Lækurinn Thomsens Magasin fyrir miðju og hægra megin. Húsið vinstra megin, Klúbb-húsið, stendur enn við Hafnarstræti 20. Lækurinn í Reykjavík er óbyrgður á myndinni, lítil brú yfir hann, en á torginu sjást pípur Vatnsveitunnar sem komu til landsins sumarið 1908. Pétur Brynjólfsson tók myndina.
Lækurinn Thomsens Magasin fyrir miðju og hægra megin. Húsið vinstra megin, Klúbb-húsið, stendur enn við Hafnarstræti 20. Lækurinn í Reykjavík er óbyrgður á myndinni, lítil brú yfir hann, en á torginu sjást pípur Vatnsveitunnar sem komu til landsins sumarið 1908. Pétur Brynjólfsson tók myndina.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

Í TILEFNI af 100 ára afmæli Vatnsveitunnar í Reykjavík í ár og 10 ára afmælis Orkuveitu Reykjavíkur, hefur Orkuveitan gefið út vegleg rit um sögu Vatnsveitunnar eftir Hilmar Garðarsson, Sögu Rafmagnsveitu Reykjavíkur eftir Sumarliða Ísleifsson og Sögu Hitaveitu Reykjavíkur eftir Lýð Björnsson. Í ritunum þremur er saga fyrirtækjanna rakin, en öll sameinuðust þau í Orkuveitu Reykjavíkur fyrir áratug.

Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrú Orkuveitunnar segir að ritin þrjú eigi sér mismunandi sögu. „Það var ákveðið á 90 ára afmæli Vatnsveitunnar, fyrir réttum áratug, að skrifa sögu hennar. Saga Rafveitunnar var gefin út 1995, en er nú endurútgefin með viðbótum. Saga Hitaveitunnar hefur verið í smíðum um hríð. Árið 2006 var svo ákveðið að stefna þessum ritum saman í eina heildaútgáfu.“

Hvatning til að veita sem besta þjónustu

En hvaða þýðingu hefur það fyrir Orkuveituna að halda sögu þessara fyrirrennara sinna til haga fyrir utan hið augljósa sagnfræðilega gildi?

„Orkuveita Reykjavíkur er samfélagslegt fyrirtæki, sem lítur á það sem eina af skyldum sínum að halda til haga sögu veitnanna. Af henni er meðal annars ljóst hversu mikil áhrif veiturnar hafa haft á þróun og velferð í þeim samfélögum, sem þær hafa þjónað.

Að þekkja þessa sögu, til dæmis áhrif góðrar vatnsveitu á heilsufar og atvinnulíf, áhrif hitaveitunnar á heilsufar og efnahag, áhrif rafveitunnar í lifnaðarhætti á heimilum fólks og atvinnuþróun, er Orkuveitunni og starfsfólki hennar hvatning til að veita samfélaginu sem allra besta þjónustu.“

Eiríkur segir að saga veitustofnananna þriggja sé að því leyti lík að hún hafi verið umdeild á vettvangi stjórnmálanna, enda hafi verið kostnaðarsamt á sínum tíma að koma starfsemi þeirra á fót. „Þannig var lagning Vatnsveitunnar, árið 1909, stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, til þess tíma. Rafveitan var ekki síður umdeild. Þannig var ákveðið að fara í gasvæðingu, áður en til rafvæðingar kom. Gasveitan stóðst ekki tímans tönn. Hitaveitan var afar umdeild. Til marks um það eru skoðanaskipti á 4. áratugnum um það hvert ætti að sækja heita vatnið; á Hengilssvæðið, en þar var ekki virkjað fyrr en 1990, í Krýsuvík þannig að Hafnfirðingar gætu fengið heitt vatn í leiðinni, eða í Mosfellssveit, sem raunin varð. Það má ekki gleyma því að hitaveitan ruddi úr vegi öðrum orkugjöfum, aðallega kolum og olíu og sendu starfsmenn Kola og salts yfirvöldum bænaskjal um að fá vinnu við lagningu hitaveitunnar.

Það sem er helst ólíkt að hitaveitan átti sér nánast engar fyrirmyndir erlendis. Framgangur hennar og umræða um hana réðst að verulegu leyti af því að hún var í raun þróunarverkefni alla tíð,“ segir Eiríkur.

Spurður um hvort einhver hluti veitnanna þriggja hafi farið forgörðum með tilkomu Orkuveitunnar segir Eiríkur að þvert á móti hafi þær sameinaðar reynst betur í stakk búnar til að halda sögunni til haga og minjum um hana. „Áhersla á þennan þátt var nokkuð mismunandi innan veitnanna en nú er leitast við að standa vörð um þennan þátt í sögu samfélaga og atvinnureksturs á Íslandi, hvort sem um er að ræða heitt vatn eða kalt eða rafmagn.“

Kostnaður við útgáfu og prentun bókanna nam, að sögn Eiríks, 7,8 milljónum króna.