Ríkissjónvarpið sýndi um jólin upptöku frá stjörnum prýddum hátíðartónleikum í Álaborg. Kveikt var á sjónvarpinu hjá undirrituðum, á meðan nýjustu borðspilin voru prófuð og smjattað var á konfektinu. Tónleikarnir voru hin mesta furðusýning.

Ríkissjónvarpið sýndi um jólin upptöku frá stjörnum prýddum hátíðartónleikum í Álaborg. Kveikt var á sjónvarpinu hjá undirrituðum, á meðan nýjustu borðspilin voru prófuð og smjattað var á konfektinu.

Tónleikarnir voru hin mesta furðusýning. Fyrstur tók lagið lítill sólbrúnn djassdvergur, sem stóð sig þó reyndar ágætlega. Eftir það urðu atriðin æ furðulegri og illa tenntur kynnirinn með kvenmannshárgreiðsluna sletti sífellt meiri ensku eftir því sem leið á kvöldið.

Fyrrverandi krulluskrímslið Michael Bolton heiðraði áhorfendur svo með nærveru sinni og tók jólalögin „When a man loves a woman“ og „Murder my heart“ af áður óþekktum trúarhita.

Á eftir honum komu þrír gamlir rónar, sem höfðu samþykkt að taka lagið gegn því skilyrði að áfastur bjór fylgdi með hverjum hljóðnema.

Skemmtunin náði hins vegar ótvíræðum hápunkti þegar sænska sprikl- og óperudívan Malena Ernman steig á pall, marineruð upp úr brúnkukremi og fæðubótarefnum. Ernman tók einhvers konar syrpu þar sem hún staðfesti afburðahæfileika sína á flestum sviðum sönglistarinnar, jafnt óperu, poppi, rokki og djass. Hnyklaði hún vöðvana þegar mest lá við í söngnum og biðu áhorfendur í ofvæni eftir því að hún rifi utan af sér kjólinn og tæki nokkrar „pósur“ á háa C-inu og bikiníi einu klæða. Svo langt gekk hún þó ekki. En hana langaði líklega til þess.

Þetta var ekta dönsk jólaskemmtun. Ekki er þó hægt að taka það frá þeim Álaborgurum að þeir virðast eiga stórt og flott tónlistarhús.

Önundur Páll Ragnarsson

Höf.: Önundur Páll Ragnarsson