Fjör Endalausar fréttir af sökkvandi efnahagslífi stöðvuðu ekki undursamlega heima hljómlistarinnar. Hér má sjá Loga Pedro úr Retro Stefson, borinn um af gestum liðinnar Airwaveshátíðar.
Fjör Endalausar fréttir af sökkvandi efnahagslífi stöðvuðu ekki undursamlega heima hljómlistarinnar. Hér má sjá Loga Pedro úr Retro Stefson, borinn um af gestum liðinnar Airwaveshátíðar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Fyrirsögnin er fengin úr dramatískri grein sem höfundur ritaði stuttu eftir Hrunið ógurlega í október, 2008.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Fyrirsögnin er fengin úr dramatískri grein sem höfundur ritaði stuttu eftir Hrunið ógurlega í október, 2008. Greinin var ósköp venjulegur pistill um poppklassík, í þessu tilefni plötu írsku þjóðlagasveitarinnar Mellow Candle frá 1972, Swaddling Songs . En hugurinn, eins og hjá svo mörgum öðrum, var einhvers staðar allt annars staðar. Við niðurlagið var maður kominn í undarlega meyrt skap og þá spratt þessi hending fram:

„Því á meðan allt er að fara til helvítis, og það á fullu stími, eigum við þó alltaf tónlistina. Hvað sem á bjátar. Guði sé lof fyrir það.“

Það kom enda glögglega í ljós á árinu sem er að líða að þrátt fyrir gerningaveður í efnahagslífinu; linnulausar „vondar“ fréttir og nánast lamandi andrúmsloft sem var vita vonlaust á köflum hélt tónlistin áfram að óma – eiginlega eins og ekkert væri. Menn héldu sínu striki, óhaggaðir. Og manni finnst eins og iðkun þeirrar eðlu listar hafi jafnvel verið af ríkari þörf en áður. Kannski er maður að ímynda sér þetta, orðinn meyr og ringlaður eftir vægast sagt erfitt árferði, en þannig er að minnsta kosti tilfinningin. Þegar forsendur fyrir efnislegum hlutum bresta, hlutum sem hafa ekki raunverulegt gildi (Range Rover, Bang & Olufsen o.s.frv) blasir hitt skýrar við en nokkru sinni áður. Öryggið, gleðin, upplifunin og sálarnæringin sem felst í fallegri tónlist, flutt af heiðarleika og ástríðu hefur sannanlega raunverulegt gildi fyrir mannlífið. Og reyndi ekki á þann sannleik sem aldrei fyrr á þessu ári?

Klisjan segir að í kreppunni blómstri listirnar en það er nú einu sinni svo að það er jafnan fótur fyrir svona margtuggðum setningum. Segja má að innflutningur á erlendum hljómsveitum af stærri gerðinni hafi lagst af með öllu, en slík starfsemi var orðin að sæmilegustu atvinnugrein, með nokkur fyrirtæki í virkri samkeppni. Þær sveitir sem hingað komu voru sænska dauðarokkssveitin Entombed og Jethro Tull! En meðfram þessu hömuðust íslenskar hljómsveitir við að spila á tónleikum sem mest þær máttu. Í hverri viku mátti snuðra uppi fjölda tónleika með ungsveitum af öllu tagi; lífið í grasrótinni hefur sjaldan verið á jafn miklu iði og einmitt nú. Í ár sáum við svo ungt hugsjónafólk færa sig inn á útgáfumarkaðinn og var útgáfufyrirtækið Borgin standsett. Einhverjum hefur ugglaust þótt tiltækið óðs manns æði, sé mið tekið af stemningunni í þjóðfélaginu en Borgin hefur þvert á móti verið á sigurbraut, nærfellt frá stofnun. Á þess vegum komu út plötur Hjaltalín og Hjálma, sem seldust vel. Þá er rétt að tiltaka sérstaklega útgáfuna Brak, útgáfu sem er undirmerki Kima ehf, sem er rekið af hinum andríka og innblásna Baldvini Esra sem hefur verið mikill kraftaverkamaður í íslensku tónlistarlífi og blásið nýju og annars konar lífi í útgáfumál á jaðrinum. Brak er bona fide kreppumerki og svínvirkar sem slíkt. Á þess vegum kom út plata mánaðarlega, með tiltölulega óþekktum sveitum sem báru hins vegar með sér tónlistarlega dýpt; fersk- jafnt sem frumleika. Umslög voru í heimabruggsstíl; útfærsla og hugmyndavinna ofar efnislegum þáttum. Svona starfsemi er ómetanleg fyrir grasrótartónlistarlífið; þarna er fram komin ákveðin fyrirmynd og það verður spennandi að sjá hvort fleiri eigi eftir að feta í þessi fótspor á næsta ári.

En hvar er krepputónlistin? Hvar eru hljómsveitirnar og söngvaskáldin sem mótmæla ruglinu, sinnuleysinu og bara grámygluðum hversdagsleikanum í sand og ösku í reffilegum lagasmíðum sem eru samin af raunverulegri innri þörf? Við þurfum líklega að bíða í nokkur ár eftir slíkri bylgju en hún mun koma, sanniði til. Þangað til verður í öllu falli spennandi að fylgjast með þróun mála í íslensku tónlistarlífi, sjá hvernig tónlistin tekur á gjörbreyttum aðstæðum þessarar fyrrverandi ríkustu þjóðar heims. Jamm...við eigum þó alltaf tónlistina. Og Guði sé lof fyrir það.

Græðlar grasrótarinnar

Baldvin Esra, stofnandi Brak, hafði þetta að segja um eðli og inntak merkisins í stuttu spjalli sem við hann var tekið í upphafi árs.

„Þetta er nokkurs konar kreppuútgáfa. Nei, meira svona listamannsvæn útgáfa og sköpunarhvetjandi. Þetta verður ógeðslega kúl útgáfa sem skeytir ekkert um boð og bönn. Við ætlum að gefa þar út óhljóðalist, spunadjass, kórverk, bara hvað sem er...Málið er fyrst og fremst að koma sem mest af tónlist út. Umslagshönnun verður mjög einföld og stöðluð...Þá rissuðum við upp logo fyrir útgáfuna yfir bjórglasi í gær. Það er allt að gerast.“