Björgvin Jón Pálsson fæddist í Hólshúsi í Miðneshreppi 29. desember 1914. Hann lést 30. nóvember sl.
Foreldrar hans voru Helga Pálsdóttir frá Vallarhúsum á Miðnesi og Páll Pálsson frá Bæjarskerjum á Miðnesi. Páll var sonur Páls Pálssonar og Þórunnar Sveinsdóttur, stórbænda á Bæjarskerjum. Björgvin Jón var einn af fimm börnum Helgu og Páls. En þau eru Páll Ó., látinn, Björgvin Jón, látinn, Þórunn Fjóla, látin, Margrét Dórotea látin, yngstur er Sveinn, 86 ára, eini eftirlifandi, kvæntur Eddu Ingibjörgu Margeirsdóttur, búsett í Reykjavík. Helga og Páll ólu einnig upp dótturson sinn, Pál Grétar Lárusson. Fjölskyldan fluttist frá Hólshúsi að Lágafelli í Sandgerði í nýtt hús sem fjölskyldan hafði byggt.
Björgvin vann alla sína starfsævi í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Var hann vel liðinn í vinnu enda duglegur og traustur starfskraftur.
Árið 1957 flutti Björgvin fyrst að heiman og hóf sambúð með Önnu Malenu Salomínu Leo frá Færeyjum. Anna fluttist til Íslands ásamt börnum sínum frá fyrra hjónabandi sem enn bjuggu hjá henni, en þeim gekk Björgvin í föðurstað. Þau eru Eli, látinn, Eva, Kai, Lea og Anna Frí. Einnig var Björgvin alla tíð í góðu sambandi við eldri börn Önnu sem eru Erland, Ína, Kove og Ída.
Anna og Björgvin giftust ekki fyrr en árið 1970. Þau bjuggu öll sín hjúskaparár á Suðurgötu 36 í Sandgerði. Anna lést árið 1975, eftir það bjó Björgvin einn, síðast í Miðhúsum í Sandgerði. Þar átti hann gott ævikvöld í sambýli við góða nábúa og umönnun fyrirmyndarstarfsfólks. Systir hans Margrét hafði einnig búið síðustu ár ævinnar í þessu elskulega sambýli.
Margrét, systurdóttir Björgvins, annaðist þau systkinin, Begga og Möggu, af kærleika og umhyggju síðustu árin. Þau hjónin Margrét og Magnús veittu þeim öldruðum mikinn stuðning og styrk, að öðrum ættingjum ólöstuðum, því hann var elskaður af öllum sínum ættingjum.
Björgvin tók virkan þátt í starfsemi verkalýðs- og sjómannafélags Miðneshrepps, var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Reynis, þótt ekki léki hann knattspyrnu. Söngurinn var hans ástríða. Hann var einn af stofnendum Karlakórs Miðnesinga í Sandgerði og söng þar meðan kórinn starfaði. Þegar sá kór hætti starfsemi gekk Björgvin í Karlakór Keflavíkur. Í gegnum kórstarfið eignaðist hann marga góða vini. Björgvin söng í Kirkjukór Hvalsneskirkju í nærri 60 ár samfleytt. Einnig söng hann í Kirkjukór Útskálakirkju og Kór eldri borgara.
Síðasta æviárið dvaldist Björgvin á Hjúkrunarheimilinu Garðvangi og naut þar góðrar umönnunar. Hann fékk friðsælt andlát, umvafinn kærleika sinna nánustu eftir langa og góða jarðvist.
Björgvin var jarðsunginn 12. desember sl.
mbl.is/minningar