Þorskeldi Þorskur fóðraður í eldiskví hjá HG í Álftafirði.
Þorskeldi Þorskur fóðraður í eldiskví hjá HG í Álftafirði. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorskeldið skilar 1.500 tonnum af hráefni sem góður markaður er fyrir. Eldið skilar enn ekki hagnaði en unnið er að þróun. Ekki er von á mikilli aukningu fyrr en kynbætur skila meiri árangri.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

ÞORSKELDI er enn á tilraunastigi og er ekki farið að skila arði. Framleidd eru um 1.500 tonn á ári og ekki búist við verulegri aukningu fyrr en kynbótastarf er farið að skila verulegum árangri, eftir fimm ár eða svo. Sjávarútvegsfyrirtækin sem stunda þorskeldi geta þó nýtt eldisþorskinn sér til hagsbóta þegar fisk vantar til vinnslu og markaðsaðstæður eru góðar.

Þorskeldi er stundað á tvo vegu. Annars vegar er áframeldi þar sem villtur þorskur er fangaður og alinn í sláturstærð. Hins vegar er aleldi þar sem fiskurinn er alinn frá klaki í markaðsstærð.

Kynbætur taka áratugi

Á árinu 2008 nam framleiðsla úr aleldi um 500 tonnum og áframeldið skilaði um þúsund tonnum, að því er fram kemur í skýrslu Landssambands fiskeldisstöðva um stöðu fiskeldis sem kynnt var í vetur. Áætlað er að framleiðsluverðmætið hafi verið um 500 milljónir það árið. Framleiðslan hefur ekki aukist í nokkur ár og ekki er búist við mikilli aukningu á allra næstu árum.

Valdimar Ingi Gunnarson, sjávarútvegsfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, segir að ekki sé við því að búast að aleldi á þorski fari að skila hagnaði fyrr en kynbótastarfið skili sér fyrir alvöru. Þá sé enn eftir að þróa bóluefni og draga þurfi úr tjóni vegna ótímabærs kynþroska og sjúkdóma. „Það tekur tíma að þróa þetta eldi. Kynbótastarfið tekur ekki ár heldur áratugi,“ segir Valdimar. Hann telur ekki efni til að stigmagna eldið fyrr en reynsla sé komin á þriðju kynslóð kynbætts þorsks. Það verði ekki fyrr en eftir fimm ár, í það fyrsta.

Valdimar vísar til reynslu Norðmanna sem fóru bratt í þorskeldið. Þeir séu að súpa seyðið af því núna að hafa farið of geyst af stað.

Í skýrslu Landssambands fiskeldisstöðva er því spáð að áframeldi muni halda þorskeldinu gangandi þar til aleldið fer að skila hagnaði. Þó sé ekki við því að búast að áframeldi aukist, nema meiri kvóta verði ráðstafað í þessu skyni. Búast má við hægri aukningu í aleldi og að heildarframleiðsla á eldisþorski geti numið 2.500 tonnum árið 2015.

Sprenging í seiðaframleiðslu

Fyrirtækin sem stundað hafa aleldi hafa á undanförnum árum kvartað undan því að fá ekki nóg af góðum seiðum í eldið. Breyting er orðin á því. IceCod, sem stofnað var til að annast kynbætur á eldisþorski og kanna möguleika á framleiðslu seiða í stórum stíl, náði þeim árangri í ár að framleiða 700 þúsund seiði, í stað 130 þúsund seiða ári fyrr. Seiðin hafa sprengt tilraunastöðina í Höfnum utan af sér og ljóst að ekki er þörf fyrir helming þeirra í eldið.

„Ég tel að reynslan sýni að unnt er að framleiða þorsk með eldi og að markaðurinn tekur vel við honum. Eldið er hins vegar ekki arðbært ennþá. Þess vegna þarf að vinna áfram að þessu brautryðjandastarfi,“ segir Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri IceCod. „Við höldum áfram kynbótastarfinu og að undirbúa fjöldaframleiðslu þannig að við verðum tilbúnir þegar kallið kemur,“ bætir Jónas við.

Flétta saman veiðum, eldi og vinnslu

Níu fyrirtæki stunda þorskeldi við Ísland, flest á Vestfjörðum. Átta þeirra eru með áframeldi og er Hraðfrystihúsið – Gunnvör í Álftafirði og Álfsfell í Skutulsfirði með mest umleikis. HG er einnig umsvifamest í aleldi en HB Grandi í Berufirði er einnig að byggja upp aleldi og Álfsfell reynir fyrir sér.

Hjá HG hefur verið slátrað 600 tonnum af þorski úr sjókvíum fyrirtækisins í Álftafirði frá því í september og bætist það við 400 tonn sem slátrað var í byrjun ársins. Eldisþorskurinn er um fimmtungur af því hráefni sem kemur til vinnslu í fiskiðjuveri fyrirtækisins í Hnífsdal. Tekist hefur að flétta saman vinnslu eldisþorsks og hráefnis sem ísfisktogarar fyrirtækisins skila á land. Kristján G. Jóakimsson, framkvæmdastjóri vinnslu, segir að vinnslan hafi að mestu verið keyrð á eldisþorski í desember en skipunum beint að steinbít. „Það er markaðurinn sem ræður. Eftirspurn eftir ferskum þorski og steinbít er góð fyrir jólin og verðið hagstætt. Við nýtum markaðinn betur með því að veiða steinbít og slátra þorski,“ segir Kristján. Hann á ekki von á mikilli aukningu í aleldinu, við núverandi afurðaverð á þorski. Ákveðið verður með vorinu hversu mörg seiði fara út í kvíarnar í ár.