TRYGGVI Þór Herbertsson þingmaður segir í Morgunblaðinu í gær að höfnun Icesave „fælir frá erlenda fjárfestingu og viðheldur vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis“ og að „samþykkt feli í sér skammtíma ábata en verri lífskjör til...

TRYGGVI Þór Herbertsson þingmaður segir í Morgunblaðinu í gær að höfnun Icesave „fælir frá erlenda fjárfestingu og viðheldur vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis“ og að „samþykkt feli í sér skammtíma ábata en verri lífskjör til langs tíma“.

Við þingmennirnir höfum tekist á um ýmislegt í vetur en erum þó sammála um að erlend fjárfesting og erlend fjármögnun er ein lykilforsenda þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýju ári og þar gegni lúkning Icesave lykilhlutverki. En leiðir slíkt af sér verri lífskjör til lengri tíma? Væri ekki hyggilegra að freista þess af öllum mætti að koma atvinnulífinu í gang við fyrsta tækifæri? Stækka þannig kökuna sem er til skiptanna og greiða af Icesave í hagvexti, frekar en að fara leið sjálfstæðismanna og dýpka kreppuna í von um betri samning (sem er alls óvíst) og þannig herða í snörunni utan um íslenskt atvinnulíf. Það er óspennandi óvissuferð.

Sjálfstæðismenn hafa undanfarið rætt um mikilvægi þess að „breikka skattastofna“. Óskandi væri ef sjálfstæðismenn gættu samræmis í málflutningi sínum því innspýting erlendar fjárfestingar á nýju ári mun svo sannarlega breikka skattstofna. Frekar vil ég fara þá leið en að pína atvinnulífið enn frekar og fara með þeim í háskalega óvissuför sem lengir í kreppunni.

Höfundur er alþingismaður.