ÁRIÐ sem senn syngur sitt síðasta var ár samskiptavefjanna Twitter og Facebook, ef marka má frétt frá fréttastofunni AFP. Facebook skaut MySpace ref fyrir rass og varð aðalsamskiptasíðan á netinu og Twitter óx gríðarlega. Á Twitter voru um fjórar milljónir notenda skráðar í upphafi árs en í árslok eru þeir um tíu sinnum fleiri. Það er þó smáræði í samanburði við Facebook, sá vefur er með um 350 milljónir notenda á skrá.
Þá hefur Twitter sannað sig sem mikilvæg fréttaveita, t.d. í júní sl. þegar upp úr sauð í forsetakosningum í Íran og þarlend stjórnvöld létu loka fyrir samskiptasíður, m.a. Facebook, en vissu greinilega ekki af tilvist Twitter. Íranar tóku að „tísta“ fréttum af mótmælum á Twitter og boðuðu m.a. mótmælafundi.