Vistaskipti Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson semur við Reading í dag.
Vistaskipti Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson semur við Reading í dag. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður frá Vestmannaeyjum, skrifar í dag undir samning við enska 1. deildarfélagið Reading og gildir hann til vorsins.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður frá Vestmannaeyjum, skrifar í dag undir samning við enska 1. deildarfélagið Reading og gildir hann til vorsins. Gunnar er lánaður frá Esbjerg í Danmörku, eins og áður hefur komið fram, en ef allt gengur að óskum semur hann við Reading til tveggja ára að þessu tímabili loknu.

Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is

„ÞETTA var allt orðið klappað og klárt en varð að bíða morgundagsins til þess að Madejski sjálfur gæti verið viðstaddur og gengið frá málum,“ sagði Gunnar við Morgunblaðið í gær. John Madejski er stjórnarformaður og aðaleigandi Reading en leikvangur félagsins ber nafn hans.

Gunnar verður löglegur með Reading á mánudaginn kemur og missir því af bikarslag liðsins gegn Liverpool á laugardaginn. Fyrsti leikur hans gæti orðið heimaleikur gegn Newcastle laugardaginn 9. janúar.

„Ég æfði með liðinu í viku fyrir jólin og var þá í sérstöku prógrammi til að byggja mig upp eftir hlé. Nokkurs konar undirbúningstímabil. Svo kom ég aftur á öðrum degi jóla og hef æft með liðinu af fullum krafti síðan. Ég bíð afar spenntur eftir því að fá tækifæri og er bjartsýnn á að koma eitthvað við sögu strax í fyrsta leiknum. Það er verst að missa af því að spila gegn Liverpool,“ sagði Gunnar.

Langaði alltaf til Englands

Hann vonast eftir því að með þessu ljúki langri þrautagöngu en Gunnar hefur fengið mjög takmörkuð tækifæri með liðum sínum, Hannover, Vålerenga og Esbjerg á undanförnum árum. „Mig þyrstir í að spila, og sýna mig og sanna. Mig langaði alltaf til Englands en vildi ekki fara þangað nema ég væri tilbúinn til þess. Nú tel ég mig vera það,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Hann er fjórði Íslendingurinn í röðum Reading en þar eru fyrir þeir Ívar Ingimarsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson. Reading hefur tilfinnanlega vantað sóknarmann og ljóst er að forráðamenn félagsins binda miklar vonir við að Gunnar leysi það vandamál. Liðið er í 20. sæti af 24 í 1. deildinni, aðeins tveimur stigum frá fallsæti.