Skipaðir hafa verið nýir fulltrúar í stjórn Íslandsbanka. Komið hefur fram að meðal nýskipaðra séu þeir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Fjármálaeftirlitsins, og Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis. Steingrímur J.

Skipaðir hafa verið nýir fulltrúar í stjórn Íslandsbanka. Komið hefur fram að meðal nýskipaðra séu þeir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Fjármálaeftirlitsins, og Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis. Steingrímur J. Sigfússon lýsir yfir undrun sinni á þessum skipunum. Hann segir jafnframt að eigendur Glitnis verði að útskýra af hverju þeir velji Jón Sigurðsson í þetta starf. Þessi flækja ætti reyndar gott erindi í einhverja af áramótakrossgátunum, en hún yrði þó aðeins ætluð fyrir innvígða og sérstaka snillinga og sennilega bönnuð fyrir börn.

En ákveðnar vísbendingar eru þó til. Þannig var það Jón Sigurðsson sem setti Árna Tómasson af stað í skilanefndina og skilanefndin heyrði þá undir Fjármálaeftirlitið, en hætti því svo einhvern tímann og fór að heyra undir „eigendur“ Glitnis, það er að segja kröfuhafa í gamla Glitni, sem þó er tekið reglulega fram að menn viti ekki hverjir eru. Skilanefndirnar starfi í einhverju óljósu sambandi við þessa óþekktu eigendur og taki ákvörðun fyrir þeirra hönd um fjölmarga hluti, án þess að skilanefndirnar beri þó ábyrgð á þeim ákvörðunum. Það geri auðvitað eigendurnir, sem hafa þann ókost að menn vita ekki hverjir þeir eru og hvort ákvarðanir skilanefndarinnar eru raunverulega bornar undir þá. En þrotabú gamla bankans fer einnig án lagaheimildar með eignarhald í nýja bankanum eins og Margeir Pétursson hefur bent á og þar kemur skilanefndin einnig við sögu og svo eiga eigendur krafnanna í búið auðvitað síðasta orðið, en eins og tekið hefur verið fram vita menn ekki hverjir það eru. Fjármálaráðherrann bendir í viðtölum við Ríkisútvarpið á að réttast sé að það og almenningur spyrji eigendur Íslandsbanka af hverju þeir Jón og Árni hafi verið skipaðir í stjórn. Þess varð ekki vart að fréttastofa RÚV spyrði ráðherrann um leiðbeiningar um hvernig hægt væri að ná í þá. Huldumenn og álfar eru þó hugsanlega fremur viðlátnir á þessum tíma en endranær. Getgátur hafa verið uppi um að þessir eigendur sem Steingrímur J. Sigfússon hefur fengið eignarhald á bankanum séu aðallega vogunarsjóðir og „hrægammar“ eins og þeir hafa verið nefndir. Nöfn eða símanúmer viðkomandi liggja þó hvergi fyrir. Það væri mjög ósanngjarnt að halda því fram í alvöru að þessi nýja skipan bankamála á Íslandi væri eitthvað minni glæsigerningur af hálfu ríkisstjórnarinnar en hinn „glæsilegi“ Icesave-samningur sem fjármálaráðherrann hreykti sér af á sínum tíma.

En meðan RÚV reynir að finna út með eða án hjálpar Steingríms Sigfússonar hverjir stóðu fyrir skipunum þeirra Árna Tómassonar og Jóns Sigurðssonar mætti kannski reyna að spyrja þá sjálfa. Þeir eru að minnsta kosti ekki enn orðnir ósýnilegir eins og svokallaðir eigendur Íslandsbanka. Og einhverjir hljóta að hafa talað við þá, og einhverjir hljóta að hafa skrifað undir skipunarbréfin. Nema það hafi verið gert með ósýnilega blekinu sem ósýnilegu eigendurnir nota við svona hátíðleg tækifæri.