Í GÆR át enn einn stjórnarþingmaðurinn upp eftir Steingrími J. Sigfússyni þá flóttaleið að „almennt sé viðurkennt“ hjá „flestum þjóðum“ að ákveðin mál megi ekki setja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þetta sinn er það Árni Þór Sigurðsson sem þreytir flóttann:
„Auk þess er það yfirleitt svo hjá þeim þjóðum sem hafa slíkan ramma [um þjóðaratkvæðagreiðslur] að mál af ýmsum gerðum eru undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslum, s.s. fjárlög, skattamál, þjóðréttarlegar skuldbindingar og slíkir hlutir. Þetta mál er þeirrar gerðar,“ segir Árni í viðtali við mbl.is í gær.
Sex einfaldar staðreyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur
Ég vil benda Árna Þór Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Björgvini Sigurðssyni, og öðrum sem viðhafa sömu fullyrðingar eins og þeir hafi hrapað niður á einhvern stóra sannleik, á eftirtaldar, einfaldar staðreyndir:1. Danmörk er eina Norðurlandaríkið sem hefur slík takmarkandi ákvæði í stjórnarskrá sinni.
2. Af nágrannaríkjum okkar eru aðeins Danmörk og Ítalía sem undanskilja ákveðin málefni þjóðaratkvæði á þennan hátt í stjórnarskrá. Þar eru í báðum tilfellum sérstaklega tiltekin fjárlög og alþjóðasamningar.
3. Mjög skýrt og vel þekkt dæmi um hið gagnstæða er Sviss, ríki með mjög sterka hefð fyrir beinu lýðræði. Í Sviss getur almenningur (með undirskriftasöfnun) krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál sem er. Eina skilyrðið er að 50.000 undirskriftir safnist á innan við 100 dögum. Engin málefni eru þar undanskilin, hvorki alþjóðasamningar né fjárlög. Þessu gleyma Árni Þór, Steingrímur og félagar alltaf á hentugan hátt þegar þeir draga dönsku stjórnarskrána fram sem sitt eina haldreipi.
4. Því má bæta við að 50.000 manns eru 0,6% af svissnesku þjóðinni, sem telur um 8 milljónir manna. Í dag hafa 33.000 undirskriftir á www.indefence.is verið sannreyndar með samkeyrslu við þjóðskrá. Það eru 10,4% af íslensku þjóðinni (m.v. desembertölur Hagstofunnar). Það er sautjánfaldur fjöldi þeirra sem til þyrfti ef notast væri við sama hlutfall og í Sviss.
5. Icesave-samningarnir eru ekki alþjóðasamningar, (og því síður fjárlög). Stór hluti af vandanum kemur til vegna þess að þeir eru lánasamningar gerðir á grundvelli einkaréttar, sem íslenska ríkið á aðeins aðild að sem ábyrgðaraðili.
6. Þjóðaratkvæðagreiðsla um málið eins og það liggur nú fyrir Alþingi myndi því ekki snúast um rétt ríkisins til að skuldbinda ríkissjóð skv. alþjóðasamningi. Auk þess hefur Alþingi þegar samþykkt að veita ríkisábyrgð að uppfylltum ákveðnum fyrirvörum. Bretar og Hollendingar eru því með vilyrði Alþingis í höndunum fyrir fullgildum samningi.Þjóðaratkvæðagreiðsla um málið myndi því aðeins snúast um það hvort breytingalögin, (þ.e. nýju útþynntu fyrirvararnir), ættu að gilda eða hvort lögin sem nú eru í gildi, (gömlu fyrirvararnir frá því í ágúst) ættu að gilda áfram.
Má halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB en ekki um lög vegna ríkisábyrgðar?
Í ljósi þessa vakna mjög mikilvægar spurningar sem ég skora á Árna Þór Sigurðsson, Steingrím J. Sigfússon, Björgvin Sigurðsson og aðra sem hafa fullyrt á þennan hátt að svara opinberlega:Komandi aðildarsamningur Íslands að ESB hlýtur að teljast einn mikilvægasti alþjóðasamningur lýðveldissögunnar, og aðild að ESB myndi krefjast töluverðra fjárskuldbindinga af hendi Íslands, afsals fullveldisréttinda í hendur yfirþjóðlegu valdi og mögulega einnig sameiginleg yfirráð yfir auðlindum Íslands að einhverju marki, t.d. fiskimiðum.
Ef það er rétt sem þeir félagar halda fram (með sérvöldu dæmi um dönsku stjórnarskrána sér til stuðnings, tröll hafi svissneskt lýðræði), hvers vegna eru þá allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, og flest nágrannaríki (t.d. Danmörk og Noregur) sammála um að aðildarsamninga við Evrópusambandið skuli ótvírætt leggja undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar?
Hvernig eru það samrýmanleg sjónarmið að þjóðinni skuli annars vegar skilyrðislaust vera ætlað að ráða örlögum aðildarsamnings að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, en að þjóðin geti hins vegar ekki fengið að segja álit sitt á einfaldri ríkisábyrgð á lánasamningum vegna þess að „það sé almennt viðurkennt að alþjóðasamningar og málefni varðandi fjárskuldbindingar ríkisins séu undanskilin, eða henti ekki, þjóðaratkvæði“? Kakan verður ekki bæði geymd og étin.
Tugþúsundir Íslendinga bíða eftir skýrum svörum
Rúmlega 30.000 Íslendingar sem hafa ritað nafn sitt á indefence.is eiga kröfu á skýrum og greinargóðum svörum frá Árna Þór Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Björgvini Sigurðssyni og öllum öðrum sem hafa á síðustu vikum fullyrt að þjóðin geti ekki fengið að greiða atkvæði um ný Icesave-lög, og hafa aðeins nefnt sérvalið dæmi um dönsku stjórnarskrána því til stuðnings.Slíkar fullyrðingar byggðar á sérvöldum rökum eru til þess eins fallnar að kasta ryki í augu almennings. Er það einmitt tilgangurinn? Ef flóttamennirnir heykjast á því að svara þessum eðlilegu spurningum hlýtur maður að velta því fyrir sér.
Höfundur er grunnskólakennari og meðlimur InDefence-hópsins.