Nýliði Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður Þórs/KA frá Akureyri, er einn af tíu nýliðum í landsliðshópnum.
Nýliði Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður Þórs/KA frá Akureyri, er einn af tíu nýliðum í landsliðshópnum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þarna eru ný nöfn sem mig langar til að skoða, og eins vantar á listann leikmennina sem spila erlendis en þeir verða flestir farnir utan áður en hópurinn kemur saman,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í...

„Þarna eru ný nöfn sem mig langar til að skoða, og eins vantar á listann leikmennina sem spila erlendis en þeir verða flestir farnir utan áður en hópurinn kemur saman,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, sem í gær valdi 25 leikmenn til æfinga eftir áramótin.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

ÞAÐ eru allt leikmenn íslenskra félaga en til viðbótar verða á fyrstu æfingunum þær af landsliðskonunum sem spila erlendis, sem ekki verða farnar til sinna félagsliða á þeim tíma. Tíu nýliðar eru í þessum 25 manna hópi, þær Sonja B. Jóhannsdóttir, Eyrún Guðmundsdóttir og Soffía A. Gunnarsdóttir, ásamt sjö leikmönnum úr U19 ára landsliðinu, sem eru Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir, Mist Edvardsdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir og Silvía Rán Sigurðardóttir.

Hólmfríður heima og Santos beðið um leyfi fyrir Þórunni

„Hólmfríður Magnúsdóttir mun líka æfa með okkur þar sem hún fer ekki til Bandaríkjanna fyrr en eftir Algarve-bikarinn, Edda Garðarsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir verða líklega á fyrstu æfingunum, og þá höfum við beðið Santos um leyfi fyrir Þórunni Helgu Jónsdóttur en við höfum ekki fengið svar við því ennþá,“ sagði Sigurður Ragnar við Morgunblaðið.

Til viðbótar eru erlendis þær Þóra B. Helgadóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Guðný B. Óðinsdóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Erla Steina Arnardóttir og Dóra Stefánsdóttir.

Landsliðið leikur sex leiki í febrúar og mars, fjóra í Algarve-bikarnum og síðan mætir það Serbíu og Króatíu á útivelli í undankeppni heimsmeistaramótsins. Á Algarve er spilað gegn þremur af sterkustu þjóðum heims, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Noregi, og svo við eitthvert fjórða lið um endanlegt sæti á mótinu.

Skoðum hvort um stórstígar framfarir er að ræða

„Ég verð með stærstan hluta hópsins helgina 9.-10. janúar en þegar við komum aftur saman tveimur vikum síðar verða flestar þeirra sem spila erlendis farnar. Við munum á þessum æfingum fara yfir okkar áherslur og skoðum hvort einhverjir leikmenn hafi tekið stórstígum framförum frá því í fyrra.

Síðan æfum við fyrstu helgina í febrúar og eftir það vel ég 20 manna hóp fyrir mótið. Hann kemur saman 20. febrúar og fer til Portúgals tveimur dögum síðar. Þær sem spila erlendis koma væntanlega beint til Algarve frá sínum félögum,“ sagði Sigurður.

Í góða æfingu fyrr en áður

„Okkar leikmenn þurfa að vera komnir í góða æfingu fyrr á þessu ári en nokkurn tíma fyrr. Bæði er Algarve-bikarinn mun fyrr en áður, byrjar 24. febrúar, og svo leikum við þessa þýðingarmiklu HM-leiki í lok mars,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson.

Þegar liggur fyrir að landsliðið spilar tíu leiki á árinu 2010, þar af þessa sex í febrúar og mars sem áður eru nefndir. Til viðbótar eru síðan HM-leikir við Norður-Írland og Króatíu í júní og við Frakkland og Eistland í ágúst. Nái Ísland að vinna HM-riðilinn fer liðið í umspil síðar um haustið. Á árinu 2009 spilaði landsliðið 14 leiki sem er það mesta í sögu þess frá upphafi.

Æfingahópur landsliðsins

Markverðir:

María B. Ágústsdóttir, Val 11

Sandra Sigurðardóttir, Stjörn. 5

Birna Berg Haraldsdóttir, FH 0

Varnarmenn:

Katrín Jónsdóttir, Val 92

Ásta Árnadóttir, Val 37

Erna B. Sigurðardóttir, Breiðab. 33

Sif Atladóttir, Val 16

Mist Edvardsdóttir, KR 0

Eyrún Guðmundsdóttir, Stjörn. 0

Thelma B. Einarsdóttir, Val 0

Silvía Rán Sigurðardóttir, Þór 0

Tengiliðir:

Dóra María Lárusdóttir, Val 54

Katrín Ómarsdóttir, KR 28

Sara B. Gunnarsdóttir, Breiðab. 24

Rakel Logadóttir, Val 16

Hallbera G. Gísladóttir, Val 10

Katrín Ásbjörnsdóttir, KR 0

Soffía A. Gunnarsdóttir, Stjörn. 0

Arna Sif Ásgrímsdóttir, Þór 0

Framherjar:

Rakel Hönnudóttir, Þór 22

Fanndís Friðriksdóttir, Breiðab. 7

Kristín Ýr Bjarnadóttir, Val 2

Björk Gunnarsdóttir, Stjörn. 1

Berglind B. Þorvaldsdóttir, Breið. 0

Sonja B. Jóhannsdóttir, KR 0

Í hnotskurn
» Kvennalandsliðið spilar fjóra leiki í Algarve-bikarnum í Portúgal í febrúar og mars.
» Það leikur síðan við Serbíu og Króatíu í undankeppni heimsmeistaramótsins í lok mars og spilar því sex leiki á rúmum mánuði.
» Sigurður Ragnar valdi 25 leikmenn í fyrsta hópinn en síðan bætast við leikmenn frá erlendum félögum.