafn gömul og þeir!“ segir Þóra. skapti@mbl.is

Sigríður Björk Guðjónsdóttir

Mansalið er þjóðfélagsmein

Árið hefur verið annasamt hjá Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Mansalsmál sem upp kom á haustdögum vakti mikla athygli en margt bendir til að þræðir þess liggi víða. Lithásk stúlka örvinglaðist í flugvél á leið hingað til lands og kom málið þá til kasta lögreglu sem skaut skjólshúsi yfir hana. Þegar farið var að kanna mál stúlkunnar frekar kom í ljós að hún var höfuðsetin af mönnum sem grunur leikur á að hafi haft misgott í hyggju. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknarinnar sem var umfangsmikil.

„Mansalsmál eru í brennidepli hjá lögreglu um allan heim. Eru númer tvö á forgangslista Europol. Þessi mál eru angi af alþjóðlegri glæpastarfsemi þar sem hagnaðarvon er drifkraftur,“ segir Sigríður Björk. Hún telur mikilvægt að íslensk stjórnvöld lögfesti frumvarp sem byggt er á svonefndum Palermo-sáttmála sem sé aðgerðaáætlun en það gefi stjórnvöldum svigrúm til að taka á vandanum með markvissum hætti. Mansal sé þjóðfélagsmein og því þurfi að mæta sem slíku. Sigríður Björk tók við embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum í byrjun árs. Hún segir það hafa tekið ákveðinn tíma að komast inn í starfið sem sé annasamt en áhugavert.

Fjölmörg ferðalög

„Ég fór í fjölmargar utanlandsferðir vegna starfsins á árinu. Svo fórum við hjónin líka í skemmtilega ferð hér innanlands í sumar. Vorum eina viku á Borgarfirði eystra þaðan sem við lögðum upp í nokkrar dagsferðir lengri og skemmri. Vorum að vísu frekar óheppin með veður sem breytir samt ekki því að við heilluðumst alveg af fallegri en hrikalegri náttúru á þessu svæði, sem Dyrfjöllin setja svo sterkan svip á.“ sbs@mbl.is

Stefán B. Sigurðsson háskólarektor á Akureyri

Rektor í póstnúmeri 603

Stefán B. Sigurðsson tók um mitt árið við embætti rektors Háskólans á Akureyri. Hann segir talsverða ögrun hafa fylgt því að taka við starfinu því fyrsta verkefnið sem hann þurfti að takast á við var 100 millj. króna niðurskurður í starfsemi skólans.

„Við þessar aðstæður var nauðsynlegt að móta ákveðna stefnu og vinna málið samkvæmt því. Ég leitaði eftir tillögum starfsfólks um hvernig mætti brúa þetta bil og tel það hafa verið mjög góða leið. Við settum sem markmið að forðast uppsagnir og reyna að halda óbreyttu námsframboði. Í staðinn höfum við dregið úr yfirvinnu, náms- og rannsóknarleyfum starfsmanna hefur verið frestað, námskeið sameinuð og nú síðast samþykkti starfsfólk að taka á sig launalækkun. Með þessu höfum við náð settu marki vegna 2010 og þar skipti sameiginlegt átak starfsfólks sköpum,“ segir Stefán sem var forseti læknadeildar Háskóla Íslands áður en hann tók við rektorsstarfinu nyrðra.

Ræturnar lágu nyrðra

Stefán er fæddur á Akureyri en fluttist ungur suður með foreldrum sínum. Ræturnar lágu þó alltaf fyrir norðan, þar sem hann var meðal annars í alltaf í sveit á æskuárum. Eftir að háskólanámi lauk hefur Stefán dvalist með fjölskyldu sinni fyrir norðan jafn mikið og aðstæður leyfa. Fjölskyldan á hús á Árskógssandi og lóð í Vaðlaheiðinni, þar sem Stefán hyggst reisa hús þegar hann hefur selt eign sína fyrir sunnan. Það hefur ekki tekist enn og á meðan leigja þau í Glerárþorpi. „Já, ertu í póstnúmeri 603 er stundum sagt við mig í háðskum tón. Samt býr ekkert slæmt þar undir. Akureyri hefur enn ekki glatað þeim einkennum að vera samsett úr nokkrum litlum einingum og hér eru enn til Þorparar, Innbæingar og Brekkubúar. Margt er raunar enn með líku lagi og þegar ég var hér sem strákur en annað er auðvitað gjörbreytt frá því sem var.“

Veigamikið hlutverk

Um 1.530 nemendur stunda um þessar mundir nám við Háskólann á Akureyri og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Inni í þessari tölu eru einnig fjarnemar sem eru vítt og breitt um landið, svo sem á Egilsstöðum, Hornafirði, Vestmannaeyjum, Selfossi, Ísafirði og á höfuðborgarsvæðinu.

„Nemendum hjá okkur fjölgaði talsvert í haust, sem má sjálfsagt að einhverju leyti rekja til efnahagshrunsins. Þeim sem innritast í kennaranám fjölgaði og eins nemendum í hjúkrunarfræði og iðjuþjálfun. Eins hefur nemendum okkar í félagsvísindagreinum og lögfræðinni fjölgað en heldur fækkað í viðskiptagreinum,“ segir Stefán.

Framundan er, að sögn Stefáns, að finna leiðir til að auka tekjur skólans og hagræða í námsframboði.

Að öðrum kosti er líklegt að grípa þurfi til niðurskurðaraðgerða á árinu 2011.

„Skólinn á eftir að standa þessa erfiðleika af sér því að stoðir þessa nærri aldarfjórðungsgamla háskóla standa sterkar; bæði kennsla og rannsóknarstarf. Við eigum sterka fulltrúa í rannsóknum t.d. á sviði félagsvísinda, sjávarútvegs- og orkufræða og á flestum sviðum er lögð rík áhersla á að tengja rannsóknirnar norðurslóðafræðum og þar á háskólinn líklega í framtíðinni eftir að gegna veigamiklu hlutverki.“ sbs@mbl.is

Þuríður Harpa Sigurðardóttir

Þetta kemur skref fyrir skref

Þetta hefur gengið vonum framar og framfarirnar hafa verið nokkuð jafnar og stöðugar,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir á Sauðárkróki. Hún hlaut alvarlegan mænuskaða í hestaslysi í Skagafirði vorið 2007; hrygg- og rifbeinsbrotnaði og lamaðist neðan brjósts.

„Mér var sagt eftir slysið að ég yrði líklega lömuð það sem eftir væri,“ segir Þuríður Harpa sem neitaði að sætta sig við þann dóm.

Strax og þróttur leyfði fór hún upp á eigin spýtur að athuga hvaða möguleika hún hefði í stöðunni og í gegnum netið komst hún í samband við fólk í svipaðri stöðu og hún sem var á leið í stofnfrumumeðferð á Indlandi. Hún ákvað að breyta samkvæmt því og fór utan í ágústbyrjun í sumar og dvaldist þar ytra í níu vikur með eiginmanni sínum, Árna Friðrikssyni

„Meðferðinni var þannig háttað að ég fékk stofnfrumusprautur í sitthvorn upphandleggsvöðvann tvisvar á dag og stærri sprautur inn í mænu eða við skaddaða svæðið nokkrum sinnum á tímabilinu,“ segir Þuríður Harpa sem kveður árangurinn framar vonum. Nú finni hún meira fyrir sjálfri sér, boljafnvægi hafi aukist mikið auk þess sem einhver virkni sé líklega komin í litla vöðva á lærum, mjöðmum og í kvið.

Í göngugrind

„Í dag get ég gengið í göngugrind og það gerir það að verkum að bein og æðakerfi í það minnsta fá notkun sem er svo nauðsynleg. Þetta kemur skref fyrir skref. Ég er í sjúkraþjálfun á heilbrigðisstofnuninni hér á Sauðárkróki fimm sinnum í viku og tvisvar í viku fer ég í þjálfun í sundlauginni,“ segir Harpa sem bætir við að sífellt meiri þróttur hafi styrkt alla líkamsvitund sína.

„Að finna þróttinn eflast hefur mikil áhrif á sálarlíf lamaðs einstaklings. Manni vex ásmegin og þetta kemur allt, hægt og bítandi. Núna er ég til dæmis orðin sjálfbjarga með ýmsar athafnir daglegs lífs, svo sem að fara í sturtu, sem ég réð alls ekki við fyrir meðferðina á Indlandi.“

Auður Guðjónsdóttir, sem fer fyrir Mænuskaðastofnun Íslands, hratt nú í haust af stað auglýsingaherferð þar sem skorað var á heilbrigðisyfirvöld á Norðurlöndunum að beita sér fyrir því að læknar í Kína og á Indlandi fái þá viðurkenningu sem vera ber í hinum alþjóðlega heimi læknavísindanna, enda geti það leyst marga úr fjötrum lömunar. Herferðin hefur vakið athygli enda þótt árangurinn sé enn ekki kominn í ljós.

Aftur til Indlands

„Kínverjar og Indverjar eru komnir lengst allra þjóða í því að ráða þá miklu gátu sem mænan er. Stofnfrumumeðferð lík þeirri sem ég fór í hefur skilað mörgum góðum árangri, en þar er notast við frumur úr fósturvísi sem var tekinn árið 2000. Að sínu leyti eru sjúklingar sem í svona meðferð fara ákveðin tilraunadýr nema hvað batinn, ef einhver verður, gengur þó aldrei til baka og maður ber aldrei skaða af meðferðinni þótt gagnslaus sé. Þjóðir heims verða á komandi árum að setja stóraukinn kraft og fjármuni í rannsóknir á mænunni enda geta þeir læknar sem þekkja best til þessarar ráðgátu unnið mikil kraftaverk,“ segir Þuríður Harpa sem ætlar nú um miðjan febrúar aðra ferð til Indlands í aðra stofnfrumumeðferð sem taka mun fjórar vikur. Hún kveðst vænta mikils af þeirri ferð, samanber þann árangur sem sú fyrri skilaði henni. Kostnað við ferðina og meðferðina ytra segist hún ekki gætu brúað nyti hún ekki góðs stuðnings Skagfirðinga og annarra landsmanna og fyrir það sé hún afar þakklát – sem er undirstrikað hér. Upplýsingar um meðferðina og blogg Þuríðar Hörpu eru á slóðinni oskasteinn.com.

Aðstandendur þurfa hjálp

Lömun af hvaða toga sem er setur fólki ýmsar skorður. Þuríður Harpa hefur þó ekki látið áfallið sigra sig, því hún vinnur fullan vinnudag sem grafískur hönnuður hjá Nýprenti á Sauðárkróki en fyrirtækið á hún og rekur ásamt fleirum.

„Fólk sem slasast fær margvíslegan stuðning en því miður hefur ekki enn tekist að veita aðstandendum þá hjálp sem er nauðynleg. Þegar einstaklingur lamast fer hann í gegnum sjúkrahúsmeðferð og endurhæfingu á stofnun en er síðan sendur til síns heima og þarf þá allan stuðning fólksins síns, sem þá þarf að sjálfsögðu hjálp til að mæta algerlega nýjum aðstæðum í fjölskyldulífinu. Áfallahjálp og sálfræðimeðferð fyrir alla í fjölskyldunni er mjög mikilvæg og er nokkuð sem hlýtur og verður að koma í framtíðinni.“ sbs@mbl.is

Gísli H. Friðgeirsson kajakræðari

Byrjaði að fagna við Vestmannaeyjar

Gísli H. Friðgeirsson varð í sumar fyrsti Íslendingurinn til að róa á kajak í kringum landið. Það tók hann 64 daga með hléum en á þeim tíma reri hann rúma 2.000 km. Gísli hefur stundað kajaksportið með félögum sínum í nokkur ár og fyrir nokkrum misserum barst það í tal að þónokkrir útlendingar væru búnir að róa hringinn í kringum landið. „Og hví ættum við ekki að geta það, spurðum við, svo ég byrjaði að stefna á það í fyrrahaust. Þegar kreppan skall á beit ég í mig að það væri uppörvandi fyrir sjálfan mig og aðra að takast á við eitthvað erfitt. Ef maður gerir eitthvað erfitt kynnist maður sjálfum sér betur. Maður kynnist sínum takmörkunum og hvernig maður bregst við erfiðum aðstæðum. Ég vann svo markvisst að þessu allan veturinn.“

Gísli segir að það hafi verið afar gleðileg tilfinning að klára róðurinn. „Eins og fólk þekkir eftir átök eða erfið próf þá kom hvíld yfir mig. En strax á suðurströndinni til móts við Vestmannaeyjar var ég byrjaður að njóta þess að ég væri að koma í mark, svona eins og þegar maður byrjar að fagna fyrirfram þegar maður hleypur síðasta hringinn í hlaupi.“

Kveið fyrir suðurströndinni

Gísli segist hafa verið afar vel undirbúinn fyrir róðurinn. „Ég gerði mér nokkuð vel grein fyrir hvað ég var að fara út í nema ég var ekki alveg nógu vel þjálfaður fyrir suðurströndina þannig að ég kveið dálítið fyrir henni. Suðurströndin er hafnlaus og maður getur ekkert hvílt sig. Það er annaðhvort að skella sér í land eða halda sig vel frá ströndinni, ekkert þar á milli. Annars staðar á landinu getur maður farið í skjól á bak við sker eða í víkum og fjörðum.“

Eftir þrekraunina hvíldi Gísli kajakinn í rúman mánuð en byrjaði aftur að róa í haust, enda erfitt að halda sig lengi frá sínu helsta áhugamáli. ylfa@mbl.is

Hermann Hreiðarsson knattspyrnumaður

Tökum saman höndum

Hermann Hreiðarsson, knattspyrnumaður hjá Portsmouth, er orðinn 35 ára og náði þeim merkilega áfanga á dögunum að verða leikjahæsti Norðurlandabúinn í ensku úrvalsdeildinni. Portsmouth mætir Arsenal í kvöld og það verður 322. leikur Hermanns á þeim vettvangi. Hann missti af fyrstu 12 leikjum vetrarins, sem hann segir gríðarlega svekkjandi, og liðið byrjaði afleitlega. „Keppnistímabilið er langt og það verður erfitt en við höfum aðeins verið að bíta frá okkur.“

Margt jákvætt

Ótrúlega miklar breytingar urðu á leikmannahópi Portsmouth í sumar. „Það voru einir 14 nýir sem komu og annað eins sem fór. Það má því segja að við séum með nýtt lið og það tekur tíma að slípa það saman.“ Hann er svo sem orðinn vanur breytingum því þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar, leikmennirnir sem voru hjá Portsmouth þegar Hermann kom þangað fyrir þremur árum og eru þar enn. Þá tók nýr þjálfari, Avram Grant, við stjórnvelinum þegar nokkuð var liðið á tímabilið.

Hermann telur árið hafa verið jákvætt að ýmsu leyti hjá íslenska landsliðinu. „Úrslitin hefðu vissulega mátt vera betri en liðið stóð sig að mörgu leyti vel. Við fengum til dæmis fullt af færum gegn Skotum úti og vorum því gríðarlega ósáttir við að ná ekki í stig þar. Svo var leikurinn við Noreg heima alveg frábær og jafntefli ósanngjörn úrslit; við hefðum átt að vinna þann leik örugglega miðað við spilamennskuna,“ segir landsliðsfyrirliðinn, sem gat reyndar ekki tekið þátt í þeim slag vegna þess að hann meiddist á æfingu fjórum dögum fyrir leikinn.

Mikill áhugi var á EM kvenna í knattspyrnu í sumar á heimili Hermanns. Skiljanlega; fyrirliði karlalandsliðsins vildi að sjálfsögðu fylgjast með „stelpunum okkar“ og eiginkona hans, Ragna Lóa Stefánsdóttir, er fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu. „Þetta var stórkostlegt ár hjá stelpunum; það er magnaður árangur að komast á lokamót og þær geta borið höfuðið hátt. Það, að þær skyldu komast í úrslitakeppni, skiptir miklu máli fyrir fótboltann í heild á Íslandi. Það sýnir að allt er hægt og að það, að komast svona langt, er ekki bara fjarlægur draumur.“

Merkilegt golfmót

Fyrir utan fótboltann stendur tvennt upp úr hjá Hermanni; annars vegar það að hann gat í fyrsta skipti verið viðstaddur goslokahátíð í Vestmanneyjum, þar sem hann segist hafa skemmt sér konunglega með fjölskyldu og vinum og hins vegar Herminator Invitational, 80 manna golfmót sem hann hélt í Eyjum ásamt fleirum. „Veðrið var að sjálfsögðu frábært og völlurinn stórkostlegur, eins og við var að búast.“ Hermann hafði haldið mótið í tvö ár á Akranesi en nú var það mun stærra í sniðum. Meðal þátttakenda var þáverandi samherji hans hjá Portsmouth, enski landsliðsmaðurinn Sol Campbell auk margra þjóðkunnra kappa.

Tilgangur mótsins var að safna fé til góðgerðarmála. „Það voru margir sem hjálpuðust að til að gera okkur kleift að halda mótið og það var gríðarlega vel heppnað. Við náðum að safna töluverðu fé.“ Það rann aðallega til innlendra samtaka að þessu sinni; Barnaspítala Hringsins, Mæðrastyrksnefndar, Blátt áfram og Umhyggju en SOS Barnahjálp nutu einnig góðs af mótinu. „Við komum til með að halda þetta mót árlega. Um leið og ástandið í þjóðfélaginu breyttist voru allir boðnir og búnir að taka saman höndum og safna peningum fyrir þá sem eiga erfitt,“ segir Hermann Hreiðarsson. skapti@mbl.is