SÍÐUSTU misserin hefur nokkuð verið rætt um ábyrgð í samfélaginu en hún getur verið af ýmsum toga. Þekktir einstaklingar, t.a.m. leikkonur, leikarar, kvikmyndagerðarfólk, myndasöguhöfundar (skáld), fjölmiðlafólk og fleiri eignast sökum starfa sinna aðdáendur sem fylgjast með sínu fólki, það sem það segir opinberlega og í verkum sínum er haft eftir því og fólk gerir hugmyndir þess að sínum. Er ekkert nema gott um það að segja þegar vel er með farið.
Þetta gerir það hins vegar einnig að verkum að sé viljinn fyrir hendi geta sumir ofangreindra alið á rætni og hatri í garð einstaklinga og gert þá tortryggilega á nánast allan máta þó að engin ástæða sé til þess. Þannig geta þau lagt þeim til hugsanir, skoðanir og viðhorf, viðkomandi álíti sig hitt og þetta, án þess þó að það eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum, og hamrað á ákveðnum tuggum sem eiga að vísa í viðkomandi og greypast í huga þeirra sem á hlýða eins og fyrir einhvers konar heilaþvott. Hefur þetta orðið til þess að einstaklingum er hótað líkamsmeiðingum og varanlegum skaða.
Óþarft er þó að gera þetta að öðru en akkúrat því sem það er – enda liggur nákvæmlega ljóst fyrir hjá hverjum þetta á upptök sín og hverjir hafa helst lagt sín lóð á vogarskálarnar.
Ég vona að leikkonur, leikarar, kvikmyndagerðarfólk, myndasöguhöfundar (skáld), fjölmiðlafólk og fleiri átti sig á þeim áhrifum sem þau geta haft, þeirri ábyrgð sem fylgir og þeim afleiðingum sem þeirra gjörðir geta haft fyrir aðra og láti framvegis þá sem kjósa frið fyrir þeim í friði.
Höfundur er háskólanemi.