STÚLKAN frá Litháen sem talin er hafa verið flutt hingað nauðug til þess að stunda vændi er að sögn Kolbrúnar Sævarsdóttur, saksóknara, talin í hættu og nýtur sérstakrar verndar af þeim sökum.

STÚLKAN frá Litháen sem talin er hafa verið flutt hingað nauðug til þess að stunda vændi er að sögn Kolbrúnar Sævarsdóttur, saksóknara, talin í hættu og nýtur sérstakrar verndar af þeim sökum. Vildi Kolbrún að öðru leyti ekki tjá sig um hagi stúlkunnar en hún er nítján ára gömul og segist hafa verið seld í vændi í heimalandi sínu. Mun hún bera vitni í málinu fari það fyrir dóm.

Kolbrún segir að ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málinu verði tekin í dag en gæsluvarðhald yfir fimm Litháum sem taldir eru eiga hlut að málinu rennur út í dag. Auk mannanna fimm sem sitja í gæsluvarðhaldi er Íslendingur grunaður um aðild að málinu en hann var ekki hnepptur í gæsluvarðhald.

Málið barst saksóknara fyrir um fjórum vikum og hafði fram að því verið í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Kom það til kasta hennar í október þegar stúlkan kom til landsins. skulias@mbl.is