Viðurkenning Sigurbergur Sveinsson flytur ræðu eftir að hafa tekið á móti viðurkenningunni í gær, fyrir aftan hann má sjá syni hans, Svein og Gísla.
Viðurkenning Sigurbergur Sveinsson flytur ræðu eftir að hafa tekið á móti viðurkenningunni í gær, fyrir aftan hann má sjá syni hans, Svein og Gísla. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Andra Karl andri@mbl.is FRJÁLS verslun útnefndi í gær Sigurberg Sveinsson og syni hans Svein og Gísla Þór menn ársins í íslensku atvinnulífi. Feðgarnir eiga og reka matvöruverslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

FRJÁLS verslun útnefndi í gær Sigurberg Sveinsson og syni hans Svein og Gísla Þór menn ársins í íslensku atvinnulífi. Feðgarnir eiga og reka matvöruverslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Í mati dómnefndar var lagt til grundvallar frumkvöðlastarf á sviði lágverðsverslunar á Íslandi, langur og farsæll feril, hófsemi, dugnaður og útsjónarsemi sem gert hefði Fjarðarkaup að stöndugu og framúrskarandi fyrirtæki. Þetta var í 22. skipti sem Frjáls verslun útnefndi mann ársins í atvinnulífinu á Íslandi og er um að ræða elstu verðlaun á því sviði.

„Staðreyndin er sú að við höfum staðið okkur í því að vera einir og sinna ekki öðru en okkur sjálfum og byggt okkur upp þannig,“ segir Sigurbergur, spurður út í það hver lykillinn að velgengninni sé.

Í ræðu sem Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, flutti fyrir hönd dómnefndar segir að saga Fjarðarkaupa byggist á góðu orðspori sem ánægðir viðskiptavinir beri út. Fyrirtækið hafi litið á gott orðspor sem bestu auglýsinguna. „Þeir feðgar í Fjarðarkaupum hafa ekki farið í útrás, hvorki til höfuðborgarinnar né til útlanda. Með sterkt merki, Fjarðarkaup, hefðu einhverjir ætlað að borðleggjandi væri að stækka og stofna keðju verslana. Nei, það hefur ekki komið til greina. Ein verslun í Hafnarfirði. Gera vel í þeirri verslun og færast ekki of mikið í fang. [...] Þeir hafa forðast skuldsetningu. Í efnahagsreikningi Fjarðarkaupa stendur undir liðnum langtímaskuldir: 0 kr.“

Fyrsta lágverðsverslunin

Fjarðarkaup voru opnuð í 150 fermetra húsnæði við Trönuhraun 8 í Hafnarfirði í júlí 1973. Um var að ræða fyrstu lágverðsverslunina á Íslandi.

Jón sagði galdurinn við Fjarðarkaup hafa frá fyrsta degi verið að hafa lága álagningu, halda öllum kostnaði niðri, vera í ódýru húsnæði, staðgreiða mikið af innkaupum og fá staðgreiðslu- og magnafslátt. Láta þannig allar vörur standa undir sér í stað þess að gefa með sumum en taka það aftur inn á álagningu annarra vara.

Í dómnefnd Frjálsrar verslunar sitja auk Jóns þeir Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, útgáfufélags Frjálsrar verslunar og formaður nefndarinnar, Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvikur og aðaleigandi Byko, og Sigurður Helgason, stjórnarmaður í Icelandair Group.