Christian Olsson
Christian Olsson
CHRISTIAN Olsson, fyrrum ólympíumeistari í þrístökki karla, ætlar að keppa á alþjóðlegu móti í febrúar á næsta ári og þar mun hann eiga í höggi við heimsmeistarann Phillips Idowu frá Bretlandi.

CHRISTIAN Olsson, fyrrum ólympíumeistari í þrístökki karla, ætlar að keppa á alþjóðlegu móti í febrúar á næsta ári og þar mun hann eiga í höggi við heimsmeistarann Phillips Idowu frá Bretlandi. Olsson, sem er 29 ára gamall, hefur ekki keppt á alþjóðlegu móti frá því hann varð Evrópumeistari á heimavelli í Gautaborg árið 2006. Olsson hefur glímt við meiðsli frá þeim tíma en hann ætlar að láta slag standa og mæta til leiks á stórmót innanhúss sem fer í Birmingham á Englandi. Sænski frjálsíþróttamaðurinn íhugaði að draga sig í hlé þegar það varð ljóst að hann gæti ekki varið Ólympíutitilinn á sumarleikunum í Peking í Kína haustið 2008.

„Ég legg alla áherslu á að meiðast ekki en það er aldrei að vita hvað ég get gert á þessu móti. Það eru margir sem hafa stokkið langt á undanförnum árum og þar á meðal er Phillips. Ég hlakka til að koma til baka og keppa á ný gegn þeim bestu. Phillips er heimsmeistari utan- og innanhúss. Hann er því sá besti í heiminum í dag en það er í eðli allra íþróttamanna að vilja leggja þá bestu að velli,“ sagði Olsson í viðtali við Eurosport. seth@mbl.is