Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

„ÞAÐ er allt við það sama, og ég get alveg eins reiknað með því að verða þrjá mánuði til viðbótar að jafna mig alveg,“ sagði Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Djurgården í Svíþjóð, við Morgunblaðið í gær.

Hún er enn að jafna sig af höfuðhögginu sem hún fékk í leik Íslands og Frakklands í úrslitakeppni Evrópumótsins í Finnlandi í lok ágúst. Guðrún hefur verið frá æfingum og keppni síðan í september en þá þurfti hún að taka sér algjöra hvíld frá fótboltanum þegar hún fékk höfuðverk á ný eftir leik með Djurgården.

„Ég hef rætt við nokkra lækna og útkoman úr því er að þetta geti tekið allt að sex mánuði að jafna sig. Ég er búin að vera í hvíld frá fótboltanum í þrjá mánuði og þetta geta því orðið þrír í viðbót. Ég held mér þó við með því að hjóla, lyfta og gera ýmsar æfingar en meira er það ekki í bili,“ sagði Guðrún. Þar með er afar ólíklegt að hún verði með íslenska landsliðinu í Algarvebikarnum í Portúgal en þar leikur liðið fjóra leiki frá 24. febrúar til 3. mars. Í lok mars eru síðan leikir gegn Serbíu og Króatíu í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Ekki búin að afskrifa Algarve

„Ég er ekki búin að afskrifa það að geta spilað á Algarve því þetta gæti hæglega verið komið í lag áður, en reikna þó síður með því. Ég hef verið í sambandi við Sigurð Ragnar þjálfara og hann hefur lagt áherslu á að það hafi forgang að ég nái mér fullkomlega,“ sagði Guðrún sem er ein reyndasta landsliðskona Íslands og er sú fimmta leikjahæsta frá upphafi með 65 landsleiki.

Hún hefur vegna þessa dregið að taka ákvörðun um hvort hún taki boði bandaríska atvinnuliðsins Chicago Red Stars um að leika með því á komandi keppnistímabili, eða hvort hún leiki áfram með Djurgården.

Guðrún kom aftur til Svíþjóðar í gær eftir stutt jólaleyfi heima á Íslandi. Sambýlismaður hennar, Helgi Már Magnússon, leikur með sænska körfuknattleiksliðinu Solna og spilaði einmitt í úrvalsdeildinni í gærkvöld.