[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bændasamtökin vinna nú að fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir niðurskurði á framlögum frá ríkissjóði, en Alþingi samþykkti að skerða framlögin um rúmlega 100 milljónir króna.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

Skorið verður niður í framlögum til Bændasamtaka Íslands um tæpar 100 milljónir á næsta ári. Að sögn Eiríks Blöndal, framkvæmdastjóra Bændasamtakana, verða framlög til þróunarverkefna skorin niður og gætt ýtrasta aðhalds í öllum rekstri. Hann segir óhjákvæmilegt að störfum fækki, en vonast eftir að það gerist án uppsagna.

Í gildi er svokallaður búnaðarlagasamningur milli stjórnvalda og Bændasamtakanna um verkefni á vegum bænda. Hér er um að ræða ráðgjafarþjónustu um allt land og verkefni í búfjárrækt, jarðabótaverkefni og nýsköpunarverkefni. Samningurinn tók gildi 2006 og rennur út á næsta ári. Vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs ákváðu stjórnvöld að skerða framlög á næsta ári. Peningarnir fara m.a. í að reka leiðbeiningarþjónustu á landsvísu og í héraði á vegum búnaðarsambanda. Einnig fara fjármunir til búfjárræktar, þróunarverkefna, markaðsmála og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Eiríkur segir að stefnt sé að því að verja framlög til búfjárræktar eins og hægt sé, en hins vegar verði skorið enn meira niður í þróunarverkefnum, m.a. í framlögum til jarðabóta. Síðan verði gætt almenns aðhalds í rekstri og eitthvað af verkefnum flyst ef til vill aftur til ríkisins. Ekki sé hægt að komast hjá því að fækka störfum, en hann kveðst vonast eftir að það gerist án uppsagna.

Búnaðarlagasamningurinn rennur út á næsta ári og hafa Bændasamtökin óskað eftir að hann verði endurskoðaður sem fyrst. Eiríkur segir að ákvörðun stjórnvalda um að standa ekki við umsamin framlög feli í sér samningsrof og því sé eðlilegt að viðræður hefjist strax um að gera nýjan samning. Núverandi samningur er vísitölutryggður að hluta til, en Eiríkur segir að það ákvæði hafi takmarkaða þýðingu ef grunnforsendur samningsins eru ekki efndar.

Guðbjörg Jónsdóttir, formaður stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands, segir að um þriðjungur tekna sambandsins komi frá Bændasamtökum Íslands. Stærstur hluti komi hins vegar í gegnum búnaðargjald sem er lagt á framleiðslu bænda. Hún segir að minni tekjum verði mætt með aðhaldi í rekstri. Einn ráðunautur hafi hætt á árinu og ekki verði ráðið í hans starf. Hún segir hugsanlegt að þjónustugjöld verði hækkuð, en fara verði varlega í það því að staða margra bænda sé erfið.

Í hnotskurn
» Búnaðarlagasamningur ríkisins og Bændasamtakanna gildir frá 2006-2010. Viðræður um endurnýjun hans eru hafnar.
» Um helmingur framlaganna fer í að reka ráðgjafarþjónustu bænda. Framlög til búfjárræktunar fara m.a. í að kosta skýrsluhald í búfjárrækt og sæðingaþjónustu.
» Framlög til þróunarverkefna fela m.a. í sér kostnað við jarðrækt og kostnað við að bæta umhverfi í sveitum.