Með bros á vör Soffía Anna hugar að því að allt sé í lagi með lagnirnar.
Með bros á vör Soffía Anna hugar að því að allt sé í lagi með lagnirnar. — Morgunblaðið/Ómar
SOFFÍA Anna Sveinsdóttir brautskráðist af pípulagningabraut Iðnskólans í Hafnarfirði þann 19. desember ásamt 19 samnemendum sínum. Þeir voru allir karlar.

SOFFÍA Anna Sveinsdóttir brautskráðist af pípulagningabraut Iðnskólans í Hafnarfirði þann 19. desember ásamt 19 samnemendum sínum. Þeir voru allir karlar. Varð Soffía önnur konan á Íslandi til að taka sveinspróf í pípulögnum og sú fyrsta um margra ára skeið.

Soffía segir að það hafi verið hreint ágætt að vera eina stelpan í strákabekk. „Þeir voru skrítnir fyrst en svo urðu þeir voðalega ljúfir,“ segir Soffía um það hvernig samnemendurnir tóku henni og ber þeim söguna vel. Bendir hún réttilega á að kyn pípulagningamanns skipti ekki öllu og segist hún því ekki kvíða því að starfa í fagi þar sem karlar eru í eins miklum meirihluta og raun ber vitni. Er hún meira uggandi yfir horfum í atvinnumálum sínum vegna efnahagsörðugleikanna.

Kveikti í sér í sveinsprófinu

Soffía er ánægð með námið við Iðnskólann í Hafnarfirði þó það hafi ekki gengið alveg slysalaust fyrir sig: „Ég kveikti í mér í sveinsprófinu,“ segir Soffía og útskýrir að pakkning á logsuðutæki hafi ekki verið fullþétt. „Þannig að það kviknaði aðeins í bolnum mínum og prófdómararnir urðu pínulítið smeykir,“ segir hún og hlær. Óhappið hafi þó ekki dregið hana niður og bara lífgað upp á prófið.

Hugur Soffíu stendur til frekara náms í pípulögnum og stefnir hún að því að læra til pípulagningameistara síðar meir. Með því fetar hún í fótspor bróður síns, föður og afa en þeir eru allir pípulagningameistarar. Má því segja að pípulagnirnar gangi í ætt hennar. Hún reiknar þó ekki með að það verði alveg á næstunni heldur ætlar hún sér að ferðast til útlanda og skoða sig um áður en til þess kemur. skulias@mbl.is