Hans Júlíus Þórðarson
Hans Júlíus Þórðarson
TVEGGJA barna móðir á fimmtugsaldri tók fréttum af 75 milljóna króna vinningi sínum í Happdrætti Háskóla Íslands með mikilli tortryggni.

TVEGGJA barna móðir á fimmtugsaldri tók fréttum af 75 milljóna króna vinningi sínum í Happdrætti Háskóla Íslands með mikilli tortryggni. Markaðs- og kynningarstjóri HHÍ hringdi í hana síðdegis í gær og var hún þess fullviss að verið væri að gera at í sér. Konan sannfærðist ekki fyrr en hún leit á vefsvæði happdrættisins og sá tölurnar með eigin augum.

Hans Júlíus Þórðarson, markaðs- og kynningarstjóri, segir konuna eðlilega hafa glaðst mikið. Hún tjáði honum að vinningurinn kæmi sannarlega á góðum tíma enda hefði fjölskyldan ráðist í byggingarframkvæmdir fyrir fáeinum árum. Eins og hjá svo mörgum Íslendingum hefði fjárhagsstaðan versnað til muna eftir hrun bankanna og nú væri svo komið að lán væru í frystingu. Þau lán yrðu væntanlega „affryst“ von bráðar.

Konan hefur átt miðann í nokkur ár og nokkrum sinnum fengið smærri vinninga. Í þetta skiptið fékk hún hins vegar stærsta vinning í sögu happdrættisins.

Líkt og öðrum sem vinna miklar fjárhæðir býðst henni fjármálaráðgjöf. andri@mbl.is